Keiludeild ÍR stendur fyrir Stórmóti ÍR í keilusalnum Arctic Bowl sunnudaginn 11. júní n.k. og verður það sennilega síðasta tækifæri keilara til að spila í salnum áður en Varnarliðið yfirgefur landið. Sjá nánar í auglýsingu
Tilkynning liða vegna næsta keppnistímabils
Samkvæmt 2. grein reglugerðar um Íslandsmót liða skulu keilufélög og keiludeildir skila inn skráningu eldri liða í síðasta lagi 15. maí ár hvert, en skráningu nýrra liða skal lokið í síðasta lagi 31. júlí. Vegna þeirra breytinga og óvissu sem ríkir í aðstöðumálum keilunnar var hins vegar ákveðið á formannafundi á vegum KLÍ í síðustu viku að framlengja skráningarfrestinn a.m.k. til næstu mánaðarmóta. Nánari upplýsingar gefa formenn keilufélaga og keiludeilda.
Tölfræði íþróttahreyfingarinnar
Á hverju ári skila aðilar íþróttahreyfingarinnar starfsskýrslum til ÍSÍ. Skýrslurnar innihalda m.a. lista yfir iðkendur og félaga íþróttafélaganna og út frá þeim tölum er unnin samantekt og tölfræði sem gefur góða mynd af umfangi og stærð íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þessi tölfræði er nú aðgengileg á heimasíðu ÍSÍ
Keila í Mjódd lokar 13. maí 2006
Húsnæði Keilu í Mjódd hefur verið selt fasteignafélaginu Landsafli fyrir rekstur heilsugæslustöðvar. Keilusalnum verður lokað frá og með morgundeginum, föstudeginum 12. maí kl. 23:30. Keilarar eru beðnir um að sækja kúlur og annað dót sem þeir eru með í geymslu í salnum fyrir þann tíma. Allar nánari upplýsingar í Keilu í Mjódd í síma 587 1222.
Styrkir frá ÍSÍ
Keilusamband Íslands hefur fyrir árið 2006 fengið úthlutað tveimur styrkjum frá ÍSÍ. Úr Ólympiufjölskyldunni upphæð kr. 300.000 vegna landsliðsverkefna og að auki 4 frífarseðla á áfangastaði Flugleiða, samtals að upphæð 440.000 kr. Hins vegar úr ríkisstyrk til ÍSÍ vegna sérsambanda ÍSÍ fjárhæð að upphæð kr. 800.000. Sérsamböndunum er ekki heimilt að nota þetta fé til annars en starfsmannakostnaðar, reksturs skrifstofu og fræðslu- og útbreiðslumála viðkomandi íþróttagreinar. Verður styrkurinn greiddur út í fjórum greiðslum 1. mars, 1. júní, 1. september og 1. desember eftir uppgjör þar sem fram kemur sundurliðaður kostnaður og öll fylgiskjöl hvers sambands fyrir sig.
Árlegur stafgöngudagur ÍSÍ
Næstkomandi laugardag, 13. maí verður árlegur stafgöngudagur ÍSÍ. Á stafgöngudeginum taka þjálfarar á móti göngufólki á 12 stöðum á landinu og kenna rétta notkun stafanna og síðan verður gengið í uþb. 40 mínútur. Þeir sem eiga stafi eru hvattir til að hafa þá með sér en einnig verða stafir til taks sem göngufólk getur fengið lánað á meðan kennslu stendur. Allir þátttakendur fá að gjöf skrefamæla frá Kellogg´s sem nýtast vel við að mæla hve mikið er gengið. Kennslan fer fram á eftirtöldum stöðum á Suðvesturlandi: Akranes Skógræktin kl. 10:00, Garðabær Við Vífilstaðavatn Kl. 10:00, Ásgarður kl. 11:00, Reykjavík Skautahöllin Kl. 13:00 og 14:00. Stafir til láns á öllum stöðum. Sjá nánar á heimasíðu ÍSÍ www.isisport.is
Hjólað í vinnuna
Fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ ,,Hjólað í vinnuna“ hófst 3. maí og stendur til 16. maí n.k. Nú þegar hafa 220 vinnustaðir skráð lið til leiks, en hægt er að skrá lið til leiks á heimasíðu verkefnisins á www.isisport.is á meðan keppnin stendur yfir. Meginmarkmið ,,Hjólað í vinnuna“ er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Keppt er í 6 fyrirtækjaflokkum um flesta hjólaða daga og flesta hjólaða km., hlutfallslega miðað við fjölda starfsmanna í fyrirtækjum. Allir þeir sem nýta eigin orku til að koma sér til vinnu s.s. hjóla eða ganga geta tekið þátt. Þeir sem taka strætó eru einnig gjaldgengir þátttakendur en þá telur sú vegalengd sem gengin er til og frá stoppistöð. Samhliða leiknum stendur verkefnið fyrir hjóladegi fyrir fjölskylduna í samstarfi við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn sunnudaginn 14. maí. Allar nánari upplýsingar og skráning er á www.isisport.is.
Ráðstefna ÍSÍ um afreksíþróttir

ÍSÍ og Íþróttafræðasetur KHÍ á Laugarvatni boða til ráðstefnu um afreksíþróttir á Íslandi. Ráðstefnan verður haldin á Hótel Loftleiðum föstudaginn 12. maí n.k. og hefst kl. 12:15 með ávarpi menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Einnig verður kynning á því sem frændur vorir Danir eru að gera í sínum afreksmálum í gegnum “Team Danmark”. Fyrirlesarar verða m.a.: Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari í handknattleik – Brian Marshall landsliðsþjálfari í sundi – Martin Elleberg Pedersen Team Danmark – Lotte Moller Team Danmark – Stefán Konráðsson framkvæmdastjóri ÍSÍ – Dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson frjálsíþróttaþjálfari og kennari við KHÍ – Teitur Þórðarson knattspyrnuþjálfari. Aðgangur er ókeypis en vinsamlegast tilkynnið þátttöku á skrifstofu ÍSÍ í síma 514 4000 eða á netfangið; [email protected] fyrir kl. 16:00 fimmtudaginn 11. maí. Sjá nánar á heimasíðu ÍSÍ www.isisport.is
Steinþór og Róbert Dan Íslandsmeistarar
Það voru þeir Steinþór Geirdal Jóhannsson og Róbert Dan Sigurðsson úr ÍR sem stóðu uppi sem Íslandsmeistarar í tvímenningi í gærkvöldi, eftir æsispennandi úrslit.
Björn Birgisson og Hafþór Harðarson úr KFR, sem leiddu að lokinni forkeppni og milliriðli, héldu forystunni út undanúrslitin, þar sem sex efstu tvímenningarnir léku allir gegn öllum. Þeir léku best allra í undanúrslitum, eða á 203,9 meðaltali. Steinþór og Róbert Dan léku næst best, á 194,8 meðaltali, og voru að auki með flesta bónuspinna, 170 talsins, og komust þannig upp í annað sæti. Í þriðja sæti enduðu Magnús Magnússon og Björn G. Sigurðsson, en þeir unnu sig upp úr sjötta sætinu.
Í úrslitum léku því Björn og Hafþór gegn þeim Steinþóri og Róberti, en úrslitakeppnin var leikin eftir lítillega breyttu fyrirkomulagi frá síðasta ári. Tvímenningnum sem var í fyrsta sæti að loknum undanúrslitum dugði að ná í tvö stig á meðan, á meðan sá í þriðja sæti þurfti þrjú stig, en eitt stig var gefið fyrir sigur í viðureign og hálft fyrir jafntefli, en áður féllu jafnteflis viðureignir niður.
Steinþór og Róbert Dan byrjuðu af miklum krafti, unnu fyrsta leikinn með 479 pinnum gegn 409, og þann annan með 423 gegn 418. Björn og Hafþór unnu síðan næsta leik naumlega með 383 gegn 377 pinnum Steinþórs og Róberts, og hefði því dugað sigur í næsta leik. Úrslitin í þeim eik réðust í síðasta skoti, þegar Steinþór tók 9 pinna, og unnu þeir leikinn með 377 pinnum 376.
Steinþór og Róbert Dan úr ÍR eru því sem fyrr segir Íslandsmeistarar, og óskum við þeim til hamingju með það.
Myndir frá kvöldinu eru væntanlegar.
Keppni hafin í Íslandsmótinu í tvímenningi
Keppni hófst í morgun í Íslandsmótinu í tvímenningi, en 10 tvímenningar voru skráðir til keppni. Í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð var leikin forkeppni, 4 leikir, þar Björn Birgisson og Hafþór Harðarson úr KFR léku best, 1.696, eða 212 að meðaltali. Næstir komu feðgarnir Magnús S. og Magnús Magnússynir, einnig í KFR, með 1.612 eða 201,5 að meðaltali, og skammt á eftir í þriðja sæti þeir Steinþór Geirdal og Róbert Dan Sigurðsson úr ÍR með 1.607 eða 200,9 að meðaltali.
Milliriðill, þar sem allir 10 léku áfram, var síðan leikinn í Keilu í Mjódd þar sem þeir Björn og Hafþór léku aftur best allra og bættu forystu sína, þrátt fyrir að hafa ekki leikið jafn vel og um morguninn, en að loknum milliriðli eru þeir með 3.181, eða 198,8 að meðaltali, en staða þriggja efstu tvímenninganna hélst óbreytt. Með þeim þremur fara í undanúrslit Andrés Páll Júlíusson og Sveinn Þrastarson úr KR, Jón Ingi Ragnarsson og Bjarni Páll Jakobsson úr KFR, og Magnús Magnússon og Björn Sigurðsson úr KR.
Undanúrslit fara fram í Keilu í Mjódd annað kvöld og hefjast klukkan 19:00, en þar leika 6 efstu tvímenningarnir allir við alla, 5 leiki, en skorið úr forkeppni og milliriðli fylgir þeim áfram. Úrslit fara síðan fram strax að loknum undanúrslitum.