15. Ársþing KLÍ

Í gær fór fram 15. ársþing KLÍ, en það var að þessu sinni háð í Íþróttamiðstöðinni á Álftanesi.  20 fulltrúar af 25 sátu þingið ásamt stjórn KLÍ, Hafsteini Pálssyni úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sem var þingforseti, auk Ólafs Rafnssonar, forseta ÍSÍ, sem flutti þinginu kveðju frá ÍSÍ.

Á þinginu sagði Þórhallur Hálfdánarson sig frá formennsku.  Nýr formaður var kjörinn Þórir Ingvarsson, sem hefur um árabil verið formaður Keilufélags Reykjavíkur.  Til eins árs í stjórn var kjörinn Hörður Ingi Jóhannsson, og til tveggja ára Valgeir Guðbjartsson og Þórarinn Már Þorbjörnsson.  Varamenn voru kjörnir Ásgrímur Helgi Einarsson, Guðmundur Sigurðsson og Helga Sigurðardóttir. 

 

Fjórar tillögur að breytingum á reglugerðum voru teknar til afgreiðslu.  Tillaga um að afnema leik um 3. sæti í Íslandsmóti liða var samþykkt, sem og nokkrar breytingar um frestanir á leikjum, eftir nokkrar umræður og frekari breytingar.  Felld var tillaga frá KFK um breytingu á reglum um búninga, en samþykktar breytingar á upphitunartíma.  Önnur tillaga frá KFK, um breytingar á reglugerð um aganefnd, hafði áður verið samþykkt á formannafundi og var því ekki tekin til afgreiðslu.

Á myndunum má sjá Þórhall Hálfdánarson, fráfarandi formann, við þingsetningu, og Ólaf Rafnsson, forseta ÍSÍ, ávarpa þingið.

Pepsi Max

Við viljum vekja athygli á að Pepsí Max mótin verða út maí mánuð. Þ.e. 11, 18 og 25 maí. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem eru að fara út að spila í sumar, hvort sem er með landsliðum, æfingabúðir eða aðrar ferðir. Eða bara ef ykkur langar að framlengja keilutímabilið. Fyrir þá sem ekki hafa mætt er keppt klukkan 19:00 og 20:30 í þriggja leikja seríum og keppnin er flokkaskipt.

Sigfríður og Steinþór Sjóvá meistarar 2008

Úrslit Sjóvá Bikarsins, bikarkeppni einstaklinga í keilu fóru fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð sunnudaginn 4. maí 2008. Sigfríður Sigurðardóttir KFR og Steinþór G. Jóhannsson ÍR eru Bikarmeistarar Sjóvá árið 2008. Er þetta annað árið í röð sem Sigfríður vinnur titilinn og fjórða skiptið í allt, en Sigfríður vann áður árin 2004 og 2005. Steinþór vann áður árin 2001 og 2002. Í öðru sæti voru þau Sigurlaug Jakobsdóttir ÍR og Björn Guðgeir Sigurðsson KR.

Í úrslitunum vann Sigfríður mótherja sinn Sigurlaugu Jakobsdóttur  með 592 pinnum gegn 498. Leikir Sigfríðar voru 155, 230 og 207, en leikir Sigurlaugar 155, 210 og 133. Steinþór vann vann Björn Guðgeir með 623 pinnum gegn 509. Leikir Steinþórs voru 205, 256 og 162, en leikir Björns Guðgeirs 168, 192 og 149.

Í undanúrslitunum vann Sigfríður, Rögnu Matthíasdóttur úr KFR þegar hún spilaði 149, 257 og 151 eða samtals 557 gegn 549. Sigurlaug vann liðsfélaga sinn Lindu Hrönn Magnúsdóttur ÍR þegar hún spilaði 174, 175, 208 eða samtals 557 gegn 444. Í karlaflokknum sigraði Steinþór mótherja sinn Andrés Pál Júlíusson nokkuð örugglega með hæstu seríu mótsins 189, 265 og 279 eða samtals 733 gegn 559. Í hinum leiknum vann Björn Guðgeir liðsfélaga sinn Magnús Magnússon KR með 4 pinnum þegar hann spilaði 201, 156 og 162 eða samtals 519 gegn 515.

Úrslitaleikirnir fóru þannig:
Sigfríður Sigurðardóttir KFR 592 Sigurlaug Jakobsdóttir ÍR 498
Steinþór G. Jóhannsson ÍR 623 Björn Guðgeir Sigurðsson KR 509

Undanúrslitaleikir fóru þannig:
Sigfríður Sigurðardóttir KFR 557 Ragna Matthíasdóttir KFR 549
Sigurlaug Jakobsdóttir ÍR 557 Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR 444
Steinþór G. Jóhannsson ÍR 733 Andrés Páll Júlíusson KR 559
Björn Guðgeir Sigurðsson KR 519 Magnús Magnússon KR 515

8 manna úrslit fóru þannig:
Ragna Matthíasdóttir KFR 571 Sigríður Klemensdóttir ÍR 464
Þórunn Hulda Davíðsdóttir ÍR 396 Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR 481
Sigfríður Sigurðardóttir KFR 552 Guðný Gunnarsdóttir ÍR 471
Herdís Gunnarsdóttir ÍR 479 Sigurlaug Jakobsdóttir ÍR 480
Magnús S. Guðmundsson ÍA 558 Andrés Páll Júlíusson KR 624
Björn Guðgeir Sigursson KR 620 Sigurbjörn S. Vilhjálmsson 541
Steinþór G. Jóhannsson ÍR 648 Arnar Sæbergsson ÍR  Forföll
Þórarinn M. Þorbjörnsson ÍR 537 Magnús Magnússon KR 594

Sigurvegararnir, þau Sigfríður og Steinþór, tóku einnig bæði metin fyrir hæstu leiki og hæstu seríur í úrslitaleikjunum. Sigfríður hlaut viðurkenningu fyrir hæstu seríu kvenna 592 og hæsta leik kvenna 257 og Steinþór hlaut viðurkenningu fyrir hæstu seríu karla 733 og hæsta leik karla 279.

Bikarkeppni einstaklinga í keilu hefur verið haldin undir merki Sjóvá frá árinu 1989 og hefur umsjón mótsins undanfarin ár verið í höndum keiluliðsins ÍR-TT og Keiludeildar ÍR. Sjá nánar um úrslit mótsins á heimasíðu KLÍ www.kli.is og íslensku keilusíðunni www.keila.is . Mótstjórnin þakkar öllum keppendum fyrir þátttökuna í mótinu að þessu sinni og vonast til að sjá þá alla á næsta ári.
 

Ásgeir Þór og Steinþór Íslandsmeistarar

Steinþór Jóhannsson og Ásgeir Þór Þórðarson úr ÍR urðu í gær Íslandsmeistarar í tvímenningi eftir að hafa haft forystu frá því í þriðja leik.

Í undanúrslitunum í gær sigruðu þeir alla sína leiki, en meðaltal þeirra í undanúrslitunum var 220,6 og meðaltal þeirra úr öllum leikjum í mótinu var 213,9.

Steinþór og Ásgeir mættu þeim Andrési Páli Júlíussyni og Magnúsi Magnússyni úr KR í úrslitunum, en þeir voru einnig mjög sterkir í undanúrslitunum í gær og höfðu að lokum 539 pinna forskot á þriðja sætið.

Steinþór og Ásgeir Þór efstir

Í gærkvöld hóf Íslandsmót í tvímenningi þegar leikin var forkeppni og milliriðill.  Þeir Magnús Magnússon og Andrés Páll Júlíusson úr KR voru efstir eftir fyrsta og annan leik í forkeppninni, en Steinþór Jóhannsson og Ásgeir Þór Þórðarson úr ÍR tóku þá forystuna og halda henni enn.

Undanúrsilt, þar sem 6 efstu tvímenningarnir leika allir við alla, hefst kl. 19.00 í Keiluhöllinni í kvöld, og að þeim loknum leika tveir efstu tvímenningarnir til úrslita.

Sjóvá Bikarinn 2008

Að lokinni forkeppni í Sjóvá mótinu voru þau Ragna Matthíasdóttir KFR (1.104) og Arnar Sæbergsson ÍR (1.369) efst í mótinu, en Ágústa Þorsteinsdóttir KFR (236) og Steinþór G. Jóhannsson ÍR (267) áttu hæstu leikina.

Í dag laugardag 3. maí fóru fram 24 manna úrslit karla og 16 manna úrslit karla og kvenna og átti Magnús Magnússon KR hæstu seríu dagsins 695.

Á morgun byrja 8 manna úrslit karla og kvenna kl. 9:00 og mætast þar:

Ragna Matthíasdóttir KFR – Sigríður Klemensdóttir ÍR
Þórunn H. Davíðsdóttir ÍR – Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR
Sigfríður Sigurðardóttir KFR  – Guðný Gunnarsdóttir ÍR
Herdís Gunnarsdóttir ÍR – Sigurlaug Jakobsdóttir ÍR

Magnús Sigurjón Guðmundsson KFA – Andrés Páll Júlíusson KR
Björn Guðgeir Sigurðsson KR – Sigurbjörn Stefán Vilhjálmsson ÍR
Steinþór G. Jóhannsson ÍR – Arnar Sæbergsson ÍR
Þórarinn Már Þorbjörnsson ÍR – Magnús Magnússon KR

Forkeppnin í Bikarkeppni SJÓVÁ langt komin

Leikið hefur verið í Bikarkeppni Sjóvá þessa vikuna, en fyrir síðasta dag forkeppninnar hefur Ragna Matthíasdóttir spilað best í kvennaflokki 1.104, en Arnar Sæbergsson í karlaflokki 1.369.

 
Alls hafa 10 konur og 18 karlar tekið þátt.
 
Síðasta umferðin fer fram föstudaginn 2. maí kl. 17:30 og útsláttakeppnin hefst svo á laugardag, karlar byrja klukkan 9 en konur klukkan 11. 
 
Skráning er hjá [email protected] eða í síma 825-1213.
 
 

Sollumótið 2008

Sollumótinu lauk á laugardag.  Til úrslita léku fyrst Anna Soffía og Magnús Guðmundsson og sigraði Magnús 184 gegn 181.

Síðan léku Magnús og Davíð til úrslita og þar vann Davíð sannfærandi 206 gegn 145.  Hann hampaði því bikarnum 2008.

Þátttaka í mótinu var góð, 30 keppendur og viljum við þakka öllum fyrir gott mót

ÞI

Leikheimildir milli landa

Í kjölfar úrslitakeppnar í Íslandsmóti liða vöknuðu upp spurningar um hvort íslenskur leikmaður sem búsettur er erlendis og keppir með liði þar í landi væri hlutgengur með því liði sem hann er skráður í hér heima.  Í reglum KLÍ eru engin ákvæði sem banna slíkt, en í lögum ÍSÍ kemur fram að íþróttamaður sem dveljist tímabundið erlendis missi ekki réttindi hér heima, en taka skuli tillit til regla þeirra sem alþjóðasambönd setja. Sjá Móta og keppendareglur ÍSÍ

Leitað var álits Evrópska keilusambandsins (ETBF), sem vísar til regla Alþjóða keilusambandsins (WTBA), þar sem fram kemur að aðildarsambönd (líkt og KLÍ) skuli leyfa keilurum að vera aðilar að fleiri en einu aðildarsambandi samtímis.  Ennfremur, að aðildarsambönd megi ekki setja reglur sem gangi þvert á reglur FIQ/WTBA.

 
Hér að neðan má lesa erindi frá ETBF.