Formannafundur á Covid tímum

Facebook
Twitter

Í síðustu viku var haldinn formannafundur KLÍ en hann fór fram í gegn um Teams. Fulltrúar Asparinnar, ÍA og ÍR sátu fundinn ásamt aðilum úr stjórn KLÍ en fulltrúar KFR, KR og Þórs vantaði. Á fundinum var m.a. farið yfir stöðu mála í dag í enn einu Covid stoppi og hvaða möguleika við höfum með tilliti til þess. Stefnan er að klára deildarkeppni um leið og samkomubanni lýkur og vonandi verður það innan skamms. Stutt er eftir að deildarkeppninni og að henni lokinni taka við úrslit í 1. deildum karla og kvenna ásamt umspilsleikjum milli deilda sbr. ákvörðun stjórnar um breytingu á deildarkeppninni þetta tímabilið vegna tíðra samkomutakmarkanna og styttingu móts. Einnig eru 4 liða úrslit í Bikarkeppni KLÍ eftir sem og lokaumferðin í Meistarakeppni ungmenna.

Einnig kom fram á fundinum að þingdagsetning Ársþings KLÍ 2021 er ákveðin en þingið verður haldið laugardaginn 15. maí n.k. með fyrirvara um téðar sóttvarnarráðstafanir. Keiludeild Þórs átti að hýsa þingið í ár en baðst undan því svo að Íþróttafélagið Öspin ætlar að hlaupa undir bagga og hýsa sitt fyrsta Ársþing KLÍ. Félögum er þar með gefinn nægur fyrirvari tímalega séð á að leggja fyrir mál ef einhver eru fyrir þing.

Farið var yfir starfsmannamál KLÍ eftir að stöðugildi voru sameinuð í eitt. Félög eru hvött til þess að leita til starfmanns KLÍ varðandi öll mál sem þau telja að hann geti aðstoðað og eiga við um málefni KLÍ og félaga.

Reifuð var hugmynd að því að halda málþing um stöðu keilunnar hér á landi. Með því reyna þá að virkja almennan keilara til starfa fyrir keiluna hvort sem er í hugmyndasmíði og eða verkefnum sem verða til vegna slíks málþings. Stefnt er að því að skipuleggja slíkt þing á komandi haustmánuðum.

Nýjustu fréttirnar