Íslandsmót einstaklinga – milliriðill

Facebook
Twitter

Í gærkvöldi, mánudaginn 5. mars, fór fram keppni í í milliriðli karla og kvenna á Íslandsmóti einstaklinga 2007 og var hart barist um sæti í undanúrslitnum. Helstu tíðindi kvöldsins voru þau að Magnús Magnússon KR spilaði annan 300 leikinn sinn á ferlinum, en segja má að 300 leikirnir hafi legið í loftinu frá upphafi mótsins og Karen Rut Sigurðardóttir ÍR setti þrjú Íslandsmet í 1. flokki stúlkna 17 – 18 ára þegar hún spilaði 857 í 4 leikjum, 1.066 í 5 leikjum og 1.245 í 6 leikjum.  En þess má geta að Karen átti metin í 5 og 6 leikjum sem hún setti 11. febrúar s.l. Glæsilegur árangur hjá þeim báðum. 

Hjá konunum spilaði Sigfríður Sigurðardóttir KFR best allra í milliriðlinum eða 1.314 í 6 leikjum eða 219 að meðaltali í leik og er nú með örugga forystu í 1. sæti með samtals 3.764 pinna eða 209,11 að meðaltali eftir þessa 18 leiki. Sannarlega frábær spilamennska hjá Sigfríði. Dagný Edda Þórisdóttir KFR er í 2. sæti með 3.438, Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR er í 3. sæti með 3.386, Ragna Matthíasdóttir KFR er í 4. sæti með 3.381, Karen Rut Sigurðardóttir ÍR er  í 5. sæti með 3.367 og Guðný Gunnarsdóttir er í 6. sæti með 3.303. Þessar 6 konur voru í nokkrum sérflokki að þessu sinni og öruggar áfram í undanúrslit, en ljóst að hart verður barist um sæti í kvöld. Staðan hjá konunum

Hjá körlunum spilaði Magnús Magnússon KR best allra í milliriðlinum eða 1.460 í 6 leikjum eða 243,3 að meðaltali í leik og er hann nú með 4.219 pinna eða 234,39 að meðaltali í 18 leikjum. Hefur hann nú sótt verulega að Hafþóri Harðarsyni KFR sem er með 4 pinna forystu í efsta sæti með 4.221 pinna og 234,50 að meðaltali í leik. Í 3. sæti er Steinþór Geirdal Jóhannsson ÍR með 4.159 pinna eða 231,06 að meðaltali, Arnar Sæbergsson ÍR er í 4. sæti með 3.869, Björn Birgisson KR í 5. sæti með 3.864, Árni Geir Ómarsson í 6. sæti með 3.802, Freyr Bragason KFR í 7. sæti með 3.800 og Andrés Páll Júlíusson KR er í því 8. með 3.781 og því ljóst að framundan er hörkubarátta um sæti í úrslitum. Róbert Dan Sigurðsson ÍR féll hins vegar út á 29 pinnum og Kristján Þórðarson ÍR var 75 pinnum frá því að komast áfram. Staðan hjá körlunum

Í undanúrslitum sem hefjast kl. 19:00 í kvöld, þriðjudaginn 6. mars, verður spiluð einföld umferð, allir á móti öllum, þ.e. 5 leikir hjá konunum og 7 leikir hjá körlunum. Að lokum keppa tveir efstu keppendurnir í hvorum flokki til úrslita sem spiluð verða strax að undanúrslitum loknum.

Nýjustu fréttirnar