Fyrstu leikirnir í forkeppni Sjóvá mótsins, bikarkeppni einstaklinga 2007, voru spilaðir í Keiluhöllinni um helgina og alls hafa nú keppt í mótinu 15 karlar og 9 konur.
Næstu riðlar eru:
Laugardagur 2. desember 2006 kl. 9:00, 10:00, 11:00
Laugardagur 16. desember 2006 kl. 9:00, 10:00, 11:00
Sunnudagur 17. desember 2006 kl. 9:00, 10:00, 11:00
Skráning er hafin á netfangið [email protected]. ATH, fram þarf að koma í hvaða skráningarhóp verið er að skrá. Verðið í forkeppninni er 1.500 kr fyrir fyrstu seríuna en aðeins 1.000 kr fyrir hverja seríu í forkeppninni eftir það. Sjá nánar í auglýsingu
Spilamennska hefur verið nokkuð góð það sem af er og að loknum fyrstu tveimur keppnisdögunum er bikarmeistari síðasta árs Hafþór Harðarson KFR með hæstu seríu karla 697. Fast á hæla honum koma þeir Róbert Dan Sigurðsson ÍR með 695 og Arnar Sæbergsson ÍR með 691, en Arnar á hæsta leikinn sem spilaður hefur verið eða 254. Í kvennaflokki er Sigríður Klemensdóttir ÍR með hæstu seríu 561 og hæsta leikinn 245, Guðný Gunnarsdóttir ÍR er með 523 og Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR er með 499. Sjá skor úr forkeppni.
Meistaramót KFR mun fara fram í Keiluhöllinni sunnudaginn 3. desember næstkomandi. Leiknir eru 4 leikir í forkeppni með forgjöf, 80% af 200. Fjórir karlar og fjóarar konur halda áfram í úrslit, þar sem leikið er allir við alla. Þá er einnig leikið um titilinn Stórmeistari KFR.
2. umferð Íslandsmóts unglingaliða fór fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð laugardaginn 18. nóvember. ÍR vann alla sína leiki að þessu sinni og hafa því náð forystu með 10 stig og 2.725 pinna, ÍA-1 er í 2. sæti einnig með 10 stig en 2.581 pinna, KFR er í 3. sæti með 2 stig og 1.901 pinna og ÍA-2 er í 4. sæti einnig með 2 stig og 1.755 pinna.
7. umferðin í Íslandsmóti liða fór fram í vikunni og er nú hörkuspennandi keppni í öllum deildum. Í 1. deild kvenna leiðir ÍR-TT með 100 stig, 4 stigum ofar en KFR-Valkyrjur í 2. sæti og 18,5 stigum hærri en KFR-Afturgöngurnar í 3. sæti. Í 1. deild karla heldur KR-A forystunni með 104,5 stig, KFR-Lærlingar eru í 2. sæti með 101 stig, ÍR-PLS er í 3. sæti með 86 stig og ÍR-KLS í 4. sæti með 83 stig. Í 2. deild karla er baráttan á toppnum æsispennandi KFR-JP-kast er á toppnum með 88 stig, næstir koma KR-C einnig með 88 stig og KFK-Keiluvinir eru síðan í 3. sæti með 83 stig.
6. umferð 1. deildar karla fór fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð þriðjudaginn 14. nóvember. Staðan að lokinni umferðinni er sú að KR-A heldur efsta sæti deildarinnar og er nú með 86,5 stig, KFR-Lærlingar eru í 2. sæti með 83 stig, ÍR-KLS er í 3. sæti með 78 stig og ÍR-PLS er í 4. sæti með 71 stig. Róbert Dan Sigurðsson ÍR-PLS spilaði best allra keppenda kvöldsins og á nú hæstu seríu vetrarins 713, en Ágúst Haraldsson úr KFR-Stormsveitinni mætti einnig með látum og spilaði 689 í sinni fyrstu keppni í vetur. 
6. umferð í 1. deild kvenna og 2. deild karla fór fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð í gærkvöldi, mánudaginn 13. nóvember og 6. umferð í 1. deild karla fer fram í kvöld, þriðjudaginn 14. nóvember. Að vísu þurfti að fresta leik KFR-Skutlanna og KFA-ÍA, þar sem Skagakonur komust ekki í bæinn vegna veðurs og hefur ekki verið ákveðinn nýr tími fyrir leikinn. Staðan er nú þannig í 1. deild kvenna að ÍR-TT hefur endurheimt forystuna og er í efsta sæti með 86 stig, KFR-Valkyrjur eru í 2. sæti með 78 stig og KFR-Afturgöngurnar í 3. sæti með 75,5 stig. Í næstu umferð mætast KFR-Afturgöngurnar og ÍR-TT, en KFR-Skutlurnar keppa við KFR-Valkyrjur. Í 2 deild karla halda KFR-JP-kast ennþá forystunni með 72,5 stig, en KR-C sækir á þá og eru nú með 71 stig í 2. sæti, en KFK-Keiluvinir eru í 3. sæti með 65 stig.