Utandeild KLÍ 2006 – 2007

Skráning er hafin í Utandeild KLÍ, sem haldin hefur verið nokkur ár í röð, og 30 lið verið skráð til leiks undanfarin ár.  Að þessu sinni er það Keilufélagið Keila (KFK) sem hefur umsjón með Utandeildinni.  Utandeildin er tilvalið tækifæri fyrir fyrirtækjahópa, saumaklúbba, matarklúbba eða hvers konar hópa til að hittast einu sinni í mánuði í keilu.  Keppni hefst í október, en skráningu lýkur 29. september.

Utandeildin fer fram á fimmtudögum í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð.  Nánari upplýsingar má fá hjá Ásgrími Helga Einarssyni hjá KFK í síma 660-5367.

 

 

Fundur vegna keppnistímabilsins 2006 – 2007

Boðað er til fundar með forráðamönnum félaga og fyrirliðum deildarliða í fundarsal ÍSÍ fimmtudaginn 14. september kl. 19:00. Á fundinum verður dregið í töfluröð í Íslandsmóti liða í 1. deild kvenna, 1. deild karla og 2. deild karla, og farið yfir dagskrá keppnistímabilsins, breytingar á reglugerðum o.fl. Fundurinn er opinn öllum sem áhuga hafa og mikilvægt er að það mæti a.m.k. einn fulltrúi frá stjórn allra félaga/deilda og auk þess frá hverju deildarliði. Keppnistímabilið hefst á keppni í Meistarakeppni KLÍ sem fram fer í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð fimmtudaginn 21. september kl. 19:00 og keppni á Íslandsmóti liða mun síðan hefjast í fyrstu viku október.  Í Keiluhöllinni verður keppt í 1. deild kvenna og 2. deild karla á mánudögum kl. 19:00, en í 1. deild karla á þriðjudögum kl. 19:00. Leikir í keilusalnum á Akranesi fara hins vegar fram á sama tíma og á síðasta tímabili, þ.e. á sunnudögum kl. 13:00 og 16:00.

Keiluæfingar fyrir börn og unglinga

Keiluæfingar félaganna fyrir börn og unglinga eru nú byrjaðar í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð.

Keilufélag Reykjavíkur verður með sínar æfingar á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 16:30 til 18:00. Þjálfari er Theódóra Ólafsdóttir og henni til aðstoðar verða Dagný Edda Þórisdóttir og Hafþór Harðarson. Hægt er að skrá sig hjá KFR í síma 661-9585 eða [email protected].

Keiludeild ÍR verður með æfingar fyrir börn og unglinga, 18 ára og yngri á mánudögum og miðvikudögum frá kl.16:30 – 18:00. Þjálfarar eru Steinþór G. Jóhannsson og Stefán Claessen og skráning er í síma 862-5431 (Steinþór) og 897-7357 (Stefán). Sjá nánar í auglýsingum.

Stórmót ÍR

Síðasta mót sem var haldið í Arctic Bowl á Keflavíkurflugvelli var Stórmót ÍR á laugardaginn 9. september s.l. Alls tóku 24 keppendur þátt í mótinu að þessu sinni og var keppni jöfn og spennandi.

Sigurvegari í kvennaflokki var Guðný Gunnarsdóttir 977 og sigurvegari í karlaflokki var Stefán Claessen 1.212 og hlutu þau að launum ferð á mót á Evróputúrnum. Sigurvegari í gestaflokki var Hafþór Harðarson KFR 1.133. Sigurvegari í kvennaflokki með forgjöf var Halldóra Í. Ingvarsdóttir 1.171 og í karlaflokki með forgjöf sigraði Steinþór G. Jóhannsson 1.277. Útdráttarverðlaunin hlaut Árni Geir Ómarsson og fékk hann mótsgjaldið endurgreitt. Sjá nánar á heimasíðu keiludeildar ÍR.

Heimsmeistaramót karla

Nú er keppni lokið á heimsmeistarmóti karla í keilu í Busan í Kóreu en alls tóku þar þátt 247 keppendur frá 44 löndum.  Biboy Rivera frá Filippseyjumi sigrað Achim Grabowski Þýskalandi í úrslitum í Masters keppni einstaklinga og spilaði 300 í síðasta leik. Í 3. sæti varð Jason Belmonte Ástralíu og í 4. sæti Rhino Page BNA. Í einstaklingskeppninni sigraði Remy Ong frá Singapore, í 2. sæti var Rhino Page BNA, og Jo Nam-Yi frá Kóreu varð í 3. sæti.  Sjá úrslit á heimasíðu mótsins og góða umfjöllun á Bowling digital

Heimsmeistaramót karla 2006

Lið Bandaríkjanna með Scott Pohl, Ronnie Sparks, David Haynes, Rhino Page, Bill Hoffman og Dan Patterson vann í dag til gullverðlauna á liðakeppni fimm manna liða á heimsmeistaramóti karla í Busan í Kóreu. Þetta er fyrsta gullið sem BNA vinna síðan árið 1971 en þeir unnu til silfurverðlauna í Abu Dhabi (1999) and Kula Lumpur (2003). Lið Malasíu skipað þeim Daniel Lim, Ben Heng, Azidi Ameran, Alex Liew, Zulmazran Zulkifli var í 2. sæti og Finnland með þeim Kimmo Lehtonen, Osku Palermaa, Kai Virtanen, Petri Mannonen ogLasse Lintilä, tryggði sér bronsverðlaunin með því að leggja Svía, sem voru sigurvegarar síðustu tveggja móta með 14 pinnum. Lið Svía skipuðu sigurvegararnir í tvímenningi Robert Andersson og Martin Larsen, Anders Öhman, Peter Ljung og Tomas Leandersson og Tobias Karlsson.

Á morgun byrjar einstaklingskeppni í stuttri olíu. Bill Hoffman BNA leiðir nú einstaklingskeppni All Event eftir frábæra spilamennsku með liðinu 4.138 (229,89), Jason Belmonte Ástralíu er í 2. sæti með 4.117(228,72 ) og Petri Mannonen Finnlandi er í 3. sæti með 4.073 (226,28).  Svíinn Robert Anderson er sem stendur í 17. sæti í einstaklingskeppni 22 pinnum á eftir Finnanum Lasse Lintilä í 16. sæti.

Meistarakeppni KLÍ

Meistarakeppni KLÍ fer fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð fimmtudaginn 21. september kl. 19:00. Að þessu sinni keppa til úrslita í kvennaflokki Íslands- og bikarmeistararnir KFR-Valkyrjur og lið ÍR-TT sem var í öðru sæti Bikarkeppninnar. Í karlaflokki keppa Íslandsmeistararnir ÍR-PLS og bikarmeistararnir KFR-Lærlingar.  Búast má við að þetta verði hörkuviðeignir og hvetjum við alla keilara til að koma og fylgjast með keppninni og upphafi tímabilsins.

Stórmót ÍR

Stórmót ÍR verður haldið í Arctic Bowl á Keflavíkurflugvelli laugardaginn 9. september n.k. og verður það væntanlega allra, allra síðast mótið sem haldið verður í þeim keilusal. Lagt verður af stað með rútu frá ÍR-heimilinu við Skógarhlíð kl. 15:00. Verð kr. 3.500 fyrir rútu og mót. Sjá nánar í auglýsingu.

Heimsmeistaramót karla 2006

Að loknum fyrri keppnisdegi í liðakeppni 5 manna liða á heimsmeistaramóti karla í keilu hefur lið Bandaríkjanna tekið forystu með 3.395. Svíar eru í 2. sæti með 3.307, Japan í 3. sæti með 3.257, Finnar í 4. sæti með 3.242, Quatar í 5. sæti með 3.237, Þýskaland í 6. sæti með 3.233 og Norðmenn í 7. sæti með 3.196.

Einstaklingskeppnin All Event er einnig mjög spennandi. Jason Belmonte Ástralíu leiðir keppnina ennþá með 3.480 eða 232,0 að meðaltali. Martin Larsen Svíþjóð fylgir honum fast eftir með 3.442 og 229,47 að meðaltali,  Bill Hoffman BNR er nú þriðji með 3.432 og 228,40 og Petri Mannonen Finnlandi fjórði með 3.426 og 228,40. Robert Anderson Svíþjóð féll aðeins niður listann eftir spilamennsku dagsins og er nú í 19. sæti með 3.298 eða 219,87 að meðaltali og vantar 3 pinna til að vera inni í 16 efstu.  Fylgist með á heimasíðu mótsins.

Heimsmeistaramót karla 2006

Heimamenn í Kóreu tryggðu sér í dag gull og silfur í þrímenningi á heimsmeistaramóti karla í keilu og  lið Malasíu hlaut bronsverðlaunin. Sjá nánar á heimasíðu mótsins og í umfjöllun á Bowling Digital. Finninn Petri Mannonen (235,33) leiðir nú keppnina í All Events, en Þjóðverjinn Achim Grabowski (230,42) og Ástralinn Jason Belmonte (230,25), sem leitt hefur keppnina til þessa, fylgja honum fast á eftir. Robert Anderson er nú í 11. – 12. sæti með 224,42 í meðaltal, en eins og áður  hefur komið fram tryggði hann sér heimsmeistaratitil í tvímenningi ásamt Martin Larsen.