Reykjavíkurmót unglinga 2006

Alls tóku 13 unglingar þátt í Reykjavíkurmóti unglinga að þessu sinni og kepptu í þremur flokkum pilta og tveimur flokkum stúlkna. Úrslit fóru þannig að Karen Rut Sigurðardóttir ÍR sigraði í 1. flokki stúlkna og Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR var í 2. sæti. Ástrós Pétursdóttir ÍR sigraði í 2. flokki stúlkna og Bergþóra Rós Ólafsdóttir var í 2. sæti. Jón Ingi Ragnarsson KFR sigraði í 1. flokki pilta, Róbert Dan Sigurðsson ÍR varð í 2. sæti og Stefán Claessen ÍR í 3. sæti. Andri Már Ólafsson KFR sigraði í 2. flokki pilta, Hafliði Örn Ólafsson ÍR varð í 2. sæti og Guðmundur Óli Magnússon ÍR var í 3. sæti. Í 3. flokki pilta varð Guðlaugur Valgeirsson  KFR Reykjavíkurmeistari.

 

Alls tóku 13 unglingar þátt í Reykjavíkurmóti unglinga að þessu sinni og kepptu í þremur flokkum pilta og tveimur flokkum stúlkna. Úrslit fóru þannig:

Í stúlknaflokki sigraði Karen Rut Sigurðardóttir ÍR í 1. flokki og Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR var í 2. sæti. Ástrós Pétursdóttir ÍR sigraði í 2. flokki stúlkna og Bergþóra Rós Ólafsdóttir var í 2. sæti.

Í 1. og 2. flokki pilta var hart barist um sigurinn. Fór svo að lokum að Jón Ingi Ragnarsson KFR sigraði í 1. flokki pilta en hann sigraði Róbert Dan Sigurðsson ÍR í úrslitaleiknum með 214 gegn 206. Í leiknum um 2. sæti sigraði Jón Ingi, Stefán Claessen ÍR með stórleik eða 255 gegn 145. Andri Már Ólafsson KFR sigraði í 2. flokki pilta en hann vann Hafliða Örn Ólafsson ÍR í úrslitunum með 195 gegn 163 og Andri Már vann einnig Guðmund Óla Magnússon ÍR með 169 gegn 121. Í 3. flokki pilta varð Guðlaugur Valgeirsson KFR Reykjavíkurmeistari.

Keilarar ársins 2006

Sigfríður Sigurðardóttir og Freyr Bragason úr KFR eru keilarar ársins 2006. Er þetta þriðja árið í röð sem Sigfríður hlýtur þessa viðurkenningu, en Freyr var áður valinn keilari ársins 1999.

Sigfríður varð Íslandsmeistari einstaklinga og para 2006 og einnig varð lið hennar KFR-Valkyrjur deildar-, bikar- og Íslandsmeistarar liða. Freyr varð Íslandsmeistari einstaklinga 2006, auk þess sem hann varð bikarmeistari með liði sínu KFR-Lærlingum. Sem Íslandsmeistarar tóku Sigfríður og Freyr þátt í Evrópubikarkeppni einstaklinga á árinu og náðu þar ágætis árangri.  Bæði hafa þau verið í fremstu röð keilara á Íslandi undanfarin ár og verið fyrirmynd ungra og upprennandi keilara.

 

Íþróttamenn og íþróttakonur ársins 2006

Í kvöld fer fram sameiginlegt hóf ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna þar sem tilkynnt verður um Íþróttamenn og Íþróttakonur ársins 2006. Þar á meðal verður tilkynnt val á keilurum ársins. Hófið fer fram á Grand Hótel Reykjavík og hefst kl. 18:20. Bein útsending frá atburðinum hefst á RÚV og Sýn kl. 20:00.

Dagskrá hófsins samanstendur af afhendingu viðurkenninga ÍSÍ til íþróttamanna og íþróttakvenna sérgreina íþrótta, beinni útsendingu Íþróttadeildar Sýnar af staðnum og sameiginlegri útsendingu Sjónvarpsins og Sýnar þar sem kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2006 verður lýst.  

Í kvöld verður nýr verðlaunagripur afhentur í fyrsta sinn til Íþróttamanns ársins 2006. ÍSÍ lét hanna og útbúa verðlaunagripinn til minningar um látna íþróttamenn og íþróttaforystumenn en Íþróttamaður ársins mun einnig fá afhentan eignarbikar sem vísar til verðlaunagripsins. Sjá nánar á heimasíðu ÍSÍ

Jólamót KFR 2006

Góð þátttaka var í Jólamót KFR sem fram fór í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð á annan dag jóla, 26. desember. Alls tóku 35 keppendur þátt í mótinu og urðu úrslit sem hér segir:

 

*-flokkur (180 og yfir): 1. sæti Robert Anderson ÍR 713, 2. sæti Sigfríður Sigurðardóttir KFR 679 og 3. sæti Jón Ingi Ragnarsson KFR 650.
A-flokkur (165 – 179): 1. sæti Hafliði Ólafsson ÍR 596, 2. sæti Snæbjörn B. Þormóðsson ÍR 593 og 3. sæti Magnús S. Guðmundsson KFA 571.
B-flokkur (146 – 164): 1. sæti Karen Rut Sigurðardóttir ÍR 561, Baldur Bjartmarsson ÍR 546 og 3. sæti Helga Sigurðardóttir KFR 542.
C-flokkur (145 og undir): 1. sæti Sigurbjörn Vilhjálmsson ÍR 410, 2. sæti Berglind Scheving ÍR 404 og 3. sæti Karólína Geirsdóttir ÍR 332.

Fréttabréf KLÍ

Reglulega er sent út fréttabréf á póstlista Keilusambands Íslands, þar sem nú eru skráð yfir 220 netföng. Í fréttabréfinu er meðal annars að finna fréttir og auglýsingar um keilumót og aðra atburði sem tengjast keilunni. Í dag hafa yfir 200 fréttabréf verið send út á póstlistann, en hægt er að skrá netföng á póstlistann og skoða eldri fréttir á heimasíðunni

Ef þú vilt hætta áskrift, breyta netfanginu, eða bæta við nýju/nýjum á póstlistann þá vinsamlegast sendu póst á [email protected]

Sjóvá mótið, bikarkeppni einstaklinga 2007

Forkeppni í Sjóvá mótinu, bikarkeppni einstaklinga hélt áfram um síðustu helgi og hafa nú 57 keppendur tekið þátt í mótinu, 39 karlar og 18 konur.  Vegna fjölda áskorana hefur verið bætt við riðlum laugardaginn 6. janúar kl. 9:00, 10:00 og 11:00. Skráning er á netfangið [email protected] . Hafþór Harðarson KFR er með forystu í karlaflokki með 697 seríu, Róbert Dan Sigurðsson ÍR kemur á hæla honum með 695 og Bragi Már Bragson KR er þriðji með 694. Í kvennaflokki á Sigfríður Sigurðardóttir KFR langhæstu seríuna eða 666, Ágústa Þorsteinsdóttir KFR kemur næst með 567 og Sigríður Klemensdóttir ÍR er þriðja með 561. Sjá nánar stöðuna í mótinu

Jólamót KFR og Kampavínsmót KFR

  Að vanda mun KFR standa fyrir sínum árvissu keilumótum um hátíðirnar. Jólamót KFR verður haldið í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð á annan dag jóla, 26. desember og hefst keppni kl. 14:00. Mótið er B- mót þar sem keppt er í 4 flokkum eftir meðaltali, spilaði 3 leikir og þátttökugjaldið er kr. 1.200 á mann. Kampavínsmót KFR verður síðan haldið í Keiluhöllinni á gamlársdag, sunnudaginn 31. desember og hefst keppni kl. 11:00. Mótið er C-mót, keppt verður í 4 flokkum eftir meðaltali, spilaðir 3 leikir og kostar 1.200 kr. á mann.

Evrópumót unglinga 2007

Valinn hefur verið hópur unglinga til keppni fyrir Íslands hönd á Evrópumót unglinga, EYC 2007, sem haldið verður í borginni Þessalóníku í Grikklandi um páskana, eða nánar tiltekið dagana 6. – 15. apríl 2007. Þátttökurétt á mótinu hafa unglingar fæddir eftir 31. ágúst 1988.

Í piltalandsliðinu eru: Bjarni Páll Jakobsson KFR, Andri Már Ólafsson KFR, Hafliði Örn Ólafsson ÍR, Jón Ingi Ragnarsson KFR, Jón Kristinn Sigurðsson ÍR og Skúli Freyr Sigurðsson KFA. Stúlkurnar eru: Ástrós Pétursdóttir ÍR, Karen Rut Sigurðardóttir ÍR og Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR. Fararstjórar verða Theódóra Ólafsdóttir og Hafþór Harðarson.

Landsliðsnefnd KLÍ, sem skipuð er þeim Braga Má Bragasyni formanni, Theódóru Ólafsdóttur og Þórhalli Hálfdánarsyni, vinnur nú að skipulagningu undirbúnings vegna keppninnar og hefur fengið ráðgjöf frá Kristni Reimarssyni sem nýverið lét af störfum sem sviðsstjóri Afrekssviðs ÍSÍ.