Reykjavíkurmót liða 2006 fór fram laugardaginn 11. nóvember s.l. Alls tóku 11 lið þátt í mótinu og keppt var í tveimur riðlum og síðan fóru fram úrslit milli tveggja efstu liðanna úr hvorum riðli. Lyktaði keppninni þannig að ÍR-L varð Reykjavíkurmeistari liða 2006, KFR-Larsenholt varð í 2. sæti og KR-A varð í 3. sæti.
Skor úr riðli 1
Skor úr riðli 2
Skor úr úrslitum
Bikarkeppni einstaklinga
Fyrstu leikirnir í forkeppni Sjóvá mótsins, bikarkeppni einstaklinga 2007, voru spilaðir í Keiluhöllinni um helgina og alls hafa nú keppt í mótinu 15 karlar og 9 konur.
Næstu riðlar eru:
Laugardagur 2. desember 2006 kl. 9:00, 10:00, 11:00
Laugardagur 16. desember 2006 kl. 9:00, 10:00, 11:00
Sunnudagur 17. desember 2006 kl. 9:00, 10:00, 11:00
Skráning er hafin á netfangið [email protected]. ATH, fram þarf að koma í hvaða skráningarhóp verið er að skrá. Verðið í forkeppninni er 1.500 kr fyrir fyrstu seríuna en aðeins 1.000 kr fyrir hverja seríu í forkeppninni eftir það. Sjá nánar í auglýsingu
Spilamennska hefur verið nokkuð góð það sem af er og að loknum fyrstu tveimur keppnisdögunum er bikarmeistari síðasta árs Hafþór Harðarson KFR með hæstu seríu karla 697. Fast á hæla honum koma þeir Róbert Dan Sigurðsson ÍR með 695 og Arnar Sæbergsson ÍR með 691, en Arnar á hæsta leikinn sem spilaður hefur verið eða 254. Í kvennaflokki er Sigríður Klemensdóttir ÍR með hæstu seríu 561 og hæsta leikinn 245, Guðný Gunnarsdóttir ÍR er með 523 og Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR er með 499. Sjá skor úr forkeppni.
Meistaramót KFR 2006
Meistaramót KFR mun fara fram í Keiluhöllinni sunnudaginn 3. desember næstkomandi. Leiknir eru 4 leikir í forkeppni með forgjöf, 80% af 200. Fjórir karlar og fjóarar konur halda áfram í úrslit, þar sem leikið er allir við alla. Þá er einnig leikið um titilinn Stórmeistari KFR.
Skráning er hjá KFR með tölvupósti á [email protected] og í síma 587-5885.
Íslandsmót unglingaliða 2. umferð
2. umferð Íslandsmóts unglingaliða fór fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð laugardaginn 18. nóvember. ÍR vann alla sína leiki að þessu sinni og hafa því náð forystu með 10 stig og 2.725 pinna, ÍA-1 er í 2. sæti einnig með 10 stig en 2.581 pinna, KFR er í 3. sæti með 2 stig og 1.901 pinna og ÍA-2 er í 4. sæti einnig með 2 stig og 1.755 pinna. Sjá nánar úrslit leikja og skor
Íslandsmót liða 2006 – 2007
7. umferðin í Íslandsmóti liða fór fram í vikunni og er nú hörkuspennandi keppni í öllum deildum. Í 1. deild kvenna leiðir ÍR-TT með 100 stig, 4 stigum ofar en KFR-Valkyrjur í 2. sæti og 18,5 stigum hærri en KFR-Afturgöngurnar í 3. sæti. Í 1. deild karla heldur KR-A forystunni með 104,5 stig, KFR-Lærlingar eru í 2. sæti með 101 stig, ÍR-PLS er í 3. sæti með 86 stig og ÍR-KLS í 4. sæti með 83 stig. Í 2. deild karla er baráttan á toppnum æsispennandi KFR-JP-kast er á toppnum með 88 stig, næstir koma KR-C einnig með 88 stig og KFK-Keiluvinir eru síðan í 3. sæti með 83 stig. Sjá nánar um úrslit leikja og stöðuna
8. umferð hefst í Keilusalnum á Akranesi á sunnudaginn með leik KFA-ÍA-B og KFK-Keiluvina kl. 13:00 og KFR-ÍA og ÍR-TT kl. 16:00.
Bikarkeppni liða
S.l. fimmtudag fór fram annar leikur af tveimur í 32ja liða úrslitum karla í Bikarkeppni liða, þegar ÍA-B tók á móti ÍR-L á Akranesi. ÍR-L hafði sigur úr ferðinni, vann fyrsta leikinn 676-612, annan 643-580 og þann þriðja 740-590, en Halldór Ásgeirsson lék áberandi best, eða 626.
Hinn leikur umferðarinnar, er leikur KFR-Þrasta og ÍR-A, en verið er að vinna í að finna leikdag fyrir þann leik.
16 liða úrslit munu fara fram 18. janúar, en dregið verður þriðjudaginn 12. desember. 16 karlalið munu vera í pottinum, og 8 kvennalið.
Sjóvá mótið, bikarkeppni einstaklinga 2007
Forkeppni í bikarkeppni einstaklinga, Sjóvá mótinu 2007, hefst um næstu helgi. Fyrstu riðlarnir eru á laugardag 25. nóvember frá kl. 9:00 – 12:00, sunnudag 26. nóvember frá kl. 9:00 12:00 og laugadag 2. desember kl. 9:00 – 12:00. Mótið sem fer að þessu sinni fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð er opið öllum keilurum og er keppt bæði í karla- og kvennaflokki. Í forkeppninni má hver keppandi spila eins margar seríur og hann vill, en hæsta serían ræður stöðu keppanda áfram í keppninni. Verðið í forkeppninni er 1.500 kr fyrir fyrstu seríuna, en aðeins 1.000 kr fyrir hverja seríu í forkeppninni eftir það. Hvetjum við alla keilara til að taka þátt í mótinu. Skráning er á netfanginu [email protected]. Athugið að fjöldi keppenda er takmarkaður í hvern rástíma og keppendur eru því hvattir til að skrá sig tímanlega. Sjá nánar í auglýsingum.
Staðan í 1. deild karla
6. umferð 1. deildar karla fór fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð þriðjudaginn 14. nóvember. Staðan að lokinni umferðinni er sú að KR-A heldur efsta sæti deildarinnar og er nú með 86,5 stig, KFR-Lærlingar eru í 2. sæti með 83 stig, ÍR-KLS er í 3. sæti með 78 stig og ÍR-PLS er í 4. sæti með 71 stig. Róbert Dan Sigurðsson ÍR-PLS spilaði best allra keppenda kvöldsins og á nú hæstu seríu vetrarins 713, en Ágúst Haraldsson úr KFR-Stormsveitinni mætti einnig með látum og spilaði 689 í sinni fyrstu keppni í vetur. Sjá nánar um úrslit leikja og stöðuna í deildinni. Í 7. umferð mætast KFR-Stormsveitin og ÍR-PLS, KFR-Lærlingar og KFR-Þröstur, KR-A og ÍR-P, ÍR-A og ÍR-L og KR-B og ÍR-KLS.
QuibicaAMF World Cup 2006
Steinþór Geirdal Jóhannsson ÍR lauk keppni í 41. sæti á QuibicaAMF World Cup sem fram fór í Caracas í Venesúela dagana 5. – 11. nóvember s.l. Steinþór endaði með 205,5 að meðaltali í leik eftir 24 leiki, en spila þurfti á a.m.k. 212, 71 meðaltali til að komast áfram í 24 manna úrslit. Sigurvegari í mótinu var Finninn Osku Palermaa sem sigraði Norðmanninn Petter Hansen í úrslitunum, en sigurvegari síðasta árs Michael Schmidt varð í þriðja sæti að þessu sinni. Sigurvegari í kvennaflokki var Diandra Asbaty frá Bandaríkjunum sem sigraði Lisu John frá Englandi í úrslitunum, en Mai Ginge-Jensen frá Danmörku varð í þriðja sæti. Sjá nánar á heimasíðu mótsins
Íslandsmót liða 2006 – 2007
6. umferð í 1. deild kvenna og 2. deild karla fór fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð í gærkvöldi, mánudaginn 13. nóvember og 6. umferð í 1. deild karla fer fram í kvöld, þriðjudaginn 14. nóvember. Að vísu þurfti að fresta leik KFR-Skutlanna og KFA-ÍA, þar sem Skagakonur komust ekki í bæinn vegna veðurs og hefur ekki verið ákveðinn nýr tími fyrir leikinn. Staðan er nú þannig í 1. deild kvenna að ÍR-TT hefur endurheimt forystuna og er í efsta sæti með 86 stig, KFR-Valkyrjur eru í 2. sæti með 78 stig og KFR-Afturgöngurnar í 3. sæti með 75,5 stig. Í næstu umferð mætast KFR-Afturgöngurnar og ÍR-TT, en KFR-Skutlurnar keppa við KFR-Valkyrjur. Í 2 deild karla halda KFR-JP-kast ennþá forystunni með 72,5 stig, en KR-C sækir á þá og eru nú með 71 stig í 2. sæti, en KFK-Keiluvinir eru í 3. sæti með 65 stig. Sjá nánar um stöðuna í deildunum