Evrópubikar landsmeistara.

Nú hafa Freyr og Lísa lokið 16 leikjum í mótinu og hafa bæði spilað í stuttum og löngum olíuburði. Freyr byrjaði ekki vel í stuttu olíunni og kláraði fyrstu 8 leikina á 1416 eða 177 í meðaltal. Í dag hefur hann nú tekið við sér og spilaði alveg hreint ágætlega í löngu olíunni, 1572 eða 196,5 í meðaltal. Hann er sem stendur í 28. sæti í heildarkeppninni og er 324 pinnum frá því að koma sér inn í topp 8.  Lísa byrjaði aftur á móti betur í stuttu olíunni og spilaði 1508 eða 188,5 í meðaltal, en síðan fór að halla undan hjá henni í löngu olíunni og náði hún ekki nema 1325 eða 165,6 í meðaltal út úr þeim 8 leikjum. Hún er sem stendur í 24. sæti með 177,1 í meðaltal og vantar 349 pinna til að komast í áttunda sætið. Bæði eiga þau eftir að leika 8 leiki á morgun í samblandi af olíuburði síðustu daga.

Evrópubikar landsmeistara 2006

Keilusamband Íslands sendir að vanda keppendur til þátttöku á Evrópubikar landsmeistara í keilu ECC 2006 og að þessu sinni er mótið haldið í borginni Riga í Lettlandi dagana 25. september til 1. október n.k. Fulltrúar okkar á mótinu verða Íslandsmeistarar einstaklinga 2006, þau Sigfríður Sigurðardóttir og Freyr Bragason sem bæði koma úr KFR. Þetta er þriðja árið í röð sem Sigfríður tekur þátt í þessu móti, en Freyr spilaði í þessu móti í Ísrael 1999.  Þjálfari, fararstjóri og fulltrúi KLÍ er Theódóra Ólafsdóttir. Halda þau utan á morgun, mánudag 25. september. 

Keppni hefst á miðvikudag 27. september og er keppt í einstaklingskeppni þar sem spilaðir eru 8 leikir í senn í þremur leikjablokkum, alls 24 leikir. Að loknum þessum 24 leikjum komast 8 efstu keppendurnir í karla- og kvennaflokki áfram í úrslit, sjá nánar í dagskrá. Alls eru 37 karlar og 34 konur skráð til keppni og eru keppendur því 71 talsins. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu mótsins

Reykjavíkurmót einstaklinga 2006

Guðný Gunnarsdóttir ÍR og Björn Birgisson KR eru Reykjavíkurmeistarar einstaklinga 2006 og er þetta annað árið í röð sem Guðný vinnur titilinn. Sigruðu þau Sigfríði Sigurðardóttur KFR og Atla Þór Kárason ÍR í úrslitaleikjunum og fóru báðir leikirnir 2 – 0. Í þriðja sæti kvenna var Ragna Matthíasdóttir KFR, en Theódóra Ólafsdóttir varð að gefa leikinn. Í leiknum um 3. sætið í karlaflokki áttust við félagarnir Hafþór Harðarson og Freyr Bragason úr KFR-Lærlingum og fóru leikar þannig að Hafþór vann Frey 2 – 1. 

Undanúrslitaleikirnir voru mjög spennandi sérstaklega í karlaflokki, en viðureign Björns og Freys fór í 4 leiki og viðureign Atla Þórs og Hafþórs í 3 leiki. Í undanúrslitaleikjum kvenna sigraði Sigfríður Theódóru 2 – 0 og Guðný vann Rögnu einnig 2 – 0. Sjá nánar um úrslit mótsins.

Reykjavíkurmót einstaklinga með forgjöf (80% af 200) fer síðan fram helgina 30. september og 1. október, og lýkur skráningu fimmtudaginn 28. september. Verð er kr. 2.500 fyrir hvort mót. Skráning fer fram hjá Dóru í síma 661 9585, netfang [email protected] og hjá Tóta ÍR í síma 820 6404, netfang [email protected] Sjá nánar í auglýsingum

Reykjavíkurmót einstaklinga 2006

Reykjavíkurmót einstaklinga hófst í morgun, laugardag. Keppni átti að hefjast kl. 9:00 en þar sem keppendur komu að lokuðum dyrum í Keiluhöllinni tafðist keppi af þeim sökum um tæpan klukkutíma. Alls mættu 22 keppendur til leiks, 12 karlar og 10 konur og spiluðu 6 leiki í forkeppni. 4 efstu keppendurnir í kvenna- og karlaflokki keppa síðan til úrslita á morgun sunnudag og á keppni að hefjast kl. 10:00. Úrslitin eru spiluð þannig að keppandi í 1. sæti keppir við keppanda í 4. sæti og keppandi í 2. sæti keppir við keppanda í 3. sæti og sigrar sá sem fyrr vinnur tvo leiki. Sigurvegararnir í leikjunum keppa síðan til úrslita, en þeir sem tapa leikjunum keppa um þriðja sætið og þarf einnig að vinna tvo leiki til að sigra í þeim viðureignum. Í úrslitum í kvennaflokki keppa Sigfríður Sigurðardóttir KFR, Guðný Gunnarsdóttir ÍR, Ragna Matthíasdóttir KFR og Theódóra Ólafsdóttir KFR. Í úrslitum í karlaflokki keppa Hafþór Harðarson KFR, Freyr Bragason KFR, Björn Birgisson KR og Atli Þór Kárason ÍR.

Sjá skor úr forkeppni kvenna og forkeppni karla

Þátttaka í nefndum alþjóðlegra íþróttasambanda

Í síðustu ársskýrslu ÍSÍ var fjallað um mikilvægi þess að sérsamböndin beittu sér fyrir því að fá fulltrúa í nefndum á vegum þeirra alþjóðlegu íþróttasambanda sem þau eiga aðild að, en þar segir „Þátttaka Íslendinga í stjórnar- og nefndarstarfi á alþjóðavísu er afar mikilvæg. Með því að eiga fulltrúa í nefndum og ráðum, eignast íþróttahreyfingin á Íslandi mikilvæga tengiliði og aðgang að upplýsingum og eftir atvikum fjármunum. Fyrir u.þ.b. 10 árum voru aðeins 3 – 4 Íslendingar sem áttu sæti í stjórnum og nefndum á alþjóðavísu en í dag eru á milli 25 – 30 aðilar sem sinna þessum störfum.“ Á heimasíðu ÍSÍ er nú birt grein eftir Stefán Konráðsson framkvæmdatjóra ÍSÍ um þetta efni. 

Af því tilefni má geta þess að Valgeir Guðbjartsson formaður Keilusambands Íslands á nú sæti í stjórn Evrópusambands keilusambanda og í mótanefnd Evrópusambandsins.

 

 

ÍR-TT og ÍR-PLS fóru með sigur af hólmi

Keppnistímabilið í keilunni hófst formlega í gærkvöldi, þ.e. fimmtudaginn 21. september, þegar Meistarakeppni KLÍ fór fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð. Lauk leikjunum með tvöföldum sigri ÍR-inga sem sjást hér fagna að loknum leik.

Með sigri ÍR-TT (2.010) á  Íslands- og bikarmeisturunum KFR-Valkyrjum (1.899) var brotið blað í sögu keilunnar á Íslandi. En þetta er í fyrsta sinn sem kvennalið úr öðru félagi en Keilufélagi Reykjavíkur KFR vinnur titil í liðakeppni í keilu í efstu deild kvenna. Í karlaflokki lögðu Íslandsmeistararnir ÍR-PLS (2.332), bikarmeistarana KFR-Lærlingar (2.073) sem veittu þeim litla mótspyrnu að þessu sinni. Lið ÍR-TT skipuðu Guðný Gunnarsdóttir, Karen Rut Sigurðardóttir, Linda Hrönn Magnúsdóttir, Sigríður Klemensdóttir og Sigurlaug Jakobsdóttir. Lið ÍR-PLS skipuðu Hörður Ingi Jóhannsson, Róbert Dan Sigurðsson, Sigurður E. Ingason, Steinþór G. Jóhannsson og Halldór Ragnar Halldórsson.

Óskum við Meisturunum til hamingju með sigurinn. Sjá skorið úr keppninni 

 

Meistarakeppni KLÍ 21. september kl. 19:00

Meistarakeppni KLÍ 2006 fer fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð fimmtudaginn 21. september kl. 19:00. Að þessu sinni keppa til úrslita í kvennaflokki Íslands- og bikarmeistararnir KFR-Valkyrjur sem hefur nú bæst liðsauki frá KFR-Flökkurum og lið ÍR-TT sem var í öðru sæti Bikarkeppninnar og mætir nú til leiks með nýjan fyrirliða og nýjan liðsmann. Í karlaflokki keppa Íslandsmeistararnir ÍR-PLS sem mæta einnig með breytta liðsskipan og bikarmeistararnir KFR-Lærlingar sem eru að því best er vitað með óbreyttan mannskap frá síðasta ári.  Búast má við að þetta verði hörkuviðeignir og hvetjum við alla keilara til að koma og fylgjast með keppninni og upphafi tímabilsins.

Íslandsmót liða 2006 – 2007 1. umferð

Á fundi með félögum og fyrirliðum sem haldinn var í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal s.l. fimmtudag var dregið í töfluröð í Íslandsmóti liða sem hefst í fyrstu viku október.  Í Keiluhöllinni verður keppt í 1. deild kvenna og 2. deild karla á mánudögum kl. 19:00, en í 1. deild karla á þriðjudögum kl. 19:00. Leikir í keilusalnum á Akranesi fara hins vegar fram á sama tíma og á síðasta tímabili, þ.e. á sunnudögum kl. 13:00 og 16:00.

7 lið eru skráð til keppni í 1. deild kvenna og hefst keppni í deildinni mánudaginn 2. október 2006.  Allir leikir umferðarinnar fara fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð og hefjast leikirnir á upphitun kl. 19:00. Í 1. umferð mætast ÍR-BK – KFR-Skutlurnar, ÍR-TT – KFA-ÍA, ÍR-KK – KFR-Valkyrjur og KFR-Afturgöngurnar sitja hjá.

Í 1. deild karla hefur liðum verið fækkað úr 12 í 10 lið frá síðasta keppnistímabili og eiga öll liðin í deildinni nú  heimavöll í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð. Í 1. umferð þriðjudaginn 3. október kl. 19:00 mætast KR-A – KR-B, ÍR-L – ÍR-PLS, ÍR-P – KFR-Stormsveitin, KFR-Lærlingar – ÍR-KLS og KFR-Þröstur – ÍR-A.

9 lið eru skráð til keppni í 2. deild karla að þessu sinni.  Í 1. umferð mætast í Keilusalnum á Akranesi sunnudaginn 1. október kl. 13:00 KFA-ÍA – KR-C og og kl. 16:00 mætast þar KFA-ÍA-B – KFR-JP-kast. Leikir ÍR-NAS – KFK-Keila.is og ÍR-T – ÍR-Línur fara síðan fram í Keiluhöllinni Öskjuhlíð mánudaginn 2. október og hefjast leikirnir á upphitun kl. 19:00.

Reykjavíkurmót 2006

Reykjavíkurmót einstaklinga með og án forgjafar hafa nú verið sett á.  Leiknir eru 6 leikir í forkeppni og halda 4 efstu áfram í úrslit.

Mótið án forgjafar fer fram helgina 23. og 24. september, og lýkur skráningu fimmtudaginn 21. september.  Með forgjöf fer fram helgina 30. september og 1. október, og lýkur skráningu fimmtudaginn 28. september. Reykjavíkurmót para fer síðan fram helgina 7. og 8. október.