QubicaAMF heimsbikarmót einstaklinga 2013

Facebook
Twitter

49. QubicaAMF Bowling World Cup, heimsbikarmót einstaklinga í keilu verður haldið í borginni Krasnoyarsk í Síberíu í Rússlandi dagana 15. nóvember – 2. desember. Fulltrúar Íslands eru nýkrýndir Íslandsmeistarar para, Guðný Gunnarsdóttir og Arnar Sæbergsson, bæði úr ÍR. En þau unnu sér rétt til þátttöku á mótinu með sigri á AMF mótaröðinni síðasta vetur og eru nú bæði að keppa á sínu þriðja Qubica AMF heimsbikarmóti. Arnar keppti á mótunum 2005 og 2009 og Guðný árin 2005 og 2012, auk þess sem hún vann sér rétt til þátttöku árið 2010. Linda Hrönn Magnúsdóttir og Yrsa Elenora Gylfadóttir eru þeim til aðstoðar á mótinu.

QubicaAMF World Cup er stærsta alþjóðlega mótið sem haldið er árlega, ef miðað er við fjölda keppenda og að þessu sinni taka þátt 74 karlar og 64 konur. Meðal keppenda í ár eru Aumi Guerra frá Dóminikanska lýðveldinu sem vann mótið tvö ár í röð 2010 og 2011 og keppti jafnframt til úrslita á síðasta ári. Auk þess eru fjölmargir keppendur sem hafa keppt á mótinu áður. Mótið er nú haldið í glænýjum 32 brauta keilusal Sharovaya Molniya sem var opnaður í september s.l.

Mótið er einstaklingskeppni, spilaðir sex leikir í 4 leikjablokkum á fjórum dögum, alls 24 leikir. Að þessu sinni er spilað í tveimur hollum bæði í karla- og kvennaflokki.  Að loknum þessum 24 leikjum komast 24 efstu keppendurnir í karla- og kvennaflokki eftir pinnafalli áfram og spila 8 leiki í viðbót og taka með sér skorið áfram. Á mótinu í Póllandi 2012 þurfti að meðaltali 195,7 til að komast áfram í úrslitin í kvennaflokki og 208,9 að meðaltali í karlaflokki, en þá voru bara 20 leikir í forkeppninni. Efstu 8 keppendurnir í karla- og kvennaflokki eftir pinnafalli úr þessum 32 leikjum komast áfram og taka með sér skorið og spila 8 leiki til viðbótar. Efstu 3 keppendur í hvorum flokki spila síðan til úrslita. Keppandi í 2. sæti keppir á móti keppanda í 3. sæti og spila þrjá leiki þar sem tveir efstu leikir skera úr um það hvor vinnur. 

Dagskrá mótsins:
Föstudagur 15. og laugardagur 16. nóvember – Koma
Sunnudagur 17 . nóvember  – Æfingar og setningarathöfn
Mánudagur 18. nóvember – Fyrstu 6 leikir, Arnar keppir í holli A kl. 12:00 (4:00) og Guðný keppir í holli B kl. 20:00 (12:00)
Þriðjudagur 19. nóvember – Aðrir 6 leikir, Arnar keppir í holli A kl. 8:00 (24:00) og Guðný keppir í holli B kl. 16:00 (8:00)
Miðvikudagur 20. nóvember – Þriðju 6 leikir, Guðný keppir í holli B kl. 8:00 (24:00) og Arnar keppir í holli A kl. 20:00 (12:00)
Fimmtudagur 21. nóvember – Fjórðu 6 leikir, Guðný keppir í holli B kl. 12:00 (4:00) og Arnar keppir í holli A kl. 16:00 (8:00)
Föstudagur 22. nóvember – Efstu 24 keppendurnir spila 8 leiki, Konur kl. 8:00 og karlar kl. 11:30
Laugardagur 23. nóvember – Efstu 8 keppendurnir spila 8 leiki kl. 9:00 og efstu 3 keppa til úrslita kl. 14:00

Tíminn í Krasnoyarsk er GMT + 8 klst þannig að þegar klukkan þar er 24:00 á miðnætti er hún 16:00 á Íslandi. Sjá World Clock

Hægt verður að fylgjast með gangi keppninnar á heimasíðu mótsins og Facebook síðunni og boðið verður upp á bæði beina útsendingu á You tube rás Qubica AMF (live streaming) og að fylgjast með skori í leikjunum (On-line scoring) á heimasíðu mótsins

Nýjustu fréttirnar