QubicaAMF mótið – Fyrsti keppnisdagur

Facebook
Twitter

Þá er fyrsta keppnisdegi lokið á QubicaAMF Bowling World Cup, heimsbikarmóti einstaklinga í keilu sem nú fer fram í Krasnoyarsk í Síberíu í Rússlandi. Spilamennska var mjög há þennan fyrsta dag keppninnar og efstu keppendur bæði í karla og kvennaflokki eru með um og yfir 250 í meðaltal og þrír 300 leikir voru spilaðir. Hægt er að fylgjast með gangi keppninnar á heimasíðu mótsins og Facebook síðunni og boðið verður upp á bæði beina útsendingu á You tube rás Qubica AMF (live streaming) og að fylgjast með skori í leikjunum (On-line scoring) á heimasíðu mótsins

Arnar Sæbergsson hóf keppni í morgun kl. 12:00, eða kl. 4:00 að íslenskum tíma. Hann byrjaði mjög vel og spilaði 268 í fyrsta leik, síðan kom 237, síðan kom 192, 195 og 206 og loks endaði hann á 256 leik. Samtals var Arnar með 1.354 pinna í dag eða 225,67 að meðaltali í leik í 6 leikjum og er nú í 27. sæti af 74 keppendum og vantar aðeins 10 pinna upp á 24 sætið. Sjá leiki Arnars og útsendingu frá holli A í karlaflokki á fyrsta keppnisdegi (Sjá má Arnar frá u.þ.b. 2:25:00). Arnar keppir næst kl. 8:00 að staðartíma þriðjudaginn 19. nóvember, sem er kl. 24:00 á miðnætti í kvöld að íslenskum tíma.

Guðný Gunnarsdóttir hóf keppni kl. 20:00 að staðartíma eða kl. 12:00 að íslenskum tíma. Hún spilaði ágætlega og endaði með samtals 1.163 eða 193,83 að meðaltali í 6 leikjum og voru leikir hennar 178, 189, 201, 169,  213 og 213. Guðný er nú 32. sæti og vantar 67 pinna upp á 24 sæti. Sjá leiki Guðnýjar og útsendingu frá holli B í kvennaflokki á fyrsta keppnisdegi (Sjá má Guðnýju í upphitun og fyrsta leik frá byrjun útsendingar). Guðný keppir næst kl. 16:00 að staðartíma á morgun þriðjudaginn 19. nóvember, eða kl. 8:00 að íslenskum tíma

Staðan er nú þannig að Svíinn Peter Hellström setti mótsmet í 6 leikjum þegar hann spilaði samtals 1.543 eða 257,17 að meðaltali í leik. Í 2. sæti er William Ching frá Venasúela með 1.495 og Benshir Layoso frá Filipseyjum er í 3. sæti með 1.479. Þrír 300 leikir voru spilaðir í dag í karlaflokki. Fyrsta 300 leikinn spilaði Kestutis Gudauskas frá Litháen, næstur kom Alex de Vries Hollandi og loks Derek Lee frá Macau. Sjá stöðuna í karlaflokki 

Fyrrum mótsmeistari Caroline Lagrange frá Kanada er efst í kvennaflokki og var nálægt því að setja mótsmet með 1.510 eða 251,67 að meðaltali í 6 leikjum. Í 2. sæti er Luminita Farcas Bucin frá Rúmeníu með 1.412 og Danielle McEwan frá Bandaríkjunum er í 3. sæti með 1.400. Sjá stöðuna í kvennaflokki
 

 

Dagskrá mótsins:
Föstudagur 15. og laugardagur 16. nóvember – Koma
Sunnudagur 17 . nóvember  – Æfingar og setningarathöfn
Mánudagur 18. nóvember – Fyrstu 6 leikir, Arnar keppir í holli A kl. 12:00 (4:00) og Guðný keppir í holli B kl. 20:00 (12:00)
Þriðjudagur 19. nóvember – Aðrir 6 leikir, Arnar keppir í holli A kl. 8:00 (24:00) og Guðný keppir í holli B kl. 16:00 (8:00)
Miðvikudagur 20. nóvember – Þriðju 6 leikir, Guðný keppir í holli B kl. 8:00 (24:00) og Arnar keppir í holli A kl. 20:00 (12:00)
Fimmtudagur 21. nóvember – Fjórðu 6 leikir, Guðný keppir í holli B kl. 12:00 (4:00) og Arnar keppir í holli A kl. 16:00 (8:00)
Föstudagur 22. nóvember – Efstu 24 keppendurnir spila 8 leiki, Konur kl. 8:00 og karlar kl. 11:30
Laugardagur 23. nóvember – Efstu 8 keppendurnir spila 8 leiki kl. 9:00 og efstu 3 keppa til úrslita kl. 14:00

Tíminn í Krasnoyarsk er GMT + 8 klst þannig að þegar klukkan þar er 24:00 á miðnætti er hún 16:00 á Íslandi. Sjá World Clock

Hægt er að fylgjast með gangi keppninnar á heimasíðu mótsins og Facebook síðunni og boðið verður upp á bæði beina útsendingu á You tube rás Qubica AMF (live streaming) og að fylgjast með skori í leikjunum (On-line scoring) á heimasíðu mótsins

Nýjustu fréttirnar