Fjölgun liða í 1. deild kvenna

Á komandi keppnistímabili mun kvennaliðum á Íslandsmóti liða fjölga sem er mikið gleðiefni fyrir keiluna. Tvö ný lið bætast við í deildarkeppnina og af þeim sökum ákvað stjórn KLÍ að fjölga liðum í 1. deild kvenna á komandi tímabili til að jafna fjölda liða í deildum. Verða kvennadeildirnar báðar skipaðar 8 liðum og því verða umferðirnar þrjár í hvorri deild skv. reglugerð. Einnig ákvað stjórn að taka þá upp fyrra fyrirkomulag í úrslitakeppni 1. deildar kvenna þannig að 4 efstu lið, að lokinni deildarkeppni, keppa til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Stjórn KLÍ samþykkti á stjórnarfundi í gær breytingu á Reglugerð um Íslandmót liða í þá veru. Verður reglugerðin uppfærð á vefnum von bráðar.

Þau lið sem fá sæti í 1. deild kvenna verða því lið ÍR BK, sem féll úr deildinni á síðasta tímabili, og KFR Skutlurnar sem varð í 2. sæti í 2. deild og keppti við KFR Afturgöngurnar um laust sæti í 1. deild.

Dagskrá komandi vetrar verður birt á næstu dögum en gert er ráð fyrir óbreyttum keppnistíma deilda í vetur.

Arnar Davíð sigraði í Munchen

Arnar Davíð Jónsson keilari úr KFR sigraði í dag á Track Open sem fram fór í Munchen í Þýskalandi. Mótið er hluti af Evróputúrnum og er þetta í annað sinn sem Arnar sigrar á móti á túrnum en hann vann mót í Óðinsvéum í september í fyrra.

Arnar sem býr í Svíþjóð og spilar með Höganas BC spilaði mjög vel í dag og náði forystunni í mótinu þegar 2 leikir voru eftir. Hann leit aldrei til baka eftir það og kláraði mótið með stæl.

Með sigrinum fór Arnar aftur á toppinn á stigalista Evróputúrsins en hann hafði fallið niður í 2. sæti eftir að hafa verið efstur í nokkrar vikur. Næsta mót fer fram í Óðinsvéum í Danmörku 25. ágúst til 1. september. Arnar á góðar minningar frá því móti og er til alls líklegur á mótaröðinni í ár.

Myndir / images: StreamForceBowling

Nýr íþróttastjóri Keilusambandsins – Kristján Ó Davíðsson

Stjórn KLÍ hefur ráðið Kristján Ó Davíðsson sem íþróttastjóra KLÍ en eins og kunnugt er sagði Theódóra (Dóra) upp störfum sem íþróttastjóri á vormánuðum. Kristján er 32. ára Hafnfirðingur, mikill Haukamaður og starfar hann m.a. sem formaður Karatedeildar Hauka í dag en Kristján hefur verið virkur í Karate deildinni þar frá 2002. Einnig er hann formaður dómaranefndar Karatesambands Íslands svo þarna er á ferð einstaklingur sem gjör þekkir íþróttasamfélagið. Kristján er kvæntur og eiga þau 2 börn.

Um leið og stjórn KLÍ fagnar komu Kristjáns til liðs við keiluna þakkar hún sömuleiðis Dóru fyrir afskaplega vel unnin störf sem fyrsti Íþróttastjóri sambandsins. Hún hefur nú mótað og rutt enn eina brautina fyrir keilu á Íslandi en lætur staðar numið að sinni. Dóra mun þó að sjálfsögðu aðstoða nýjan Íþróttastjóra KLÍ að fóta sig í starfi. Færir stjórn KLÍ henni miklar þakkir fyrir hennar störf.

Kristján mun hefja störf í byrjun ágústmánaðar og mun m.a. verða með viðveru á skrifstofu KLÍ.

Velkominn til starfa.

Samþykktir Íþróttaþings ÍSÍ 2019 – Bréf frá forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ

Á Íþróttaþingi ÍSÍ í maí s.l. voru samþykktar ýmsar áskoranir til íþróttahreyfingarinnar er varða hagsmunamál hennar sem og varðandi samfélagsleg málefni. Það er hvatt til þess af forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ að íþróttahreyfingin kynni sér þessi mál, sjá bréfið frá forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ sem og sjá yfirlit yfir þau mál sem samþykkt voru. Sérstök athygli er vakin á eftirfarandi þingskjölum en innihald þeirra beinist að allri íþróttahreyfingunni:

  • Þingskjal nr. 6 – Stefna ÍSÍ um þjálfaramenntun
  • Þingskjal nr. 7 – Áskorun um jafnréttismál
  • Þingskjal nr. 8 – Áskorun um baráttu gegn öllu ofbeldi
  • Þingskjal nr. 9 – Áskorun gegn rafrettum
  • Þingskjal nr. 10 – Áskorun gegn hagræðingu úrslita og lyfjamisnotkun í íþróttum
  • Þingskjali nr. 21 – Afreksstefna ÍSÍ

Guðný Gunnarsdóttir og Linda Hrönn Magnúsdóttir í 2. sæti á ESBC í Bologna Ítalíu

Þær stöllur úr ÍR TT Guðný Gunnarsdóttir og Linda Hrönn Magnúsdóttir enduðu í 2. sæti í tvímenningi á 28. ESBC mótinu sem fram fer í Bologna á Ítalíu. Spiluðu þær 6 leikja seríuna með 2.138

eða 178,2 í meðaltal. Þær Helga Sigurðardóttir og Bára áGústadóttir enduðu í 32. sæti í sínum flokki með 1.911 pinna eða 159,3 í meðaltal. Upplýsingar um mótið má finna á vefsíðu þess.

EM öldunga í Bologna Ítalíu er hafið

Þessa dagana stendur yfir Evrópumót öldunga 50+ ESBC en mótið fer fram í Bologna Ítalíu. Fyrir Íslands hönd keppa á mótinu þau Bára Ágústsdóttir, Guðný Gunnarsdóttir, Helga Sigurðardóttir, Linda Hrönn Magnúsdóttir og Þórarinn Már Þorbjörnsson. Mótið stendur yfir til laugardagsins 29. júní.

Í einstaklingskeppninni spilaði konurnar 6 leikjaseríuna eftirfarandi:

Guðný Gunnarsdóttir ÍR 1.058 eða 176,3 meðaltal (mtl.)

Helga Sigurðardóttir KFR 1.056 eða 176,0 mtl.

Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR 1.033 eða 172,17 mtl.

Bára Ágústsdóttir ÍR 868 eða 144,7 mtl.

Allar upplýsingar um mótið má finna á vefsíðu þess.

Liðskeppnum lokið á EMC 2019 – Andrés Páll keppir í Masters

Núna er liðskeppnum lokið á EM karlalandsliða EMC 2019 en keppt er í Munchen Þýskalandi. Rétt í þessu lauk keppni 5 manna liða og endaði íslenska liðið í 13. sæti af 31. Á morgun hefst keppni 24 meðaltalshæstu leikmanna mótsins og náði Andrés Páll Júlíusson ÍR 22. sætinu af alls 187 keppendum. Arnar Davíð Jónsson, sem á tíma var einnig meðal 24 efstu, seig aðeins niður töfluna síðustu daga og endaði í 29. sæti með 4.843 pinna eftir 24 leiki og vantaði aðeins 30 pinna til að halda sér uppi meðal 24 efstu. Masterskeppnin hefst á morgun kl. 7 að íslenskum tíma og er streymt frá henni beint á YouTube rás Stream Force 4 Bowling. Allar aðrar upplýsingar um mótið má finna á vefsíðu þess.

Árangur Íslands á mótinu var þessi:

Einstaklingskeppni – Frysta keppni mótsins

26. sæti Arnar Davíð Jónsson KFR /Höganas

49. sæti Andrés Páll Júlíusson ÍR

50. sæti Jón Ingi Ragnarsson KFR/BK Brio

72. sæti Gústaf Smári Björnsson KFR

120. sæti Einar Már Björnsson ÍR

125. sæti Gunnar Þór Ásgeirsson ÍR

Tvímenningur

6. sæti Ísland 3 Arnar Davíð og Jón Ingi

45. sæti Ísland 2 Andrés Páll og Gústaf Smári

49. sæti Ísland 1 Einar Már og Gunnar Þór

Þrímenningur

20. sæti Ísland 2 Arnar Davíð, Andrés Páll og Jón Ingi

24. sæti Ísland 1 Einar Már, Gunnar Þór og Gústaf Smári

Liðakeppni 5 manna

13. sæti Arnar Davíð, Andrés Páll, Gunnar Þór, Einar Már og Jón Ingi

All Events

22. sæti Andrés Páll Júlíusson

29. sæti Arnar Davíð Jónsson

59. sæti Jón Ingi Ragnarsson

92. sæti Gústaf Smári Björnsson

100. sæti Gunnar Þór Ásgeirsson

113. sæti Einar Már Björnsson

Fyrri degi liðakeppni 5 manna liða á EMC 2019 lokið

Í dag voru spilaðir fyrri 3 leikirnir í liðakeppni 5 manna liða á Evrópumóti karlalandsliða í keilu en mótið fer fram í Þýskalandi eins og fram hefur komið. Íslenska liðið er skipað þeim Andrési Páli, Arnari Davíð, Einari Má, Gunnari Þór og Jóni Inga. Strákarnir fóru heldur betur vel af stað og spiluðu fyrsta leikinn með 1.125 pinnum eða 225,0 í meðaltal og fóru í efsta sætið. Þeir gáfu síðan ögn eftir í næstu tveim leikjum sem fóru 907 og 938. Eru þeir með samtals 2.970 pinna eða 198 meðaltal og eru í 10. sæti eftir fyrri hlutann af alls 31 liðum. Best spilaði Andrés Páll en hann var með 644 seríu eða 214,7 í meðaltal.

Arnar Davíð er sem stendur í 21. sæti í heildarkeppni einstaklinga í mótinu, Andrés Páll er að banka á 24. manna dyrnar en hann er í 27. sæti með 202,6 í meðaltal. Íslandsvinurinn Mattias Wetterberg frá Svíþjóð er í 24. sætinu með 203,2.

Seinni leikirnir fara svo fram á morgun kl. 7 að íslenskum tíma. Hægt er að horfa á beina útsendingu á YouTube og svo eru skor, stöður og allar upplýsingar á vefsíðu mótsins.

Fyrri degi í þrímenningi á EMC2019 lokið

Í dag voru leiknir 3 leikir af 6 í forkeppni þrímennings á EM karlalandsliða í Þýskalandi. Í fyrri riðlinum léku þeir Gunnar Þór Ásgeirsson, Gústaf Smári Björnsson og Einar Már Björnsson og léku þeir leikina á 1.758 pinnum eða 195,3 í meðaltal. Sitja þeir í 27. sæti af 61. Best spilaði Gunnar Þór en hann var með 612 seríu.

Næst léku svo þeir Andrés Páll Júlíusson, Arnar Davíð Jónsson og Jón Ingi Ragnarsson. Léku þeir sína þrjá leiki á 1.784 eða 198,2 að meðaltali. Eru þeir í 19. sæti. Best spilaði Andrés Páll en hann var með 617 seríu.

Seinni þrír leikirnir í þrímenningi verða leiknir á morgun 17. júní og verða úrslit leikin milli 4 efstu strax á eftir forkeppninni.

Arnar Davíð situr nú í 12. sæti í heildarkeppni mótsins og hefur fallið niður um 4 sæti frá í gær. Andrés Páll er í 37. sæti, Jón Ingi er í 56. sæti, Gunnar Þór í 98. sæti Gústaf Smári í því 104. og Einar Már í 122. sæti.

Allar upplýsingar um mótið má finna á vefsíðu þess.

Forkeppni tvímennings lokið á EMC 2019 – Arnar og Jón hársbreidd frá úrslitum

Nú rétt í þessu lauk forkeppni í tvímenningi á Evrópumóti karlalandsliða í keilu en keppt er í Dream-Bowl Palace salnum í Munchen Þýskalandi. Arnar Davíð Jónsson og Jón Ingi Ragnarsson léku best íslensku keppendanna en þeir náðu 6. sæti með 2.488 pinna eða 207,3 í meðaltal og voru aðeins 7 pinnum frá því að komast í 4. sætið og í úrslit tvímenningsins.

Þeir Arnar og Jón lentu eins og segir í 6. sæti en alls voru 94 tvímenningar að keppa. Þeir Andrés Páll Júlíusson og Gústaf Smári Björnsson enduðu í 45. sæti og Einar Már Björnsson og Gunnar Þór Ásgeirsson enduðu í 49. sæti.

Til úrslita í tvímenningi leika á eftir m.a. Íslandsvinurinn Jesper Agerbo frá Danmörku en hann keppir með Thomas Larsen og urðu þeir í efsta sæti í forkeppninni með 2.654 pinna eða 221,2 i meðaltal. Þeir leika við félaga sína þá Mik Stampe og Carsten Warming Hansen en þeir urðu í 4. sæti. Julien Sermand og Valentin Saulnier frá Frakklandi urðu í 2. sæti en Valentin gerði sér lítið fyrir og lék fullkominn leik eða 300 sem er annar 300 leikur mótsins. Þeir leika við Finnana Tomas Käyhkö og Niko Oksanen.

Á mótum sem þessum er svokölluð All events keppni þar sem 24 meðaltals efstu keilarar leika til úrslita. Arnar Davíð Jónsson er þar sem stendur í 8. sæti eftir einstaklings- og tvímenningskeppnina. Andrés Páll Júlíusson kemur þar á eftir en hann er í 39. sæti.

Sigurvegari einstaklingskeppninnar, sem var fyrsta keppni mótsins, varð Englendingurinn Matty Clayton en hann sigraði heimamanninn Tobias Börding með 190 pinnum gegn 180 í þokkalega spennandi leik.

Á morgun hefst svo keppni í þrímenningi en þá eru leiknir 6 leikir í tveim riðlum og í lok dags verða úrslit í þeirri keppni. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvernig íslensku liðin verða skipuð en líkleg skipan eru Arnar Davíð, Jón Ingi og Andrés Páll annarsvegar og svo Einar Már, Gunnar Þór og Gústaf Smári hinsvegar.

Allar upplýsingar um mótið má finna á vefsíðu þess. Þar er hægt að sjá stöður í mótinu, skor í rauntíma, sjá beinar útsendingar á YouTube og fleira.