Tékkneskur og sænskur sigur

Keppni er nú lokið á ECC í Olomouc í Tékklandi. Gullverðlaunin fóru til Tékklands og Svíþjóðar.

Það voru Casja Wegner frá Sviþjóð og Maria Bulanova frá Rússlandi sem kepptu til úrslita hjá konunum.  Úr varð spennandi viðureign. Maria vann fyrsta leikinn 237 – 214 en Casja svaraði í næsta leik 247 – 217. Þær þurftu því að spila úrslitaleik sem varð æsispennandi. Það var Casja sem sigraði þann leik 219 – 217 og er því ECC meistari 2016. Bronsverðlaun fengu svo Nicole Sanders frá Hollandi og Nadine Greissler frá Þýskalandi.

Í karlaflokki spiluðu saman heimamaðurinn Jaroslav Lorenc og Svíinn James Gruffman. Þessir tveir höfðu verið hæstir allt mótið og því vel að því komnir að spila til úrslita. Leikar fóru þannig að Jaroslav vann í tveimur leikjum, 244 – 223 í fyrsta og 247 – 236 í öðrum og því samtals 2 – 0. Í þriðja sæti urðu svo Antonio Fiorentino frá Ítalíu og Hadley Morgan frá Englandi.

Arnar endaði í 8. sæti

Arnar Davíð Jónsson úr KFR hefur lokið keppni á ECC, Evrópumóti landsmeistara, í Olomouc. Arnar endaði í 8. sæti.

Arnar var í 8. sæti áður en keppni hófst í dag og þrátt fyrir góða spilamennsku tókst honum ekki að spila sig upp um sæti. Arnar spilaði 912 í 4 leikjum eða 228 í meðaltal.
Það er ekki hægt að segja annað en að Arnar hafi átt frábært mót. Hann spilaði í heildina á 225.11 í meðaltal og það er klárt að þetta fer í reynslubankann enda Arnar ungur og á mikla framtíð fyrir sér.

„Í heildina er ég sáttur við frammistöðuna. Ég kom inn í 8 manna úrslitin í erfiðri stöðu sem sést best á því að þó ég spili vel í dag hefur það ekkert að segja. Auðvitað er alltaf hægt að finna hluti sem hefðu mátt klára betur en 8. sætið er staðreynd og er ég nokkuð sáttur við það“ sagði Arnar eftir að hafa lokið keppni í dag.

Í undanúrslitum leika Jaroslav Lorenc frá Tékklandi, James Gruffman frá Svíþjóð, Antonio Fiorentino frá Ítalíu og Hadley Morgan frá Englandi.
 

Arnar í 8 manna úrslit á ECC

Arnar Davíð Jónsson úr KFR er kominn í 8 manna úrslit á ECC, Evrópumóti landsmeistara sem haldið er í Olomouc í Tékklandi 

 Arnar byrjaði daginn illa, öfugt við hina keppnisdagana þar sem hann hefur spilað betur fyrri helminginn. Fyrir daginn í dag var Arnar í 6. sæti en eftir fyrri 4 leikina í dag var hann dottinn niður í 11. sæti. Seinni fjórir leikirnir voru hins vegar góðir og fyrir síðasta leik stóð keppni um 8 sætið á milli Arnars, Glenn Morten Pedersen frá Noregi og Jesper Agerbo frá Danmörku.  Allir spiluðu þeir vel í síðasta leik en að lokum var það Glenn Morten sem sat eftir, 4 stigum á eftir Arnari sem tók 8. sætið.
Nú er framundan keppni í 8 manna úrslitum en þar eru leiknir 4 leikir og svo halda 4 efstu áfram í undanúrslit.

Sjá heimasíðu mótsins

Sjá úrslitasíðu mótins

Tveir 300 leikir á EM í dag

Í dag voru leiknir tveir 300 leikir á EM í Olomouc. 

 Fyrst var það Glenn Robson frá Wales sem spilaði 300 en það gerði hann í leik 5.  Það var svo Catalin Gheorghe frá Rúneníu sem spilaði seinni leikinn en það gerði hann í leik 7.  Frábær árangur hjá þeim báðum og þess má geta að þeir eru báðir komnir áfram í 16 manna úrslit, eru þó ekki fyrir ofan okkar mann, Arnar Davíð. Catalin er í 12. sæti og Glenn er í 15. sæti.

Arnar flaug inn í 16 manna úrslit

Arnar Davíð lék í dag seinni 8 leikina í forkeppni EM í Olomouc í Tékklandi. Arnar spilaði mjög vel og tryggði sig inn í 16 manna úrslitin. 

Arnar, sem spilaði 1801 í gær bætti um betur í dag og spilaði 1882 eða 3683 samtals. Þetta skilaði honum 6. sæti inn í 16 manna úrslit.
Arnar byrjaði daginn frábærlega, spilaði 268, 268 og 245 í fyrstu þremur leikjunum. Heldur dalaði spilamennskan í næstu þremur leikjum en þeir voru 213, 192 og 205. Arnar fann línuna aftur í síðustu tveimur leikjunum sem voru 237 og 254. Frábær spilamennska og er hann með 230,2 í meðaltal.

Arnar á þó enn ýmislegt inni og hann er staðráðinn í að sýna það. Á morgun kl. 11:00 hefst keppni í 16 manna úrslitum og eru leiknir 8 leikir. Eftir það verður skorið niður í 8 keppendur sem halda áfram í undanúrslit.

Það er heimamaðurinn Jaroslav Lorenc sem er efstur með 242,9 í meðaltal, næstu kemur James Gruffman frá Svíþjóð með 241,9 og þriðji er Valentyn Kucherencko frá Úkraínu með 234,2   Arnar Davíð er 64 stigum frá þriðja sætinu.

Sjá stöðu hérna.

 

Arnar leikur kl. 11:30 í dag

Arnar Davíð leikur seinni 8 leikina í forkeppni EM í dag. Hann á góða möguleika á að komast áfram. 

Arnar, sem lék mjög vel í gær, er sem stendur í 10. sæti en 16 efstu komast áfram í milliriðil.  Keppni hefst hér í Olomouc kl. 11:30 að íslenskum tíma og hægt er að fylgjast með á heimasíðu mótsins http://www.ecc2016.eu/ og fylgjast beint með skorinu á slóðinni http://onlinescore.qubicaamf.com/?idcenter=8730. Arnar hefur leik á braut 15 og færir sig svo eitt sett niður eftir hvern leik. 

Hafdís hefur lokið leik

Hafdís Pála hefur lokið leik á EM í Olomouc. Hún endaði í 34. sæti. 

 Hafdís lék seinni 8 leikina í forkeppninni í gær. Hún var að loka betur en í fyrri 8 leikjunum en fékk þó nokkuð af erfiðum glennum. Hún spilaði 1303 og 2622 í heildina sem gera 163,9 í meðaltal.

Baráttan á toppnum er hörð en þar er spilamennskan mjög góð. Efst er Maria Bulanova frá Rússlandi með 232.2 í mtl, í öðru sæti er Casja Wegner með 225,6 í mtl og í því þriðja er Nicole Sanders frá Hollandi með 222,4 í mtl.

Flott spilamennska hjá Arnari

Arnar Davíð hóf keppni á EM í morgun. Hann var í seinni riðli karla en spilamennskan í fyrri riðlinum var mjög góð.

Arnar byrjaði daginn mjög vel, spilaði 267 og fylgdi því eftir með 259 og 257.  Eftir það dalaði spilamennskan aðeins en allir leikir í dag, fyrir utan 7. leik, voru mjög ásættanlegir.
Dagurinn skilaði 1801 sem gera 225,1 í mtl og þegar allir hafa lokið 8 leikjum er Arnar í 10 sæti af 40 keppendum.  Á morgun eru leiknir 8 leikir til viðbótar og eftir þá komast 16 efstu keppendurnir áfram.

Hafdís Pála spilar seinni 8 leikina sína í forkeppninni síðar í dag en Arnar Davíð leikur sína seinni 8 leiki annað kvöld.