Reglugerð KLÍ um keilumót

1. grein

Öll keppni í viðurkenndum keilu­mótum skal fara fram samkvæmt lögum og reglu­gerðum ÍSÍ og Keilu­sam­bands Ís­lands (KLÍ) og leik­reglum sem samþykktar hafa verið af KLÍ. Samþykktir Al­þjóða­keilu­sam­bandsins (WB) eru bindandi fyrir KLÍ.

Mótum skal skipt í þrjá hópa.

  • A-mót:  Mót á vegum KLÍ og önnur mót sem til þess hafa hlotið samþykki KLÍ.
  • B-mót:  Önnur viðurkennd mót sem eiga að fara inn í allsherjarmeðaltal.
  • C-mót:  Mót sem fara ekki inn í allsherjarmeðaltal.

Keilufélögin geta sótt um að mót á þeirra vegum verði A-mót, t.d.  héraðsmót. A-mót þarf að auglýsa með a.m.k. mánaðar fyrirvara og reglurnar um mótið skulu liggja fyrir er umsókn er send inn. A- og B-mót skal einungis leika í keilusal sem KLÍ hefur viðurkennt.

2. grein

Leik­ár telst frá 1. júní til 31. maí.

3. grein

Einungis met sett í A- og B-mótum eða met sett í mótum erlendis sem stjórn KLÍ viðurkennir verða viðurkennd sem Ís­lands­met.

4. grein

Í einstaklings-, para- og tvímenningskeppni geta allir innlendir sem erlendir félagsbundnir keilarar verið þátttakendur. Þó þurfa erlendir ríkisborgarar að hafa haft lögheimili hér á landi síðustu þrjá mánuði fyrir mót til að öðlast keppnisrétt.

Efsti íslenski ríkisborgarinn öðlast keppnisrétt fyrir hönd þjóðar fyrir sigur í einstaklingsmótum.

5. grein

Ef lið notar leikmann sem er í banni eða hefur ekki leikheimild með liði, skal skori hvers leiks breytt á þann veg, líkt og leikmaðurinn hafi ekki leikið viðureignina. Stjórn KLÍ getur afturkallað keppnisheimild einstaklings/félags vegna vangoldinna skulda við KLÍ.

6. grein: Erlendir leik­menn

Erlendur ríkis­borgari getur gerst leik­maður með íslensku keilu­liði. Um félaga- og liða­skipti erlendra leik­manna, sem leikið hafa með íslensku liði, gilda reglur KLÍ.

7. grein: Tækni­nefnd

Um að­stæður á keppnis­stað (t.d. ástand brauta), kúlur og hjálpar­tæki leik­manna gilda reglur IBF/ETBF/KLÍ.

Sérákvæði Íslands er að leyfa aukagöt í kúlum, hafi þær verið boraðar fyrir 1.8.20. Almennt eru reglur erlendis þannig að aukagöt eru ekki leyfð.

8. grein: Þátt­töku­gjöld – skráningarfrestur

Þegar leik­menn skrá sig í mót skuld­binda þeir sig um leið til að greiða þátt­töku­gjald, nema þeir af­skrái sig áður en skráningar­frestur rennur út. Leik­maður sem hefur skráð sig í mót fær ekki að taka þátt í öðrum mótum KLÍ fyrr en hann hefur greitt þátt­töku­gjaldið. Undan­þágu skal veita leik­manni sem sendir móta­nefnd skrif­lega út­skýringu á því hvers vegna hætt var við þátttöku, og þá aðeins ef móta­nefnd telur ástæðuna full­nægjandi.

9. grein: Flokka­mót

Í mótum þar sem kepp­endum er skipt í flokka miðað við getu skal enginn keppa í lægsta flokki nema hann hafi til þess skráð meðal­tal. Byrjendum sem aldrei hafa áður eignast skráð meðal­tal má þó raða í neðsta flokk fram að út­gáfu næsta allsherjar­meðal­tals. Þeir sem taka þátt í forgjafarmóti og hafa ekki skráð meðaltal skulu nota 120 stig við útreikning á forgjöf.

10. grein: Reykingar

Í A- og B-mótum er öll notkun tóbaks bönnuð (það innifelur reykingar og notkun rafretta óháð hvort tóbak sé í rafrettunni). Bannið hefst við upphitun.

Viðurlög vegna brots á 1. mgr. í móti, er að viðkomandi fær núll í viðkomandi leik þegar brotið fer fram eða núll í næsta leik á eftir ef brotið á sér stað í upphitun eða á milli leikja í leikjaröð,

11. grein: Feil­varsla

Móts­haldari getur ákvarðað aðra framkvæmd á feil­vörslu og skipun refsi­línu­dómara, en um er getið í reglu 4.20 í almennum keppnis­reglum KLÍ.

12. grein: Brautarmeðhöndlun

Í A og B mótum skal liggja fyrir í mótsreglum hvernig olíuburði skal háttað.

13. grein: Bráðabani

Þegar leikinn er bráðabani til að skera úr um úrslit í liðakeppni er ekki heimilt að skipta inn leikmanni. Í liðakeppnum skal leika 9. og 10. ramma, sé enn jafnt er eitt upphafskast á hvern leikmann. Í einstaklings- og parakeppnum er Roll off þ.e. eitt upphafskast á mann.

14. grein: Tímamörk

Til þess að halda réttum hraða í spilamennskunni verða leikmenn að mæta leik­manninum sem þeir leika á eftir þegar hann/hún kemur niður af stikbrautinni. Þeir skulu vera við „kúlurekkann“ innan 5 sekúnda frá því að undanfarandi keilari er kominn af stikbrautinni. Leikmenn eiga ekki að bíða eftir meira en 2 leikmönnum áður en þeir kasta (einum til hvorrar hliðar). Leikmaður skal hefja atrennu innan 30 sekúnda frá því hann stígur upp á stikbrautina og koma niður af stikbrautinni innan 10 sekúnda frá því að kúlan snertir keilurnar.

15. grein: Búningar

Allir leikmenn liðs skulu vera í eins keppnistreyjum af sama lit og sömu gerð. Leikmenn mega vera í síðbuxum, pilsum eða stuttbuxum af sama lit en allir leikmenn liðs í klæðnaði af sömu gerð. Brot á ákvæði þessu varðar sekt skv. gjaldskrá KLÍ.

Í A-mótum, sem og öllum mótum sem sjónvarpað er frá, er óheimilt að leika í gallabuxum.

Sé einhver þannig klæddur að ósæmilegt megi teljast, getur mótstjóri/dómari bannað honum að keppa, nema ráðin sé bót á því.

16. grein: Fjarvera leikmanna

Seinir leikmenn fá 0 fyrir hvern þann ramma sem þeir missa af. Leikmaður sem yfirgefur leik fær 0 fyrir þá ramma sem hann lýkur ekki. Þó er heimilt að skipta öðrum leikmanni inn á ef leikmaður yfirgefur leik vegna meiðsla. Leikirnir skulu ekki reiknast inn í meðaltal.

Ekkert fjarveruskor er veitt.

17. grein: Frestanir

Ef lið fær frestun, þá má það aðeins nota þá leikmenn sem löglegir voru með liðinu, þegar upphaflegi leiktíminn stóð yfir.

18. grein

Þegar leiknir eru fleiri en 3 leikir í leikjaröð skal skipt um brautarpar eftir hverja 2 leiki eða örar, nema reglur móts kveði á um annað.

Þegar keppendur eru aðeins að spila á tveim settum, en þurfa að spila 6 leiki, þá eiga þeir að spila 3+3 leiki á settunum tveimur til að það komi sem jafnast niður á keppendurna.

19. grein: Upphitun

Upphitun í keilumótum skal almennt vera eftirfarandi:
2-4 keppendur á setti                         – 5 mínútur
5 og fleiri keppendur á setti             – 10 mínútur að lágmarki

Mótsstjóra er heimilt að lengja eða stytta upphitun.

20. grein

Ef fresta þarf leik skal hefja hann aftur frá þeim stað í leiknum, sem hann var þegar fresta þurfti.

21. grein

Aga- og úrskurðarnefnd fjallar um brot á reglugerð þessari nema sérstaklega sé kveðið á um annað. Þó getur aga- og úrskurðarnefnd falið skorritara KLÍ að sekta fyrir brot gegn 1. mgr. 16. gr. gangist lið við broti.

Aga- og úrskurðarnefnd skal leita umsagnar tækninefndar KLÍ vegna brota á 7. gr.