Þing Keilusambands Evrópu – EBF – Nýtt nafn sambandsins

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter

Í dag fór fram í Chania á Krít í Grikklandi þing Keilusambands Evrópu. Alls voru mættir fulltrúar 30 ríkja þar á meðal voru Jóhann Ágúst Jóhannsson formaður KLÍ og Þórarinn Már Þorbjörnsson Framkvæmdastjóri KLÍ. Valgeir Guðbjartsson varaforseti sambandsins stýrði hluta þingsins frá háborði þess.

Helst ber að nefna að ákveðið var að breyta nafni sambandsins úr ETBF (European Tenpin Bowling Federation) í EBF (European Bowling Federation). Er það gert bæði til einföldunar og samræmis við breytingar alheimssambands keilunnar. Samhliða þessu var kynnt nýtt merki sambandsins sem og stefna þess í markaðsmálum á komandi mótum. Nánar verður birt efni því tengdu síðar.

Á þinginu voru samþykktar nokkrar lagabreytingar, aðalega sem miða að nafnabreytingu en einnig tekin sú ákvörðun að taka úr stefnuskrá/lögum sambandsins ákvarðanir um mótahald þess. Er það fært til stjórnar til að hægt sé að vera kvikari í aðgerðum komi til þess að breyta þurfi mótahaldi en það hefur bersýnilega komið í ljós þörf á því undanfarin misseri í Covid faraldri. Þing EBF eru annað hvert ár alla jafna og því hægara um vik ef breyta þarf reglum.

Fram kom að næstu mót sem búið er að úthluta verða samkvæmt sama fyrirkomulagi og verið hefur hingað til í EBF mótum en spurningar komu frá aðildarlöndum um hvort EC mótin færist í sama horf og IBF mótin eru að stefna. Þannig að, við í Evrópu verðum í sama keppnisfyrirkomulagi í það minnsta til 2024.

Ekki fóru fram kosningar í embætti sambandsins til næstu 4 ára. Belginn Mark Beaufays hafði tilkynnt framboð sitt til forseta sambandsins en dróg það framboð til baka líkt og hann dróg framboð sitt á móti Valgeiri 2019 í embætti varaforseta til baka. Því var Addie Ophelders frá Hollandi sjálfkjörinn til næstu 4 ára en hann gaf kost á sér áfram.

Aðeins tveir voru einnig í framboði í tvö sæti framkvæmdastjórnar EBF en það voru þeir Onder Gurkan frá Tyrklandi og Rússinn Sergey Lisitsyn.

Nýjustu fréttirnar