15. Ársþing KLÍ

Facebook
Twitter

Í gær fór fram 15. ársþing KLÍ, en það var að þessu sinni háð í Íþróttamiðstöðinni á Álftanesi.  20 fulltrúar af 25 sátu þingið ásamt stjórn KLÍ, Hafsteini Pálssyni úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sem var þingforseti, auk Ólafs Rafnssonar, forseta ÍSÍ, sem flutti þinginu kveðju frá ÍSÍ.

Á þinginu sagði Þórhallur Hálfdánarson sig frá formennsku.  Nýr formaður var kjörinn Þórir Ingvarsson, sem hefur um árabil verið formaður Keilufélags Reykjavíkur.  Til eins árs í stjórn var kjörinn Hörður Ingi Jóhannsson, og til tveggja ára Valgeir Guðbjartsson og Þórarinn Már Þorbjörnsson.  Varamenn voru kjörnir Ásgrímur Helgi Einarsson, Guðmundur Sigurðsson og Helga Sigurðardóttir. 

 

Fjórar tillögur að breytingum á reglugerðum voru teknar til afgreiðslu.  Tillaga um að afnema leik um 3. sæti í Íslandsmóti liða var samþykkt, sem og nokkrar breytingar um frestanir á leikjum, eftir nokkrar umræður og frekari breytingar.  Felld var tillaga frá KFK um breytingu á reglum um búninga, en samþykktar breytingar á upphitunartíma.  Önnur tillaga frá KFK, um breytingar á reglugerð um aganefnd, hafði áður verið samþykkt á formannafundi og var því ekki tekin til afgreiðslu.

Á myndunum má sjá Þórhall Hálfdánarson, fráfarandi formann, við þingsetningu, og Ólaf Rafnsson, forseta ÍSÍ, ávarpa þingið.

Nýjustu fréttirnar