Siðareglur KLÍ

Siðareglur KLÍ voru lagðar fyrir stjórn KLÍ 28. október 2021 til samþykktar. Þær verða lagðar fram á Ársþingi KLÍ 2022 til staðfestingar. Markmið þeirra er að efla og styrkja innra starf sambandsins. Þær eru leiðarljós félagsmanna um hlutverk og skyldur hvers og eins þátttakenda. Hverjum og einum innan vébanda KLÍ ber að virða þessar reglur í hvívetna.

Siðareglur KLÍ í PDF skjali

Siðarreglur Keilusambands Íslands, KLÍ

Lagt fyrir stjórn KLÍ til samþykktar 28.10.2021 Verður lagt fyrir 29. Ársþing KLÍ 2022 til samþykktar

Almennar reglur sem gilda fyrir alla innan vébanda KLÍ

 1. Kynntu þér og tileinkaðu þær siðareglur sem hér er að finna. Komdu fram af fullkomnum heilindum og láttu framkomuna endurspegla viðhorf þitt til grundvallarreglna og markmiða Keilusambands Íslands.
 2. Vísað er í siðareglur ÍSÍ sem aðildarsamböndum ber að fylgja, sjá nánar hér.
 3. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig.
 4. Gættu þess að misbjóða ekki virðingu einstaklinga eða hópi einstaklinga t.d. hvað varðar kynferði, þjóðerni, kynþátt, litarhaft, menningu, tungumál, trúarbrögð, kynhneigð og stjórnmálaskoðanir.
 5. Vertu til fyrirmyndar í framkomu og hegðun.
 6. Forðastu notkun niðrandi ummæla, upphrópana og blótsyrða í tengslum við æfingar og keppni í keilu.
 7. Gættu að vandvirkni, heiðarleika og samviskusemi í starfi fyrir KLÍ og að orð og athæfi samrýmist starfi og umhverfi, stað og stund.
 8. Taktu aldrei, hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti þátt í veðmálum, fjárhættuspilum, happdrætti og þess háttar viðburðum eða viðskiptum í tengslum við íþróttaviðburði sem þú getur haft áhrif á.
 9. Óheimilt er að neyta áfengis, tóbaks eða annarra vímugjafa í fatnaði merktu Keilusambandi Íslands innanlands og utan.

Fyrir stjórnarmenn KLÍ, starfsmenn KLÍ, nefndarmenn KLÍ og aðra sem koma fram í nafni KLÍ

 1. Vertu hlutlaus í samskiptum þínum við opinberar stofnanir, innlend og alþjóðleg samtök sem og önnur sambönd eða hópa innan sem utan KLÍ.
 2. Stuðlaðu að jöfnum tækifærum allra til þátttöku í keilu.
 3. Virtu lýðræðisreglur, gagnsæi við ákvarðanatöku og stjórnaðu samkvæmt reglum um ábyrga fjármálastjórn.
 4. Tryggðu að persónuleg réttindi þeirra aðila sem þú ert í sambandi við og átt í samskiptum við séu varin, virt og tryggð.
 5. Gerðu þér grein fyrir hlutleysi og trúnaðarskyldum við störf.
 6. Gættu að vandvirkni, heiðarleika og samviskusemi í starfi fyrir KLÍ og að orð og athæfi samrýmist starfi og umhverfi, stað og stund.
 7. Stuðlaðu að góðum samskiptum við stjórnarmenn, nefndarfólk, þjálfara, leikmenn og aðra aðstandendur aðildarfélaga KLÍ.
 8. Taktu ekki við gjöfum og þess háttar ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist. Gefðu heldur ekki gjafir og þess háttar ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist.
 9. Þiggðu aldrei mútur.
 10. Taktu aldrei við umboðslaunum eða loforðum um umboðslaun, fyrir hvers konar samningagerð við skyldustörf.
 11. Leystu ágreining og árekstra á sanngjarnan hátt og til samræmis við reglur og venjur íþróttahreyfingarinnar.
 12. Misnotaðu aldrei aðstöðu þína til að koma eigin hagsmunum á framfæri á kostnað keilusamfélagsins.

Fyrir dómara / mótstjóra á vegum KLÍ

 1. Settu öryggi og heilsu leikmanna fram yfir allt annað.
 2. Sýndu leikmönnum, þjálfurum og öðrum sem koma að leiknum virðingu.
 3. Taktu ávallt ábyrgð á ákvörðunum þínum.
 4. Leitaðu þekkingar og fylgstu með þróun í keiluheiminum varðandi lög og reglur.
 5. Misnotaðu aldrei stöðu þína sem dómari/mótsstjóri.

Fyrir þjálfara KLÍ

 1. Vertu leikmönnum þínum góð fyrirmynd og spornaðu gegn óíþróttamannslegri og niðurlægjandi hegðun.
 2. Sýndu keilunni virðingu og virtu reglur hennar, venjur og siði. Stuðlaðu að því að iðkendur geri slíkt hið sama og kenndu þeim að virða dómara og keppinauta.
 3. Gerðu þér grein fyrir trúnaðarskyldum við störf.
 4. Vertu til fyrirmyndar í framkomu og hegðun.
 5. Gættu að vandvirkni, heiðarleika og samviskusemi í starfi fyrir KLÍ og að orð og athæfi samrýmist starfi og umhverfi, stað og stund.
 6. Leitaðu þekkingar og fylgstu með þróun í íþróttinni keilu.
 7. Misnotaðu aldrei stöðu þína sem þjálfari.
 8. Sýndu meiðslum og veikindum leikmanna tillitssemi.

Fyrir leikmenn sem valdir eru í landsliðshóp á vegum KLÍ

 1. Virtu allar þær reglur og skilaboð sem landsliðsþjálfari eða forysta KLÍ gefur út fyrir landsliðsmenn.
 2. Gerðu alltaf þitt besta og berðu virðingu fyrir öðrum bæði sam- og mótherjum.
 3. Ekki láta í ljósi neikvæðar eða niðrandi athugasemdir gagnvart öðrum iðkendum, keppinautum, dómurum, þjálfurum og liðsstjórum sem og öðrum aðilum sem koma að keilustarfinu með einum eða öðrum hætti.
 4. Forðastu notkun niðrandi ummæla, upphrópana og blótsyrða í tengslum við keppni í keilu.
 5. Gerðu þér grein fyrir því að þú ert fyrirmynd þeirra sem yngri eru.