Íslandsmót einstaklinga – Forkeppni lokið

Facebook
Twitter

Í dag, sunnudag 4. mars, lauk forkeppni á Íslandsmóti einstaklinga og því ljóst hvaða keppendur, 12 konur og 16 karlar, halda áfram keppni í milliriðli í Keiluhöllinni á morgun mánudaginn 5. mars kl. 19:00. Í milliriðli eru spilaðir 6 leikir og að því loknu komast 8 efstu karlarnir og 6 efstu konurrnar í undanúrslit sem spiluð verða í Keiluhöllinni þriðjudaginn 6. mars kl. 19:00. Í undanúrslitum er spiluð einföld umferð, allir á móti öllum, þ.e. 5 leikir hjá konunum og 7 leikir hjá körlunum. Að lokum keppa tveir efstu keppendurnir í hvorum flokki til úrslita sem spiluð verða strax að undanúrslitum loknum.

Hafþór Harðarson KFR byrjaði daginn vel og spilaði 1.010 í fyrstu 4 leikjunum og var nálægt gildandi Íslandsmeti sem er 1.033. Hann gaf þó aðeins eftir í síðustu leikjunum, en er enn í efsta sæti með 2.890 pinna eða 240,83 að meðaltali í leik. Steinþór Geirdal Jóhannsson ÍR spilaði best í karlaflokki í dag eða 1.432 og er nú í 2. sæti með 2.838 pinna eða 236,5 að meðaltali. Magnús Magnússon KR er í 3. sæti með 2.759 pinna eða 229,92 að meðaltali. Arnar Sæbergsson ÍR spilaði 1.379 í dag og vann sig upp úr 12. sæti í það 4. Andrés Páll Júlíusson KR spilaði 1.312 og fór úr 8. sæti í það 5. og Freyr Bragason KFR spilaði 1.302 og hækkaði við það úr 10. sæti í það 6. Í 7. sæti, og 8 pinnum á eftir Frey, er Árni Geir Ómarsson ÍR sem í dag spilaði 1.178 og Björn Birgisson KR er í 8. sæti 9 pinnum á eftir Árna Geir. Baráttan um 16. sætið var engu minna spennandi. Í 16. sæti og síðastur inn í milliriðil var Magnús Reynisson KR, sem komst áfram eftir harða baráttu. Jón Kristinn Sigurðsson ÍR datt hins vegar út á 1 pinna, Jón Ingi Ragnarsson KFR á 3 pinnum og Skúli Freyr Sigurðsson KFA á 27 pinnum. Staðan hjá körlunum

Í kvennaflokki er Sigfríður Sigurðardóttir KFR með góða forystu í efsta sæti með 2.450 pinna eða 204,17 að meðaltali. Næstar á eftir henni koma Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR með 2.247 pinna eða 187,25 að meðaltali og Dagný Edda Þórisdóttir KFR með 2.232 pinna eða 186 að meðatali. Í 4. sæti er Guðný Gunnarsdóttir ÍR með 2.179 pinna og 181,58 að meðaltali, Ragna Matthíasdóttir KFR er í 5. sæti með 2.149 pinna og 179,08 að meðaltali og í 6. sæti er Karen Rut Sigurðardóttir með 2.122 eða 176,83 að meðaltali. Magna Ýr og Dagný Edda spiluðu best í dag, en hástökkvarar dagsins voru Jóna Gunnarsdóttir KFR sem vann sig upp úr 15. sæti í það 8. og og Ágústa Þorsteinsdóttir KFR sem vann sig upp úr 14. sæti í það 12. Það var hins vegar Bára Ágústsdóttir KFR sem mátti sætta sig við 13. sætið að þessu sinni og að falla út á 54 pinnum. Staðan hjá konunum

Nýjustu fréttirnar