Íslandsmót einstaklinga – seinni helgin hafin

Facebook
Twitter

Í morgun mættu 30 keppendur til keppni í Íslandsmóti einstaklinga, 10 konur og 20 karlar. Það eru engar ýkjur að segja að gengið hafi á með stórskotahríð, þvílíkir stórleikir sem voru í gangi í karlaflokki og nokkrum sinnum munaði litlu að fullkominn leikur næðist. 12 karlar spiluðu yfir 1.200 og þar af 3 yfir 1.400 og verður spennandi að sjá hvert framhaldið verður á morgun.

Hafþór Harðarson KFR tók forystuna í karlaflokki, og setti tvö ný Íslandsmet þegar hann spilaði 1.295 í 5 leikjum og 1.495 í 6 leikjum, sem eru 249,17 að meðaltali. Leikir Hafþórs voru 215, 258, 256, 268, 257 og 241. Magnús Magnússon KR er nú í 2. sæti með 1.443 eða 240,50 að meðaltali og voru hæstu leikir Magnúsar 277 og 289. Steinþór Geirdal Jóhannsson ÍR er í 3. sæti með 1.406 eða 234,33 að meðaltali og voru hæstu leikir hans 266 og 255. Árni Geir Ómarsson ÍR kemur síðan í 4. sæti með 1.367, en hæsti leikur hans í dag var 278. Róbert Dan Sigurðsson ÍR er í 5. sæti með 1.288, en hæsti leikur hans var 257. Stefán Claessen ÍR og Björn Birgisson KR spiluðu báðir 1.268 og var hæsti leikur Stefáns 254, en Björn spilaði 268. Andrés Páll Júlíusson náði einnig 277 leik og er nú í 8. sæti með 1.259. Staðan í karlaflokki

Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR spilaði best kvenna í morgun, 1.144 í 6 leikjum eða 190,67 að meðaltali, og er nú í 2. sæti á eftir Sigfríði Sigurðardóttur KFR. Dagný Edda Þórisdóttir KFR spilaði 1.130 sem eru 188,33 að meðaltali og er í 3. sæti og í 4. sæti er Ragna Matthíasdóttir KFR sem spilaði 1.114 eða 185,67 að meðaltali. Í 5. sæti er síðan Guðný Gunnarsdóttir ÍR og í 6. sæti er Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR sem spilaði 1.053 eða 174,17 að meðaltali. Staðan í kvennaflokki

16 efstu karlarnir og 12 efstu konurnar að lokinni forkeppni komast áfram í milliriðil sem spilaður verður mánudaginn 5. mars kl. 19:00. 8 efstu karlarnir og 6 efstu konurrnar keppa síðan í undanúrslitum sem fara fram þriðjudaginn 6. mars kl. 19:00 Að lokum keppa tveir efstu keppendurnir í hvorum flokki til úrslita sem spiluð verða strax að undanúrslitum loknum.

Nýjustu fréttirnar