Forkeppni tvímennings lokið á EMC 2019 – Arnar og Jón hársbreidd frá úrslitum

Facebook
Twitter

Nú rétt í þessu lauk forkeppni í tvímenningi á Evrópumóti karlalandsliða í keilu en keppt er í Dream-Bowl Palace salnum í Munchen Þýskalandi. Arnar Davíð Jónsson og Jón Ingi Ragnarsson léku best íslensku keppendanna en þeir náðu 6. sæti með 2.488 pinna eða 207,3 í meðaltal og voru aðeins 7 pinnum frá því að komast í 4. sætið og í úrslit tvímenningsins.

Þeir Arnar og Jón lentu eins og segir í 6. sæti en alls voru 94 tvímenningar að keppa. Þeir Andrés Páll Júlíusson og Gústaf Smári Björnsson enduðu í 45. sæti og Einar Már Björnsson og Gunnar Þór Ásgeirsson enduðu í 49. sæti.

Til úrslita í tvímenningi leika á eftir m.a. Íslandsvinurinn Jesper Agerbo frá Danmörku en hann keppir með Thomas Larsen og urðu þeir í efsta sæti í forkeppninni með 2.654 pinna eða 221,2 i meðaltal. Þeir leika við félaga sína þá Mik Stampe og Carsten Warming Hansen en þeir urðu í 4. sæti. Julien Sermand og Valentin Saulnier frá Frakklandi urðu í 2. sæti en Valentin gerði sér lítið fyrir og lék fullkominn leik eða 300 sem er annar 300 leikur mótsins. Þeir leika við Finnana Tomas Käyhkö og Niko Oksanen.

Á mótum sem þessum er svokölluð All events keppni þar sem 24 meðaltals efstu keilarar leika til úrslita. Arnar Davíð Jónsson er þar sem stendur í 8. sæti eftir einstaklings- og tvímenningskeppnina. Andrés Páll Júlíusson kemur þar á eftir en hann er í 39. sæti.

Sigurvegari einstaklingskeppninnar, sem var fyrsta keppni mótsins, varð Englendingurinn Matty Clayton en hann sigraði heimamanninn Tobias Börding með 190 pinnum gegn 180 í þokkalega spennandi leik.

Á morgun hefst svo keppni í þrímenningi en þá eru leiknir 6 leikir í tveim riðlum og í lok dags verða úrslit í þeirri keppni. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvernig íslensku liðin verða skipuð en líkleg skipan eru Arnar Davíð, Jón Ingi og Andrés Páll annarsvegar og svo Einar Már, Gunnar Þór og Gústaf Smári hinsvegar.

Allar upplýsingar um mótið má finna á vefsíðu þess. Þar er hægt að sjá stöður í mótinu, skor í rauntíma, sjá beinar útsendingar á YouTube og fleira.

Nýjustu fréttirnar