Íslenskir keilarar hafa að undanförnu verið duglegir að taka þátt í erlendum mótum og vonandi verður það einnig svo á næstu mánuðum og misserum. Þannig tóku Arnar Sæbergsson, Árni Geir Ómarsson, Þórhallur Hálfdánarson og Hafþór Harðarson þátt í mótum í Svíþjóð í vor. Og þeir Andrés Páll Júlíusson, Björn G. Sigurðsson, Magnús Magnússon og Magnús S. Guðmundsson spiluðu í Brunswick Aalborg International í lok maí. Þeir Hafþór Harðarson og Róbert Dan Sigurðsson stefna einnig að því að taka þátt í Danish Masters og Super Series í Svíþjóð síðar í sumar.
Fyrir þá sem vilja kynna sér þau keilumót sem í boði eru þá eru upplýsingar um erlend mót m.a. að finna á heimasíðu Evrópusambandsins undir Tournament Calendar og einnig er hægt að fletta upp heimasíðum keilusambanda undir Federations. Á heimasíðu Bowling Digital er listi yfir erlend mót undir Events Calendar og eflaust er hægt að finna fleiri síður með þessum upplýsingum. Stefnt er að því að gera hafa upplýsingar um helstu mótin í Evrópu einnig aðgengilegar á dagatali Keilusambands Íslands.
Upplýsingar um alþjóðleg mót á vegum keilusambanda, Evrópusambandsins ETBF og heimssambandsins WTBA er að finna á heimasíðunni undir Championship Calendar.
Varðandi flug og fargjöld til og frá Íslandi er m.a. hægt að skoða heimasíður Flugleiða , Iceland Express og British Airways.
Keiludeild ÍR hefur samið við Svíann Robert Anderson, sem er nú meðal bestu keilara í Evrópu í dag, að leiðbeina á námskeiðum í keilu í Keiluhöllinni Öskjuhlíð. Fyrsta námskeið var í haldið vikuna 19. – 23. júní og var almenn ánægja meðal þátttakenda með kennsluna. Robert verður hér næst með námskeið í vikunni 10. – 14. júlí n.k. og hvetjum við keilara til að nýta vel þetta tækifæri til að sækja sér þjálfun fyrir næsta keppistímabil. Verð fyrir hvern tíma (80 mínútur) er aðeins kr 2.000 og komast 8 manns að í einu. Einnig er hægt að fá æfingatíma (80 mínútur) og kostar hver tími þá 1.000 kr. Skráning í tíma fer fram hjá Reyni Þorsteinssyni formanni Keiludeildar ÍR í síma 825 1213. 

Árlegur fundur Norrænu keilusambandanna var haldinn í Lillehammer í Noregi dagana 6. og 7. maí s.l. og sóttu fundinn fyrir hönd KLÍ þau Valgeir Guðbjartsson formaður og Sigríður Klemensdóttir f.v. gjaldkeri. En þessa fundi sækja að jafnaði tveir fulltrúar frá hverju Norðurlandanna. Á fundunum er m.a. rædd staða íþróttagreinarinnar í hverju landi, útbreiðslustarf, sameiginleg baráttumál á alþjóðavettvangi og annað samstarf sambandanna.
Íþróttabandalag Reykjavíkur og SPRON standa sameiginlega að Afreks- og styrktarsjóði og er tilgangur hans að styrkja ungt og efnilegt reykvískt íþróttafólk á aldrinum 15-22 ára sem hefur burði til að verða afreksfólk í íþróttum. Sjóðurinn hjálpar félögunum að vinna metnaðarfullt og faglegt starf með ungu afreksfólki til að þau nái betri árangri. Veitt er úr sjóðnum þrisvar á ári. Við úthlutun úr sjóðnum í júní hlaut Keilufélag Reykjavíkur 80.000 kr. vegna æfingabúða og þátttöku Hafþórs Harðarsonar í ýmsum mótum erlendis og keiludeild ÍR 150.000 kr. vegna þátttöku í Barna vinaleikum í Hollandi 