Reglugerð KLÍ um liðakeppnir -Almennt / Vensl

1. grein

Íslands- og Bikarkeppni liða
Íslandsmót liða og bikarkeppni liða skal haldið árlega í karla- og kvennaflokki.

2. grein

Þátttökuréttur
Rétt til þátttöku hafa öll félög sem starfa innan vébanda KLÍ. Félög skulu tilkynna þátttöku liða í mótin eigi síðar en 15. maí fyrir eldri lið og 31. júlí fyrir ný lið á þar til gerðum eyðublöðum (Þátttökutilkynning), og eru þau jafnframt ábyrg fyrir greiðslu þátttökugjalds.

Þátttökugjöld skulu ákveðin af stjórn KLÍ fyrir hvert keppnistímabil og skulu þau birt í gjaldskrá KLÍ.

Hafi félag ekki greitt þátttökugjöld vegna næstliðins tímabils er stjórn KLÍ heimilt að hafna tilkynningum um þátttöku frá því félagi.

3. grein

Leikskýrslur
Fyrir hverja viðureign skulu lið fylla út viðeigandi leikskýrslu. Eftir að viðureign er hafin má engar breytingar gera á keppnisliðinu. Ef leikmaður spilar án þess að vera á leikskýrslu í upphafi viðureignar telst hann ólögmætur leikmaður.

Við útfyllingu á leikskýrslu skal gestalið gefa upp sína uppröðun fyrst og óheimilt er að breyta henni.

Í lok viðureignar skulu lið fylla út skýrsluna með skortölum allra leikmanna í liðinu. Leiksskýrsla skal undirrituð af fulltrúum beggja liða um að skýrslan sé rétt fyllt út.

Eftir viðureign skal leikskýrslu skilað á viðeigandi stað hverju sinni.

Ef ekki er skrifaður fjöldi fella eða stjarna í leik á leikskýrslu í Íslandsmóti liða skal slíkt ekki skráð nema fram komi óyggjandi sannanir um fjölda fella eða stjarna. Skorritari sker úr um lögmæti framlagðra gagna.

4. grein

Frestanir
Viðureignum verður ekki frestað nema vegna veikinda, samgönguerfiðleika vegna veðurs, eða sökum þess að leikmaður er fjarverandi á vegum KLÍ. Sækja þarf um frestun að lágmarki 24 klst. áður en upprunaleg viðureign átti að hefjast. Sé fallist á frestun mun mótanefnd tilkynna liðum um nýjan leikdag.

Þrátt fyrir 1. mgr. getur lið óskað eftir frestun með að lágmarki tveggja vikna fyrirvara. Lið skulu koma sér saman um nýjan leikdag og tilkynna mótanefnd um nýjan leikdag eigi síðar en viku áður en upprunaleg viðureign átti að hefjast. Ef lið hafa ekki komið sér saman um nýjan leikdag viku áður en upprunaleg viðureign átti að hefjast skal mótanefnd setja á nýjan leikdag.

Lið sem óskar eftir frestun skv. 2. mgr. er óheimilt að óska eftir frestun á sömu viðureign. Þá má liðið eingöngu nota þá leikmenn sem löglegir voru með liðinu þegar upprunaleg viðureign átti að fara fram.

Óheimilt er að fresta leikjum nema í þeim tilvikum sem 1. og 2. mgr. kveða á um.

Sækja skal um frestanir innan viðeigandi tímamarka með tölvupósti á netfangið [email protected]

Síðasta umferð hverrar deildar skal fara fram á sama tíma. Öllum öðrum leikjum skal lokið fyrir næst síðustu umferð.

Frestanir vegna sóttvarnaákvæða yfirvalda teljast ekki sem frestanir.

5. grein

Liðsskipan
Keilulið sem tilkynnt er til þátttöku í Íslandsmóti liða og/eða bikarkeppni liða skal vera skipað að lágmarki þremur leikmönnum. Allir liðsmenn skulu vera félagsbundnir og hafa keppnisrétt með sama félagi. Lið skal velja sér fyrirliða sem skal vera skráður leikmaður liðsins sem kemur fram fyrir hönd liðsins.

6. grein

Innáskiptingar
Varamaður skal leika í sömu rásröð og maðurinn sem hann kemur inn á fyrir lék í. Varamenn mega aðeins koma inn á í nýjum leik.

Þrátt fyrir 1. mgr. er varamanni heimilt að koma inn á í leik forfallist leikmaður vegna meiðsla eða veikinda. Leikmaður sem forfallast vegna meiðsla eða veikinda er óheimilt að koma aftur inn á út viðureignina.

7. grein

Löglega skipað lið
Ef einungis einn löglegur leikmaður liðs er mættur þegar viðureign skal hefjast skal viðureignin úrskurðuð því liði töpuð. Lið það sem mætt er til leiks skal þó leika viðureignina.

Viðureign skal hefjast þegar upphitun er lokið.

Sekta skal það lið sem ekki mætir til leiks skv. gjaldskrá KLÍ.

8. grein

Ólöglegir leikmenn
Leiki ólöglegur leikmaður með liði skal skor hans núllað út.

Ef einungis einn löglegur leikmaður liðs leikur leik skal skor hans núllað út og sá leikur úrskurðaður tapaður.

9. grein

Búningar
Leikmenn sama liðs skulu vera í eins keppnistreyjum af sama lit og sömu gerð. Karlar skulu vera í síðbuxum af sama lit og sambærilegri gerð. Konur skulu vera í síðbuxum, pilsum eða stuttbuxnadressi af sama lit og sambærilegri gerð.

Sekt vegna brots á ákvæði þessu fer eftir gjaldskrá KLÍ.

Venslasamningar

10. grein

Um venslasamninga
Venslasamningur liða felur í sér að tvö lið innan sama félags gera samning sín á milli um að þau geti skipst á leikmönnum. Samningur tekur gildi þegar hann hefur verið birtur á heimasíðu KLÍ. Eftir að samningur tekur gildi verða leikmenn hlutgengir með báðum liðum út leikárið.

Einungis er hægt að gera einn venslasamning á hverju leikári.

Skráningargjald vegna venslasamninga skal ákveðið í gjaldskrá KLÍ.

11. grein

Hlutgengi leikmana
Lið sem gera venslasamning sín á milli mega ekki leika í sömu deild í Íslandsmóti liða og verða að vera af sama kyni.

12. grein

Gildi venslasamninga á Íslandsmóti liða
Venslasamningur gildir í Íslandsmóti liða skv. eftirfarandi ákvæðum.

Allir leikmenn beggja liða eiga rétt á því að spila 9 leiki með gagnstæðu liði án takmarkana.

Þegar leikmaður hefur spilað 9 leiki með gagnstæðu liði er honum óheimilt að leika með báðum liðum í sömu leikviku. Hafi leikmaður leikið með sínu liði fyrr í leikvikunni telst hann ólöglegur leikmaður í öllum leikjum umfram 9 leiki með gagnstæðu liði í þeirri leikviku.

Leikvika hefst á laugardegi og endar á föstudegi. Frestaðir leikir skulu teljast til þeirrar leikviku sem þeir eru leiknir í.

13. grein

Gildi venslasamninga í Bikarkeppni liða
Venslasamningur gildir í bikarkeppni liða skv. eftirfarandi ákvæðum.

Leikmaður getur aðeins leikið í bikarkeppni liða með því liði sem hann leikur fyrr með á tímabilinu.

Hafi leikmaður leikið með hinu liðinu fyrr á tímabilinu telst hann ólöglegur leikmaður í öllum leikjum seinna liðsins þar sem eftir lifir leikársins.

14. grein

Einstaklingsbundnir venslasamningar kvenna við karlalið

Konum er heimilt að gera einstaklingsbundna venslasamninga við karlalið innan sama félags sem spilar ekki í efstu deild karla og gilda þá ekki takmarkanir skv. 12.  eða 13. gr.

Einungis er hægt að gera einn venslasamning á hverju leikári nema leikmaður skipti um félag.

Skráningargjald vegna einstaklingsbundinna venslasamninga skal ákveðið í gjaldskrá KLÍ.

Samþykkt af stjórn KLÍ 2. nóvember 2020
Bráðabirgðabreyting samþykkt af stjórn KLÍ 28. janúar 2021 vegna Covid – Gildir fyrir tímabilið 2020 til 2021 – Eldri reglugerð tekur gildi eftir tímabilið.

Samþykkt af stjórn KLÍ 13. september 2023