Reglugerð KLÍ um Bikarkeppni liða

1. grein

Bikar­keppni þriggja manna liða skal haldin ár­lega í karla- og kvenna­flokki.

2. grein

Rétt til þátt­töku hafa öll lið sem starfa innan vé­banda Keilu­sam­bands Ís­lands.

Hverju liði er heimilt að senda tvær sveitir til Bikar­keppninnar, A og B sveit.

Félög skulu tilkynna þátttöku liða í Bikarkeppni liða eigi síðar en 15. maí fyrir eldri lið og 31. júlí fyrir ný lið á þar til gerðum eyðublöðum.

3. grein

Bikarkeppnin skal fara fram samhliða Íslandsmóti liða. Keppt skal eftir útsláttarfyrirkomulagi. Hver viðureign skal vera a.m.k. þrír leikir með möguleika á fjórða leik til að fá úrslit og síðan framlengingu, sjá hér á eftir. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki telst sigurvegari. Ef skor liða er jafnt í einhverjum þessara leikja skal hver leikmaður hvors liðs sem lék þann leik kasta einu kasti og skal samtala ráða úrslitum. Ef enn er jafnt bætist við eitt upphafskast í viðbót þar til úrslit liggja fyrir.

Ef hvort lið hefur unnið tvo leiki að loknum þessum fjórum leikjum skal framlengt. Í framlengingu skal leika 9. og 10. ramma og ræður samtala úrslitum. Ef enn er jafnt bætist við eitt upphafskast í viðbót þar til úrslit liggja fyrir.

4. grein

Draga skal í næstu umferð sem fyrst eftir að umferð er lokið og aldrei síðar en tveimur vikum fyrir umferðina. Dregin skulu tvö og tvö lið saman. Það lið sem fyrr er dregið úr pottinum skal fá heimaleik. Lið í 1. deild hefja þátttöku í 32ja liða úrslitum. Bikarmeistarar taki ekki þátt í forkeppni sem haldin er til að jafna liðafjölda (þ.e. ef lið þarf að sitja yfir þá gera bikarmeistararnir það).  Úrslitaleikir karla og kvenna skulu leiknir á sama stað á sama tíma.  Leikstaður skal ákveðin af mótanefnd í upphafi móts.

5. grein

Fyrir hverja viður­eign skulu fyrir­liðar eða stað­genglar þeirra skrifa á leik­skýrslu nöfn þeirra leikmanna sem eiga að vera í keppnis­liði liðsins í viður­eigninni (mest 7 menn, minnst 3) og nafn aðstoðar­manns liðsins, ef einhver er. Eftir að viður­eign er hafin má engar breytingar gera á keppnis­liðinu.

Í lok viður­eignar skal fyrir­liði liðsins eða stað­gengill hans fylla út skýrsluna með skort­ölum allra leik­manna í liðinu, undir­rita hana og fá stað­festingu fyrir­liða hins liðsins eða stað­gengils hans um að skýrslan sé rétt fyllt út. Ef lið fyllir ekki út skor­reiti eða sam­tals­reiti leik­skýrslunnar er aga­nefnd KLÍ heimilt að refsa liðinu með fjár­sekt.

Eftir viður­eign skal skila skýrslunni í póstkassa KLÍ.

6. grein

Leik­maður sem leikið hefur með A sveit liðs í Bikar­keppninni missir réttinn til að leika með B sveit liðsins í keppninni og öfugt.

7. grein

Ef löglega skipað lið er ekki mætt til keppni við lok upphitunar skal leikurinn úrskurðaður því liði tapaður. Sekta skal það lið, sem ekki mætir, um a.m.k. það sem nemur tvöfaldri brautarleigunni.

8. grein: Frestun viður­eigna

Viðureignum verður ekki frestað nema veigamiklar ástæður liggi fyrir frestunarbeiðninni. Sækja þarf um frestun með minnst 5 sólarhringa fyrirvara, nema þegar um samgönguörðugleika og veikindi er að ræða.

Veigamiklar ástæður eru:

1.  Samgönguerfiðleikar vegna veðurs

2.  Veikindi

3.  Leikmaður/leikmenn eru fjarverandi á vegum KLÍ

Mótanefnd getur, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.,  veitt samþykki á breyttum leikdegi ef bæði lið eru því samþykk og hafa fundið nýjan leikdag annað hvort fyrir áætlaðan leikdag eða áður en næsta umferð fer fram.  Sækja verður um breytinguna með a.m.k. 5 sólarhringa fyrirvara fyrir áætlaðan leikdag eða umferðina sem leikurinn átti að fara fram í.

Ef lið ákveður að spila einungis skipað þremur liðsmönnum er þeim ekki veitt frestun vegna veikinda eða samgönguerfiðleika hjá einum leikmanni

Ekki er veitt frestun ef nægjanlega margir virkir leikmenn eru til að liðið nái að tefla fram löglega skipuðu liði. Löglegaskipað lið telur þrjá leikmenn.

Mótanefnd úrskurðar um fresti án tafar og tilkynnir fyrirliðum viðkomandi liða, svo og öðrum þeim sem málið kann að varða. Mótanefnd ákveður svo hvenær leika skuli frestuðu  viðureignina og tilkynnir viðkomandi liðum. Lið það sem sækir um frestunina ber allan aukakostnað af frestuninni. Leitast skal við að frestaði leikurinn sé leikinn fyrir næstu umferð. Ef leikurinn hefur ekki farið fram innan 4. vikna frá upphaflegum leikdegi skal leikurinn settur á af mótanefnd. Ekki er hægt að biðja um frestun á þeim leikdegi.

Ef frestun er vegna veikinda skal hún ákveðin og tilkynnt með a.m.k. 3 klst. fyrirvara.

Ef lið fær frestun, þá má það aðeins nota þá leikmenn, sem löglegir voru með liðinu, þegar leikurinn átti upphaflega að fara fram.

9. grein: Fjarveruskor

Lið getur ekki hafið viðureign með færri en þrjá leikmenn. Ef leikmaður yfirgefur leik skal fjarveruskor hans, 120 stig, gilda út viðureignina, þ.e. hann fær 10% af fjarveruskori fyrir hvern þann ramma sem eftir er, nema varamaður komi inn á í hans stað í næsta leik. Seinir leikmenn fá 0 fyrir hvern þann ramma sem þeir missa af. Leikir sem samanstanda að hluta til eða alveg af fjarveruskori verða ekki teknir með við útreikning á meðalskori.

10. grein: Vara­menn

Vara­maður skal leika í sömu rás­röð og maðurinn sem hann kemur inn ­á fyrir lék í. Vara­menn mega aðeins koma inn á í nýjum leik, þ.e. eftir að 1., 2. eða 3. leik er lokið og áður en næsti hefst.

11. grein: Kærufrestur

Kærufrestur í bikarkeppni liða er 7 dagar.

12. grein

Framkvæmd Bikar­keppninnar skal vera í höndum móta­nefndar KLÍ.

13. grein

Þátttökugjald í Bikarkeppni liða ákveður KLÍ í upphafi hvers keppnistímabils.

Breytt á formannafundi 11. apríl 2012

Breytt á formannafundi 16. apríl 2015

Breytt á 22. Þingi KLÍ þann 05.05.2015

Breytt á formannafundi 01. September 2015

Breytt á 25. Þingi KLÍ þann 27.05.2018