Heimsmeistaramót unglinga í keilu WYC2006

Heimsmeistaramót unglinga í keilu, keppenda 23 ára og yngri, verður haldið í Berlín í Þýskalandi dagana 21. – 30. júlí n.k. Fyrir Íslands hönd taka þar þátt í keppninni þrír piltar, Hafþór Harðarson úr Keilufélagi Reykjavíkur og Magnús Sigurjón Guðmundsson úr Keilufélagi Akraness, sem báðir verða tvítugir í lok ársins, og Stefán Claessen úr Keiludeild ÍR, sem verður 18 ára á lokadegi mótsins. Þjálfari liðsins og fararstjóri er Theódóra Ólafsdóttir.

Mótið verður haldið í keilusalnum Schillerpark sem er staðsettur í miðborg Berlínar. Hann var byggður árið 1999 og er stærsti keilusalur í Þýskalandi. Alls taka að þessu sinni þátt í Heimsmeistaramótinu 168 keppendur frá 46 löndum. Keppt verður í einstaklingskeppni 6 leikir í stuttri olíu, tvímenningi 6 leikir í langri olíu, og liðakeppni 6 leikir í tveimur 3 leikja seríum í stuttri og langri olíu. 16 efstu leikmennirnir eftir þessa 18 leiki komast áfram og keppa í úrslitum samkvæmt útsláttarkeppni. Sjá nánar í dagskrá á heimasíðu mótsins.

Erlend mót

Íslenskir keilarar hafa að undanförnu verið duglegir að taka þátt í erlendum mótum og vonandi verður það einnig svo á næstu mánuðum og misserum.  Þannig tóku Arnar Sæbergsson,  Árni Geir Ómarsson,  Þórhallur Hálfdánarson og Hafþór Harðarson þátt í mótum  í Svíþjóð í vor. Og þeir Andrés Páll Júlíusson, Björn G. Sigurðsson, Magnús Magnússon og Magnús S. Guðmundsson spiluðu í Brunswick Aalborg International í lok maí. Þeir Hafþór Harðarson og Róbert Dan Sigurðsson stefna einnig að því að taka þátt í Danish Masters og Super Series í Svíþjóð síðar í sumar.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þau keilumót sem í boði eru þá eru upplýsingar um erlend mót m.a. að finna á heimasíðu Evrópusambandsins undir Tournament Calendar og einnig er hægt að fletta upp heimasíðum keilusambanda undir Federations.  Á heimasíðu Bowling Digital er listi yfir erlend mót undir Events Calendar og eflaust er hægt að finna fleiri síður með þessum upplýsingum. Stefnt er að því að gera hafa upplýsingar um helstu mótin í Evrópu einnig aðgengilegar á dagatali Keilusambands Íslands.

Upplýsingar um alþjóðleg mót á vegum keilusambanda, Evrópusambandsins ETBF og heimssambandsins WTBA er að finna á heimasíðunni undir Championship Calendar.

Varðandi flug og fargjöld til og frá Íslandi er m.a. hægt að skoða heimasíður Flugleiða , Iceland Express og British Airways.

Námskeið í keilu

Keiludeild ÍR hefur samið við Svíann Robert Anderson, sem er nú meðal bestu keilara í Evrópu í dag, að leiðbeina á námskeiðum í keilu í Keiluhöllinni Öskjuhlíð. Fyrsta námskeið var í haldið vikuna 19. – 23. júní og var almenn ánægja meðal þátttakenda með kennsluna. Robert verður hér næst með námskeið í vikunni 10. – 14. júlí n.k. og hvetjum við keilara til að nýta vel þetta tækifæri til að sækja sér þjálfun fyrir næsta keppistímabil. Verð fyrir hvern tíma (80 mínútur) er aðeins kr 2.000 og komast 8 manns að í einu. Einnig er hægt að fá æfingatíma (80 mínútur) og kostar hver tími þá 1.000 kr. Skráning í tíma fer fram hjá Reyni Þorsteinssyni formanni Keiludeildar ÍR í síma 825 1213. Sjá nánar í auglýsingu.

World Youth Championship WYC2006

Þýskaland er land HM mótanna þessi misserin og næsta heimsmeistarmót í keilu, Heimsmeistaramót unglinga verður haldið í Berlín í Þýskalandi dagana 21. – 30 júlí n.k. Undirbúningur fyrir mótið er nú í fullum gangi, en keppendur fyrir Íslands hönd verða þeir Hafþór Harðarson KFR, Magnús S. Guðmundsson KFA og Stefán Claessen ÍR. Þjálfari og fararstjóri er Theódóra Ólafsdóttir. Sjá nánar á heimasíðu mótsins

Youth friendship games 2006


Í fyrsta skipti taka íslenskir keilarar þátt í Youth friendship games sem að þessu sinni fara fram í Hollandi dagana 28. – 30 júlí n.k. Mótið er ætlað ungmennum á aldrinum 11 – 19 ára og keppendur verða þau Ástrós Pétursdóttir, Bergþóra R. Ólafsdóttir, Hafliði Örn Ólafsson, Jón Kristinn Sigurðsson, Karen Sigurðardóttir og Linda B. Gunnarsdóttir öll úr keiludeild ÍR. Fararstjóri hópsins verður Árni Geir Ómarsson. Þess má geta að keiludeild ÍR fékk úthlutaðar 150.000 kr vegna þessa verkefnis úr Afreks- og styrktarsjóði SPRON og ÍBR í júní, sjá nánar á heimasíðu ÍBR .

Norrænn samráðsfundur 2006

Árlegur fundur Norrænu keilusambandanna var haldinn í Lillehammer í Noregi dagana 6. og 7. maí s.l. og sóttu fundinn fyrir hönd KLÍ þau Valgeir Guðbjartsson formaður og Sigríður Klemensdóttir f.v. gjaldkeri.  En þessa fundi sækja að jafnaði tveir fulltrúar frá hverju Norðurlandanna. Á fundunum er m.a. rædd staða íþróttagreinarinnar í hverju landi, útbreiðslustarf, sameiginleg baráttumál á alþjóðavettvangi og annað samstarf sambandanna.

Úthlutun úr Afreks- og styrktarsjóði SPRON og ÍBR

Íþróttabandalag Reykjavíkur og SPRON standa sameiginlega að Afreks- og styrktarsjóði og er tilgangur hans að styrkja ungt og efnilegt reykvískt íþróttafólk á aldrinum 15-22 ára sem hefur burði til að verða afreksfólk í íþróttum. Sjóðurinn hjálpar félögunum að vinna metnaðarfullt og faglegt starf með ungu afreksfólki til að þau nái betri árangri. Veitt er úr sjóðnum þrisvar á ári. Við úthlutun úr sjóðnum í júní hlaut Keilufélag Reykjavíkur 80.000 kr. vegna æfingabúða og þátttöku Hafþórs Harðarsonar í ýmsum mótum erlendis og keiludeild ÍR 150.000 kr. vegna þátttöku í Barna vinaleikum í Hollandi Youth Friendship games , sjá nánar á heimasíðu ÍBR

Stórmót ÍR

Stórmót ÍR var haldið í keilusalnum Arctic Bowl á Keflavíkurflugvelli sunnudaginn 11. júní s.l. og er þetta að líkindum í síðasta skipti sem farið verður upp á Völl, enda svæðið núna farið að líta út eins og draugaþorp. Alls tóku 27 keppendur þátt í mótinu að þessu sinni og var keppni jöfn og spennandi. Sigurvegari í kvennaflokki var Sigurlaug Jakobsdóttir 1.091 og sigurvegari í karlaflokki var Steinþór G. Jóhannsson 1.275 og hlutu þau að launum ferð á mót á Evróputúrnum. Sigurvegari í gestaflokki var Hafþór Harðarson KFR 1.251. Sigurvegari í kvennaflokki með forgjöf var Þórunn H. Davíðsdóttir 1.238 og í karlaflokki með forgjöf sigraði Davíð Sölvason 1.247. Útdráttarverðlaunin hlaut Linda Hrönn Magnúsdóttir. Sjá nánar um úrslit á heimasíðu keiludeildar ÍR.

Þjálfarastyrkir ÍSÍ afhentir til 11 íþróttagreina

 

Þriðjudaginn 6. júní afhenti Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ þjálfarastyrki Verkefnasjóðs ÍSÍ.  Að þessu sinni bárust 28 umsóknir, 21 frá karlmönnum, 6 umsóknir frá konum og 1 frá félagi.  Íþróttagreinar umsækjenda voru alls 16.  Í dag voru veittir 11 styrkir að upphæð kr. 50.000 hver og 2 styrkir að upphæð kr. 25.000.  Heildarúthlutun styrkja er því kr. 600.000,- til 11 íþróttagreina.

Tveir keilarar hlutu styrki að þessu sinni, þeir Arnar Sæbergsson og Steinþór Geirdal Jóhannsson úr ÍR, sem hlutu 25.000 kr. styrk hvor til að sækja framhaldsnámskeið til þjálfunar erlendis. Sjá nánar á heimasíðu ÍSÍ