Helen Johnsson frá Svíþjóð sigraði í Masters keppni á Evrópumeistaramóti kvenna þegar hún vann Britt Bröndsted frá Danmörku í úrslitaleiknum 2 – 1. Bronsverðlaun hlutu Minna Mäkelä Finnlandi og Priscilla Maaswinkel Hollandi. Sjá nánar á heimasíðu mótsins og einnig er að finna góða umfjöllun á Bowling Digital.
Evrópumeistaramót kvenna 2006
Fiona Banks frá Englandi sigraði í All Events á Evrópumeistaramóti kvenna og setti nýtt met með seríum upp á 1.214, 1.422, 1.473 og 1.334, sem gerir samtals 5.443 eða 226,79 í meðaltal. Í 2. sæti var Mai Ginge-Jensen, Danmörku með 5.282 (220,08) og í 3. sæti Patricia Schwarz, Þýskalandi sem spilaði eina 300 leik mótsins og endaði með 5.261 (219,21). Sjá nánar á heimasíðu mótsins.
Evrópumeistaramót kvenna 2006
Hollendingar eru Evrópumeistarar í liðakepnni kvenna en þeir lögðu Svía í undanúrslitunum og Finna í úrslitaleiknum. En Finnar unnu Dani í hinum undanúrslitaleiknum. Sjá nánar á heimasíðu mótsins.
Liðin voru þannig skipuð:
1. Holland: Marieke de Jong, Wendy Kok, Wendy van der List, Ghislaine van der Tol, Priscilla Maaswinkel, Jolanda Visser.
2. Finnland: Reija Lunden, Mari Santonen, Jaana Stromberg, Minna Mäkelä, Piritta Kantola, Tiia Einola.
3. Svíþjóð: Nina Flack, Christel Carlsson, Malin Glendert, Anna Mattsson-Baard, Helen Johnsson, Diana Alfredsson.
3. Danmörk: Britt Bröndsted, Anja Ginge Jensen, Rikke Holm Rasmussen, Mai Ginge Jensen, Kamilla Kjeldsen, Anne Gales.
Heimsmeistaramót karla 2006
Robert Andersson og Martin Larsen Svíþjóð eru heimsmeistarar í tvímenningi 2006 og er það í fjórða skiptið í röð sem Svíar tryggja sér þennan titil. Á síðasta heimsmeistaramóti voru þeir félagarnir Robert og Martin í 3. sæti en náðu nú að tryggja sér sigurinn. Óskum við þeim hjartanlega til hamingju með árangurinn og óskum þeim góðs gengis í áframhaldandi keppni. Í 2. sæti voru Mike Quarry og Daniel Stride Englandi og í þriðja sæti Jarrod Lean og Jason Belmonte Ástralíu. Sjá nánar á heimasíðu mótsins.
Evrópumeistaramót kvenna 2006
Jemma Smith, Katie Jowsey og Fiona Banks Englandi sigruðu í þrímenningi á Evrópumeistaramóti kvenna þegar þær sigruðu Britt Bröndsted, Mai Ginge Jensen og Kamilla Kjeldsen Danmörku í úrslitaleiknum, 611-568. Englendingarnir sigruðu Hollendingana, Wendy Kok, Marieke de Jong og Ghislaine van der Tol, 705-696, en Danir sigruðu Þjóðverjana Martina Beckel, Tina Hulsch og Patricia Schwarz, 694-650. Danir eru þá búnir að bæta öðru silfri í safnið, eftir að vinna gull og silfur í tvímenningnum, en Englendingar eru búnir að tryggja sér gull og brons. Sjá nánar á heimsíðu mótsins.
Félagsfundur KFR
Félagsfundur Keilufélags Reykjavíkur verður haldinn í Berjarima 65 þriðjudaginn 29. ágúst og hefst kl. 18:00. Félagsmenn eru hvattir til að mæta til að kynna fyrirkomulagið á næsta keppnistímabili.
Fundur keiludeildar ÍR
Almennur félagsfundur Keiludeildar ÍR verður haldinn í Félagsheimili ÍR við Skógarhlíð þriðjudaginn 29. ágúst og hefst kl. 20:00. Á fundinum verður m.a. farið yfir ýmis málefni varðandi næsta keppnistímabil. Lögð er mikil áhersla á að það mæti a.m.k. einn fulltrúi frá hverju keiluliði. Sjá nánar á heimsíðu keiludeildarinnar.
Heimsmeistaramót karla 2006
Heimsmeistaramót karla 2006 fer fram í borginni Busan í Kóreu dagana 27. ágúst til 8. september n.k. Til leiks eru mættir keppendur frá 45 þjóðum, en því miður reyndist of kostnaðarsamt að senda íslenska keppendur til þátttöku að þessu sinni. Keppni á mótinu hefst fimmtudaginn 31. ágúst með fyrri seríu í tvímenningi sem spiluð verður í langri olíu.
Á keppendalistanum er að finna mörg kunnugleg nöfn frá alþjóðlegum mótum. Í sænska karlalandsliðinu, sem er byggt upp á ungum leikmönnum og reynsluboltum, er m.a.að finna Íslandsvininn Robert Andersson. Sendum við honum okkar bestu óskir um gott gengi á mótinu. Aðrir í sænska liðinu eru hinn gamlareyndi Tomas Leanderson, sem kominn er í landsliðið á nýja leik, Anders Öhman, Martin Larsen og nýliðarnir Tobias Karlsson og Peter Ljung. Fylgist með á heimasíðu mótsins og/eða á Bowling digital
Evrópumeistaramót kvenna 2006
Nú er hafin keppni á Evrópumóti kvenna í keilu 2006 sem fram fer í Böblingen í Þýskalandi dagana 25. ágúst til 2. september n.k. Að þessu sinni sendu 22 þjóðir fulltrúa sína til keppni, eða 118 keppendur alls, og eru það nokkuð færri en á undanförnum mótum. Íslenska kvennalandsliðið er því miður fjarri góðu gamni og svo er einnig um fleiri þjóðir að þessu sinni. Norðmenn mæta hins vegar með tvo keppendur undir stjórn nýs kvennalandsliðsþjálfara Peters „Peppe“ Engström, sem er okkur að góðu kunnur.
Keppni í tvímenningi lauk í dag með seinni 6 leikja seríunni og að loknum undanúrslitum og úrslitum stóðu frændur vorir Danir uppi sem tvöfaldir sigurvegarar. Evrópumeistarar í tvímenningi eru systurnar Mai Ginge-Jensen og Anja Ginge-Jensen sem enduðu í undankeppninni með 5.205 eða með 216,88 að meðaltali eftir 24 leiki. Í öðru sæti urðu landar þeirra Kamilla Kjeldsen og Britt Bröndsted með 5.101 eða 212,54 og í þriðja sæti Piritta Kantola og Reija Lunden frá Finnlandi 5.202, 216,75 og Fiona Banks og Katie Jowsey frá Englandi 5.099, 212,46. Spilamennska dagsins í langri olíu var mjög góð og voru t.d. fjórir tvímenningar með yfir 2.600 seríu. Patricia Schwartz Þýskalandi spilaði best allra keppendanna í dag og stóð uppi með einn 300 leik og 1.477 seríu. Á morgun þriðjudag hefst síðan keppni í þrímenningi í stuttri olíu. Sjá nánar á heimasíðu mótsins og einnig er að finna umfjöllum um mótið á Bowling digital
Framkvæmdum við Egilshöll frestað
Á forsíðu Blaðsins í dag kemur fram Nýsir hefur stöðvað framkvæmdir við Egilshöll vegna þess að fjármálastofnanir hafi stöðvað lánveitingar í slíkar framkvæmdir. Í samtali Blaðsins við Helga S. Gunnarsson framkvæmdastjóra Nýsis kemur fram að fyrirhugaðri framkvæmd við stækkun Egilshallarinnar hefur því verið frestað um óákveðinn tíma. Þetta eru slæm tíðindi fyrir keilara þar sem að í þessari byggingu átti m.a. að vera bíóhús, 32 brauta keilusalur og sýningarsvæði.