Breytingar á reglugerðum – Liðakeppnir og reglur um keilumót

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter

Undanfarna vikur og mánuði hefur verið í gangi vinna við að einfalda regluverk Keilusambandsins m.a. með því markmiði að gera þær skýrari sem og að auðvelda framkvæmd Íslandsmóts deildarliða og bikarkeppni liða. Haldnir voru nokkrir vinnufundir þar sem fulltrúum félaga og stjórn KLÍ var boðið að mæta og fara yfir reglurnar. Fengum við aðstoð lögfræðings við að skrifa upp reglugerðirnar í þeirri vinnu.

Eitt af stóru markmiðum með þessum breytingum er að fækka frestunum leikja en það er ekkert launungarmál að allt of mikið að frestanabeiðnum hafa verið sendar inn og eftir atvikum afgreiddar undanfarin keppnistímabil. Mótanefnd KLÍ hefur haft í nógu að snúast við að svara beiðnum og halda utan um dagskrá svo að allir leikir skili sér inn í mótið á hverju tímabili. Nauðsynlegt er að taka á því máli og er það m.a. gert með þessum breytingum.

Með breytingu á reglugerðum, sem stjórn KLÍ hefur nú afgreitt skv. d lið 10. gr. laga KLÍ, getur viðureign í deild farið fram þótt lið sé ekki fullskipað mætt. Fleiri breytingar eru í reglugerðinni og eru þær helst þessar:

  • Lið geta hafið keppni án þess að lið sé fullskipað
  • Blindskor er fellt út
  • Varamaður má koma inn á í leik með ákv. skilyrðum
  • Hert er á skilyrðum fyrir frestanir
  • Rýmkuð er virkni venslasamninga
  • Opnað á að erlendir ríkisborgarar búsettir hér geti tekið þátt í mótum

Við þessar breytingar þá má segja að reglugerðirnar verði einungis um hvað keila er og hvernig við spilum keilu. Reglur um mót s.s. Íslandsmótin öll o.fl. verða sem mótareglur þ.e. hvernig er mótið uppsett, hve margir leikir, milliriðlar, undanúrslit, færslur o.sv.fr. Það hvernig við spilum keilu almennt er eins í öllum tilvikum. Horft er til ETBF með hvernig þeir setja upp reglur um mót innan sinna raða.

Vert er að taka fram og halda því til haga að það er ekki verið að breyta efnislega hvernig deild eða bikar er spilaður. Áfram er deildin keppni í þriggja manna liðum og allir keppa við alla, sömu stig eru gefin eins og áður. Sama á við um bikarkeppnina. Verið er að auðvelda framkvæmd þeirra móta.

Stjórn KLÍ samþykkti samhljóða þessar breytingar á reglugerðum á stjórnarfundi fimmtudaginn 24.9.2020 og taka þær gildi frá og með 3. umferð Íslandsmóts liða sem er í vikunni.

Verkefnin framundan

Verið er að setja inn reglugerðirnar á vef sambandsins þessa dagana. Breytingar koma inn á síðunni fyrir reglugerðir þannig að skipt er upp reglugerðum um nefndir, keppnisreglur og svo kemur kafli um mótafyrirkomulag en ekki reglugerðir um mót.

Hlekkir í reglurnar

Nýjustu fréttirnar