Valgeir endurkjörinn í stjórn ETBF.

Í dag fór fram ársþing Evrópska Keilusambandsins, ETBF, í Vín í tengslum við Evrópumót landsmeistara.  

Valgeir Guðbjartsson var endurkjörinn í stjórn sambandsins og mun því sitja í stjórn ETBF næstu 4 ár.
Það er keilunni á Íslandi mikill fengur að hafa Valgeir í stjórn ETBF og heiður fyrir Valgeir að  vera endurkjörinn.

Valgeir hefur setið í stjórn ETBF síðan 2005 og er varamaður í stjórn Keilusambands Íslands. 

KLÍ fær aukaúthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ

ÍSÍ hefur úthlutað Keilusambandi Íslands styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ.

 

Keilu­sam­band Íslands, KLÍ, starf­ræk­ir öfl­ugt af­reks­starf, en sam­bandið hef­ur á sín­um snær­um þrjá af­reks­hópa. Þetta eru af­reks­hóp­ur kvenna, karla og ung­menna. Íþrótta­sam­band Íslands, ÍSÍ, hef­ur ákveðið að veita KLÍ styrk úr Af­reks­sjóði ÍSÍ vegna af­reks­starfs KLÍ. 

Samn­ing­ur­inn um styrk­inn var und­ir­ritaður á blaðamanna­fundi sem hald­inn var i höfuðstöðvum ÍSÍ í dag. Styrk­ur­inn hljóðar upp á 1.600.000 krón­ur og skal hann renna í af­reks­starf KLÍ.  Fyrr á ár­inu var af­greiddur 1.100.000 króna styrk­ur frá ÍSÍ til KLÍ. 

 

Það voru Lár­us Blön­dal, formaður ÍSÍ, og Ásgrím­ur Helgi Ein­ars­son, formaður KLÍ, sem und­ir­rituðu samn­ing­inn í há­deg­inu í dag ásamt Unni Vilhjálmsdóttir gjaldkera KLÍ og Lilju Sigurðardóttir formanni Afrekssjóðs ÍSÍ.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Landsliðin fyrir HM kynnt

Landsliðin sem taka þátt í Heimsmeistaramótinu í Las Vegas í nóvember voru kynnt á blaðamannafundi í hádeginu í dag. 

Heimsmeistaramótið í Keilu verður haldið í Las Vegas dagana 24. nóvember – 4. desember. Á mótinu er keppt bæði í karla- og kvennaflokki. Keppt er í einstaklingskeppni, tvímenning, þrímenning og fimm manna liðum.  Það eru 36 þjóðir sem hafa keppnisrétt á mótinu, þ.a. 15 þjóðir frá Evrópu. Kvennalið Íslands tryggði sér keppnisrétt á Heimsmeistaramótinu með frábærum árangri á Evrópumeistaramótinu í Vín síðasta sumar en karlalandslið Íslands komst inn á HM eftir að tvö lið frá Evrópu hættu við þátttöku.

Landsliðsþjálfarar liðana hafa valið þá aðila sem fara munu til Las Vegas fyrir Íslands hönd:

Bergþóra Rós Ólafsdóttir ÍR
Dagný Edda Þórisdóttir KFR fyrirliði
Guðný Gunnarsdóttir ÍR
Hafdís Pála Jónasdóttir KFR
Katrín Fjóla Bragadóttir KFR
Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR

 

Arnar Davíð Jónsson KFR fyrirliði
Gunnar Þór Ásgeirsson ÍR
Gústaf Smári Björnsson KFR
Hafþór Harðarson ÍR
Jón Ingi Ragnarsson KFR
Skúli Freyr Sigurðsson KFR

Þjálfari kvennaliðsins er Hafþór Harðarson en þjálfarar karlaliðsins eru Ásgrímur Helgi Einarsson og Guðjón Júlíusson.  Fararstjóri verður Theódóra Ólafsdóttir íþróttastjóri KLÍ.

 

 

 

 

 

16.liða Bikar

Eftir að búið var að spila í 32.liða bikar karla í Egilshöll í kvöld var dregið í 16.liða úrslit karla og kvenna

Leikið verður í desember og verða leikdagar gefnir upp á næstu dögum þegar búið er að ganga frá pöntunum á brautum.

Þau lið sem að mætast eru.

16.liða kvenna

ÍA – KFR Skutlurnar

KFR Elding – Þór Þrumurnar

Þau lið sem að sitja hjá í 16.liða kvenna eru:

ÍR BK
ÍR Buff
ÍR TT
KFR Afturgöngurnar
KFR Valkyrjur
KFR Valkyrjur Z

16.liða karla

KFR Frændur – KFR Stormsveitin

ÍA – ÍR Fagmaður

KFR Lærlingar – ÍA B

Þór Vikingar – ÍR Gaurar

Þór – ÍR S

KR A – KR E

ÍR L – ÍR Broskarlar

ÍR KLS – Þór plús / KFR Grænu töffararnir

 

 

Frábær árangur í Noregi

Norska Opna Meistaramótinu lauk í dag hér í Osló. Karlalandslið Íslands tók þátt í mótinu og var árangurinn mjög góður. 

Skúli Freyr Sigurðsson úr KFR endaði í 19. sæti af 209 keppendum og  Arnar Davíð Jónsson úr KFR varð í 16. sæti.  Það var Jón Ingi Ragnarsson KFR sem náði þeim frábæra árangri að ná upp í 5. sæti mótsins. Jón vann sig upp jafnt og þétt, var kominn í 8. sæti fyrir loka leikinn, spilaði hann 255 sem tryggði honum 5. sætið með einu stigi meira en Mikael Roos frá Svíþjóð og hlaut Jón Ingi 107.000 krónur að launum.
Það var Reymond Jansson frá Svíþjóð sem sigraði mótið og hlaut að launum 600.000 krónur. Í öðru sæti varð James Gruffman frá Svíþjóð og þriðji Jonas Dammen frá Noregi.
Mótið er hluti af Evrópsku mótaröðinni og var þetta síðasta mót landsliðshópsins áður en KLÍ velur þá 6 aðila sem fara á HM í Las Vegas í nóvember.

 

 

 

 

 

 

 

Jón Ingi í 5. sæti

 Forkeppni Norska opna meistaramótsins í keilu lauk í dag. Þrír Íslendingar hafa komist í gegnum niðurskurð en 208 keppendur tóku þátt í mótinu.

Jón Ingi Ragnarsson gerði sér lítið fyrir og spilað 1440 í dag sem gera 240 í meðaltal. Frábær spilamennska hjá Jóni. Þetta setur hann í 5. sæti mótsins eftir forkeppnina og um leið sæti í úrslitakeppninni sem leikin verður á morgun. Arnar Davið Jónsson er einnig kominn í úrslitin en hann endaði í 9. sæti með 1376 sem gera 229.33 í meðaltal.
Skúli Freyr Sigurðsson er kominn í undanúrslit sem leikin verða kl. 19 kvöld. Hann spilaði 1343 í morgun sem gera 223.83 í meðaltal og er í 31. sæti.
Sextíu efstu komast áfram. Í undanúrslitum leika þeir sem enduðu í sætum 29 – 60. Úrslitin hefjast svo í fyrramálið en þá leika fyrst 12 efstu úr undanúrslitum og þeir sem voru í sætum 25 – 28 í forkeppninni.

Þetta mót er hluti af Evrópsku mótaröðinni og lokaundirbúningur íslenska karla hópsins fyrir HM í Las Vegas í nóvember. Íslenski hópurinn fyrir HM verður kynntur í hádeginu á miðvikudag kl. 12.

Sjá umfjöllun Bowling digital frá deginum í dag. http://www.bowlingdigital.com/icelands-jon-ingi-ragnarsson-storms-into-top-5-in-oslo/

Arnar í 7. sæti eftir tvo daga

Þá er lokið degi 2 á Norska opna meistaramótinu í keilu í Osló. Allir íslensku leikmennirnir léku í dag.

Það var Arnar Davíð Jónsson sem spilaði best í dag, 1376 sem gerir 229,33 í meðaltal. Þegar einn dagur er eftir af forkeppninni situr Arnar Davíð í 7. sæti.

Það var svo Einar Már Björnsson sem spilaði næst best okkar manna eða 1314 og Gústaf Smári Björnsson 1273. Einar situr sem stendur í 30. sæti og Gústaf Smári í 37. sæti.

Alls eru um 200 keppendur í mótinu sem er hluti af Evrópsku mótaröðinni í keilu.

Nokkuð hefur verið fjallað um íslensku keppendurnar á vefsíðu Bowling digital og hefur þátttaka hópsins vakið talsverða athygli:

http://www.bowlingdigital.com/daniel-fransson-plays-in-his-own-league-in-squad-19-at-norwegian-open/

http://www.bowlingdigital.com/icelands-arnar-david-jonsson-powers-his-way-into-the-top-8/

http://www.bowlingdigital.com/norwegian-national-team-members-set-the-tone-in-squad-15-in-oslo/

Fyrsta keppnisdegi í Noregi lokið

Fyrsti leikdagur Afrekshóps karla hjá Keilusambandi Íslands á Opna Norska Meistaramótinu var i dag. Alls eru 12 aðilar úr afrekshópnum sem spila á mótinu.  Hópurinn lenti í Osló um 13:00 og byrjuðu að spila kl. 17. Einhver ferðaþreyta var í hópnum og var árangur dagsins upp og niður.
 

Það var Íslandsmeistarinn Gústaf Smári Björnsson sem spilaði best okkar manna en hann spilaði 1290 í 6 leikjum eða 215 að meðaltali í leik. Fast á hæla honum komu Arnar Davíð Jónsson með 1285, Gunnar Þór Ásgeirsson með 1275 og Hafþór Harðarson með 1271.
Hópurinn spilar aftur á morgun kl. 15 að íslenskum tíma en mótið stendur fram á sunnudag.  

Í næstu viku munu svo landsliðsþjálfarar karla velja 6 manna hóp sem tekur þátt í Heimsmeistaramótinu í Las Vegas í lok nóvember. 

Heildarstöðu í mótinu má sjá hér.

 

Afrekshópur karla á Norwegian Open

Afrekshópur karla hefur í dag leik á Opna Norska Meistaramótinu. Alls taka 14 keppendur frá Íslandi þátt í mótinu.

Mótið er hluti af undirbúningi liðsins fyrir HM í Las Vegas í nóvember og munu þjálfarar liðsins velja þá sem þar keppa eftir að mótinu í Osló líkur.
Mótið hófst í síðustu viku en okkar fólk hefur leik í dag og leikur fimmtudag, föstudag og laugardag. Mótinu líkur svo á sunnudag með úrslitum og vonandi munum við eiga nokkra keilara í úrslitunum.

Hægt er að fylgjast með framgangi mótsins hér 
https://en.bowlingres.no/turneringer/2017/ebt_11_norwegian_open_2017/resultater/?Puljesegment=10188&Report=Standard