Heimsmeistaramót kvenna

Heimsmeistaramót kvenna fer fram dagana 2 – 14 ágúst í Álaborg. Lið Íslands er þannig skipað:

Alda Harðardóttir KFR, Elín Óskarsdóttir KFR, Dagný Edda Þórisdóttir KFR, Guðný Gunnarsdóttir ÍR, Jóna Kristbjörg Þórisdóttir KFR, Sigfríður Sigurðardóttir KFR. 
Þjálfari er Rickard Ohlsson og aðstoðarþjálfari/fararstjóri er Theódóra Ólafsdóttir.

Hægt er að fylgjast með mótinu á heimasíðu mótsins, slóðin er www.wwc2005.dk

Þar er að finna allar upplýsingar um mótið, þ.m.t. dagskrá og úrslit.

ÁHE

Venslasamningur liða

Stjórn KLÍ hefur samþykkt reglugerð fyrir venslasamning liða. Í vetur geta lið úr efri deild og lið úr neðri deildum gert með sér venslasamning sem heimilar leikmönnum þessara liða að leika með báðum liðum eftir ákveðnum skilyrðum, sjá reglugerðina hér að neðan. Venslasamningseyðublaðið verður komið hér inn á heimasíðuna innan skamm.

Reglugerð um venslasamninga liða.

Venslasamningur liða felur það í sér að lið innan sama félags gera samning sín á milli um að liði í efri deild (hér eftir kallað lið A) og liði í neðri deild (hér eftir kallað lið V) geti skipst á leikmönnum á því tímabili sem samningurinn kveður á um. Eftir að slíkum samningi er komið á verða leikmenn hlutgengir með báðum liðum og mega því taka þátt í leikjum beggja liða í Íslandsmóti liða á viðkomandi leiktíð.

Eftirfarandi reglur gilda um Venslasamninga liða:

1. Hverju liði er aðeins heimilt að gera einn venslasamning á hverju tímabili. Hægt er að gera venslasamning frá byrjun keppnistímabils (deilda) og til og með 31. janúar. Frá 1. febrúar og til loka keppnistímabils er lokað fyrir gerð venslasaminga.

2. Lið sem gera venslasamning mega ekki leika í sömu deild.

3. Gildistími venslasamnings er til loka þess keppnistímabils sem hann er gerður og skal samningur ekki taka gildi fyrr en hann hefur verið formlega staðfestur af KLÍ.

4. Allir löglegir leikmenn liða A og V heyra undir venslasamninginn og hafa rétt á að færast á milli liðanna að því undanskyldu að tveir leikja hæstu leikmenn liðs A mega ekki leika með liði V. Ef fleiri en tveir leikmenn liðs A eru með jafn marga leiki skal meðaltal gilda og þá mega tveir meðaltals hæstu (deildarmeðaltal) ekki leika með liði V. Ef leikmaður liðs A hefur ekki leikið með liðinu í 3 umferðir en er samt einn af tveimur leikjahæstu leikmönnum liðsins má hann leika með liði V fyrstu umferð eftir að hann hefur leik í deildarkeppni KLÍ aftur.

5. Leikmaður má ekki spila með báðum liðum í sömu leikviku í deildarkeppni. Leikvika hefst á mánudegi og líkur á sunnudegi.

6. Leikmaður á rétt á einstaklinsverðlaunum í þeirri deild þar sem hann hefur leikið fleiri leiki að öðrum skilyrðum um verðlaun í deildum uppfylltum.

7. Sé leikmaður uppvís af því að brjóta ofangreindar reglur, dæmist skor hans að engu og leikur þess liðs sem hann lék með síðar í leikvikunni telst því liði tapaður með fullu húsi stiga.

8. Lið sem brýtur gegn reglum þessum, getur misst réttinn á venslasamning á næstu leiktíð.

9. Aganefnd KLÍ fjallar um brot á reglugerð þessari.

ÁHE

Ásgrímur ráðinn

Stjórn KLÍ hefur ráðið Ásgrim Helga Einarsson til starfa.
Áki er öllum keilurum vel kunnur, var landsliðsmaður á árum áður og hefur m.a. verið ábyrgðarmaður keilusíðunnar www.keila.is.
Auk fjölskyldunnar og keilunnar er Áki mikill knattspyrnuunnandi. Hann er  landsdómari hjá KSÍ, hefur þjálfað knattspyrnu og var framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Stjörnunnar. Hann er nú formaður knattspyrnudeildar Ungmennafélags Álftaness.
Stjórn KLÍ býður Áka velkominn til starfa.

BMB

Fréttir af Evrópumeistramótinu

Nú er keppni í þrímenningi lokið og eingöngu liðakeppnin eftir.  Björn (713 alls 1204), Kristján (574/1184) og Árni Geir (649/1304) enduðu í 21. sæti af 52. með 3693 stig eða 205,17 að meðaltali í þessum 6 leikjum, en Magnús (619/1228), Arnar (611/1155) og Steinþór (611/1167) voru í 32. sæti með 3550 stig eða 197,22 að meðaltali. Björn spilaði mjög vel í dag, eftir slakan dag í gær, og einnig Árni Geir sem hefur náð sér vel á strik þessa tvo daga í þrímenningnum.

Keppnin var jöfn í þrímenningnum og skildu aðeins nokkur stig að efstu sætin þegar upp var staðið.  Fór að lokum þannig að Finnar báru sigur úr býtum, en liðið sem var skipað þeim Kimmo Lehtonen, Petteri Salonen og Lasse Lintila spilaði samtals 4042 eða 224,56 að meðaltali í leik. Í öðru sæti voru Norðmennirnir Per Kristian Eide, Svein Roger Olsen og Petter Hansen með 4027 eða 223,72 að meðaltali og í þriðja sæti Þjóðverjarnir Oliver Morig, Achim Grabowski og Jens Nickel með 4009 stig eða 222,72 að meðaltali.

Staðan er nú þannig í heildarkeppninni að Steinþór er enn efstur Íslendinganna í 58. sæti með 207,89 að meðaltali í leik.  Þjóðverjinn Oliver Morig nú efstur með 229,83 að meðaltali í leik, annar er Finninn Petteri Salonen með 229,22 og eftir góða spilamennsku í dag er Finninn Lasse Lintilla kominn í þriðja sætið með 228,56 að meðaltali.

Á morgun föstudag hefst keppni í liðakeppni 5 manna liða með fyrstu þremur leikjunum en keppninni lýkur á laugardaginn.

Fylgist með á keilusíðunum og á heimasíðu mótsins http://bowlingsport.ru/tur/world/emc2005/english.shtml

Evrópumeistaramót karla

Þá er fimmta keppnisdegi lokið á Evrópumeistaramótinu í Moskvu í Rússlandi
með fyrri þremur leikjunum í keppni í þrímenningi.  Gengi íslensku
keilaranna var heldur misjafnt í dag.  Árni Geir náði sér vel á strik og
spilaði best íslensku keppendanna og endaði með 656 seríu.  Er hann nú
ásamt Birni (491)og Kristjáni (610)í 32. sæti í þrímenningskeppninni með
1757 og 195,22 að meðaltali.  Magnús (609), Arnar (544) og Steinþór (556)
eru hins vegar í 36. sæti eins og er með 1709 eða 189,89 að meðaltali.

Steinþór er ennþá efstur Íslendinganna í heildarkeppninni í 56. sæti með
208,73 að meðaltali.  Miklar sviptingar hefa verið á toppnum og er hörð
keppni um efstu sætin.  Þjóðverjinn Oliver Morig nú efstur með 233,30 að
meðaltali í leik, annar er Finninn Petri Mannonen með 232,07 og þriðji er
Svíinn Robert Anderson með 230,53 að meðaltali.

Á morgun fimmtudag 9. júní verða spilaðir seinni þrír leikirnir í
þrímenningnum og vonum við að okkar keppendur nái sér þá allir á strik.  Á
föstudag hefst síðan keppni í liðakeppni 5 manna liða, sem lýkur svo á
laugardaginn.

Fylgist með á keilusíðunum og á heimasíðu mótsins http://bowlingsport.ru/tur/world/emc2005/english.shtml

Evrópumeistaramót karla

Þegar keppni er lokið í tvímenningi er staða okkar keppenda þannig í heildarkeppninni (All Events) að Steinþór G. Jóhannsson er efstur íslensku keppendanna í 38. sæti með 2575 stig eða 214,58 að meðaltali í leik og vantar 115 upp í 16. sætið. Finninn Petteri Salonen leiðir nú keppnina með 2811 stig eða 234,25 að meðaltali, í öðru sæti er Norðmaðurinn Lasse Ingebrigtsen með 2795 eða 232,92 að meðaltali og í þriðja sæti er Þjóðverjinn Oliver Morig með 2784 eða 232 að meðaltali, þannig að keppnin er ennþá jöfn og spennandi. Á morgun miðvikudag 8. júní og fimmtudaginn 9. júní verður keppt í þrímenningi.

Í tvímenningnum var árangurinn okkar manna þannig að Steinþór og Magnús Magnússon urðu í 36. sæti með 2474 eða 206,17 að meðaltali, Arnar Sæbergsson og Árni Geir Ómarsson voru í 60. sæti með 2285 eða 190,42 að meðaltali og Björn G. Sigurðsson og Kristján Þórðarson enduðu í 67. sæti 2238 186,50. Sigurvegarar í tvímenningnum voru Finnarnir Petteri Salonen og Jari Ratia 2788 stig eða 232,33 að meðaltali í leik.  Í öðru sæti voru Þjóðverjarnir Oliver Morig og Kai Gunter með 2731 eða 227,58 að meðaltali og í þriðja sæti voru Norðmennirnir Per Kristian Eide og Lasse Ingebrigtsen með 2716 eða 226, 33 að meðaltali.

Að þessu sinni taka 28 þjóðir þátt í Evrópumeistaramótinu og alls 161 keppandi, en ekki mæta allar þjóðir með fullt lið til keppni. Keppt er í einstaklingskeppni 6 leikir, tvímenningi 6 leikir, þrímenningi 6 leikir og liðakeppni 5 manna liða 6 leikir eða samtals 24 leikir.  Efstu 16 efstu keppendurnir eftir þessa 24 leiki komast áfram og spila maður á móti manni (Round robin) samtals 15 leiki, þar sem veittir eru 30 pinnar í bónus fyrir unninn leik og 15 pinnar fyrir jafntefli.

Hægt er að fylgjast með fréttum á www.keila.is og á heimasíðu mótsins http://bowlingsport.ru/tur/world/emc2005/english.shtml

Íslandsmót í tvímenningi, úrslit

Úrslit í Íslandsmóti í tvímenningi fóru fram miðvikudaginn 11. maí 2005. Eftir undanúrslit sem fram fóru sama kvöld var staðan eins og hér segir:

1. Björn G. Sigurðsson / Magnús Magnússon 5703
2. Freyr Bragason / Hafþór Harðarson 5536
3. Halldór Ragnar Halldórsson / Jón H. Bragason 5233
4. Arnar Sæbergsson / Steinþór Geirdal Jóhannsson 5138
5. Árni Geir Ómarsson / Kristján Þórðarson 5053
6. Halldór Ásgeirsson / Pétur Gunnlaugsson 4891

 

Það voru því Björn og Magnús sem léku til úrslita á móti Frey og Hafþór. Björn og Magnús þurftu að vinna tvo leiki, en Freyr og Hafþór þrjá. Leikar fóru eins og hér segir:

Björn 180 181 188 222
Magnús 197 222 216 194
  377 403 404 416
Freyr 238 179 190 169
Hafþór 180 202 243 178
  418 381 433 347

Það voru því Björn og Magnús sem urðu Íslandsmeistarar í tvímenningi 2005. KLÍ/bmb