Staðan í 1. deild kvenna – 16. umferð

Þegar aðeins tveimur umferðum er ólokið á keppnistímabilinu á Íslandsmóti liða eru  KFR-Valkyrjur því sem næst búnar að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í 1. deild kvenna. Þær eru nú með 257,5 stig og 19,5 stigum meira en KFR-Afturgöngurnar sem eru í 2. sæti með 228,5 stig. Aðeins einu stigi munar á Afturgöngunum og ÍR-TT sem eru í 3. sæti með 227,5 stig og keppnin um 2. sætið því enn tvísýn. ÍR-Buff kemur síðan í 4. sæti með 214 stig, en ÍR-BK er í 5. sæti með 181 stig og ljóst að það verða sömu lið í úrslitakeppninni og undanfarin ár.

Í 16. umferð fór ÍR-TT í Öskjuhlíðina og tóku 20 stig á móti ÍR-BK á útivelli og gerðu með því endanlega út um vonir þeirra um sæti í úrslitakepnninni. Þar áttust einnig við ÍR-N og ÍFH-DK 16 – 4, en ÍR-KK tók 2,5 stig af KFR-Afturgöngunum. Í Egilshöllinni tóku KFR-Valkyrjur á móti ÍA og unnu 19 – 1 og ÍR-Buff vann KFR-Skutlurnar 14 – 6.

Úrslit leikja í 16. umferð sem fór fram mánudaginn 18. mars 2013 voru eftirfarandi:
ÍR-BK – ÍR-TT 0 – 20
ÍFH-DK – ÍR-N 4 – 16
ÍR-KK – KFR-Afturgöngurnar 2,5 – 17,5
KFR-Valkyrjur – ÍA 19 – 1
KFR-Skutlurnar – ÍR-Buff 6 – 14

Staðan í 1. deild kvenna er þannig:
1. KFR-Valkyrjur 257,5
2. KFR-Afturgöngurnar 228,5
3. ÍR-TT 227,5
4. ÍR-Buff 214,0
5. ÍR-BK 181,0
6. KFR-Skutlurnar 142,0
7. ÍR-N 124,5
8. ÍR-KK 91,0
9. ÍA 72,5
10. ÍFH-DK 61,5

Elín Óskarsdóttir KFR-Valkyrjum er með hæsta meðaltal deildarinnar 183,1 að meðaltali í leik í  45 leikjum. Ástrós Pétursdóttir ÍR-Buff er með 176,5 að meðaltali í leik í 48 leikjum og þriðja er Dagný Edda Þórisdóttir KFR-Valkyrjum með 175,5 að meðaltali í 36 leikjum. Í keppninni um stigameistara deildarinnar er keppnin mjög hörð, Ástrós er búin að enduheimta efsta sætið með 0,854 stig að meðaltali í leik, Dagný Edda er önnur með 0,833 stig og síðan kemur Elín með 0,822 stig að meðaltali í leik. Elín er komin með hæsta fellumeðaltalið 4,04 að meðaltali í leik, Dagný Edda er með 4,00 og Ástrós er þriðja með 3,94. Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR-TT, Sigurlaug Jakobsdóttir ÍR-TT og Dagný Edda hafa allar spilað 246 sem er hæsti leikurinn í deildinni það sem af er vetri. Guðný Gunnarsdóttir ÍR-TT á hæstu seríuna 650, Elín kemur næst með 643 seríu og þriðja er Dagný Edda með 637 seríu.

Sjá nánar stöðuna í deildinni

Nú verður tekið tveggja vikna hlé á keppni í deildum, en  tvær síðustu umferðirnar fara fram mánudaginn 8. apríl og laugardaginn 13. apríl. Í 17. umferð sem fer fram mánudaginn 8. apríl tekur ÍA á móti ÍR-TT í Keilusalnum á Akranesi. ÍR-BK og KFR-Afturgöngurnar, ÍFH-DK og ÍR-KK mætast í Öskjuhlíð, en KFR-Valkyrjur og ÍR-Buff, KFR-Skutlurnar og ÍR-N eigast við í Egilshöllinni. Í 18. og síðustu umferð sem fer fram laugardaginn 13. apríl tekur ÍR-Kk á móti KFR-Valkyrjum í Keiluhöllinni Öskjuhlíð. Þar mætast líka KFR-Afturgöngurnar og ÍFH-DK, ÍR-N  og ÍR-BK. Í Egilshöllinni keppa hins vegar ÍR-TT og KFR-Skutlurnar, ÍR-Buff og ÍA. Sjá nánar í dagskrá

Breytingar á dagskrá

Mótanefnd KLÍ ítrekar tilkynningu frá 1. febrúar s.l. vegna breytinga á dagskrá.

Breytingar hafa verið gerðar tveimur síðustu umferðum og úrslitakeppni Íslandsmóts liða, úrslitum Íslandsmóts unglngaliða, 5. umferð Meistarakeppni ungmenna, 3. umferð AMF mótaraðarinnar, úrslitum Utandeildar, 4. liða úrslitum og úrslitum Bikarkeppni liða.

Helstu ástæður þessara breytinga eru þátttaka unglingalandsliðs á Evrópumóti unglinga og til að uppfylla það ákvæði reglugerðar KLÍ um Íslandsmót liða að tvær síðustu umferðir deildarkeppninnar fari fram á sama tíma. Síðsta umferðin í öllum deildum mun því fara fram laugardaginn 13. apríl kl. 15:30 og verður það tilvalið tækifæri fyrir keilara að fagna lokunum saman.

Helstu breytingar eru eftirtaldar:

  • 3. umferð AMF mótaraðarinnar fer fram dagana 17. – 21. apríl.
  • 4. liða úrslit Bikarkeppni liða fara fram þriðjudaginn 2. apríl kl. 19:00
  • Úrslit Deildarbikars liða fara fram í Keiluhöllinni Egilshöll miðvikudaginn 3. apríl kl. 19:00
  • 5. umferð Meistarakeppni ungmenna fer fram í Keiluhöllinni Öskjuhlíð laugardaginn 6. apríl kl. 9:00
  • 17. umferð 1. deildar kvenna fer fram mánudaginn 8. apríl kl. 19:00 og 18. og síðasta umferðin fer fram laugardaginn 13. apríl kl. 15:30
  • 17. umferð 1. deildar karla fer fram sunnudaginn 7. apríl kl. 13:00 og þriðjudaginn 9. apríl kl. 19:00 og 18. og síðasta umferðin fer fram laugardaginn 13. apríl kl. 15:30
  • 20. umferð A riðils 2. deildar karla fer fram laugardaginn 6.apríl kl. 16:30 og mánudaginn 8. apríl kl. 19:00 og 21. og síðasta umferðin fer fram laugardaginn 13. apríl kl. 15:30
  • 20. umferð B riðils 2. deildar karla fer fram sunnudaginn 7.apríl kl. 16:00 og þriðjudaginn 9. apríl kl. 19:00 og 21. og síðasta umferðin fer fram laugardaginn 13. apríl kl. 15:30
  • Úrslitakeppni í deildum hefst mánudaginn 22. apríl kl. 19:00
  • Úrslit á Íslandsmót unglingaliða fara fram í Keiluhöllinni Egilshöll laugardaginn 27. apríl kl. 9:00
  • 4. umferð Íslandsmóts félaga fer fram í Keiluhöllinni Öskjuhlíð fimmtudaginn 2. maí kl. 19:00
  • Úrslit Utandeildar KLÍ fara fram í Keilhöllinni Egilshöll laugardaginn 4. maí kl. 11:00
  • Úrslit Bikarkeppni liða fara fram í Keiluhöllinni Egilshöll laugardaginn 4. maí kl. 12:00 og Árshátíð KLÍ verður haldin í Rúbín Öskjuhlíð sama kvöld

Sjá nánar í dagskrá

Mótanefnd KLÍ

Íslandsmót unglingaliða 5. umferð – Staðan

Fimmta og síðasta umferð Íslandsmóts unglingaliða fór fram í Keiluhöllinni Öskjuhlíð laugardaginn 16. mars. Röð efstu liða er óbreytt eftir þennan keppnisdag. Lið ÍA 1 varð í efsta sætinu með 34 stig, lið ÍR 1 varð í 2. sæti með 30 stig, KFR 1 varð í 3. sæti með 18 stig, lið ÍR 2 varð í 4. sæti með 10 stig og lið ÍA 2 hafnaði í 5. sæti með 8 stig.

Fjögur efstu liðin eftir þessa umferð fara í úrslitakeppni sem fer fram í Keiluhöllinni Egilshöll laugardaginn 27. apríl kl. 9:00. Sjá skor og stöðuna í mótinu

 

Íslandsmót félaga 3. umferð – Staðan

Þriðja umferð Íslandsmóts félaga fór fram í Keiluhöllinni Egilshöll mánudaginn 11. mars s.l.

Staðan er þannig eftir 3. umferð að ÍA heldur efsta sætinu í Opna flokknum, nú með 134 stig. Röð næstu liða er einnig óbreytt þannig að KFR-Konur eru í 2. sæti með 122,5 og ÍR-Konur eru í 3. sæti með 118,5 sti. ÍR-Karlar hafa hins vegar náð 4. sætinu með 114,5 stig, en KFR-Karlar féllu niður í 4. sætið með 106,5 stig. KFR-Konur hafa náð efsta sætinu í kvennaflokki með 42 stig, ÍR-konur eru í 2. sæti með 37 stig og ÍFH-Konur eru í 3. sæti með 3 stig.

Fjórða og síðasta umferð Íslandsmóts félaga fer fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð fimmtudaginn 2. maí n.k. og hefst keppni k. 19:00. Olíuburður í Íslandsmóti félaga er 40 fet Vargen. Sjá nánar félagakeppni

Páskamót ÍR 2013

Páskamót ÍR verður haldið í Keiluhöllinni Öskjuhlíð laugardaginn 30. mars kl. 10:00.

Mótið er flokkaskipt og spiluð verður þriggja leikja sería. Í verðlaun eru páskaegg frá Nóa Síríus og búast má við aukaverðlaunum meðan á keppni stendur. Verð er kr. 2.500. Skráning er á netinu og lýkur kl. 22:00 á skírdag, fimmtudaginn 28. mars. Sjá nánar í auglýsingu

Deildarbikar liða 2012 – 2013

Fimmta og síðasta umferð deildarbikars liða fór fram þriðjudaginn 12. mars s.l. B riðlill spilaði þá í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð, en A og C riðlar spiluðu í Keiluhöllinni í Egilshöll. ÍR-KLS og ÍR-PLS tryggðu sér tvö efstu sætin í A-riðli og þar með sæti í úrslitakeppni deildarbikars liða sem fara fram í Keiluhöllinni Egilshöll miðvikudaginn 3. apríl n.k. Í B riðli voru það ÍA liðin, ÍA og ÍA-W sem tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni og úr C riðli voru það KR-A og og KFR-Lærlinga sem spila til úrslita.

Í A riðli voru úrslitin þannig að ÍR-KLS tryggði sér efsta sæti riðilsins með 42 stig og 206,16 að meðaltali. ÍR-PLS varð í 2. sæti með 38 stig og 206,84 að meðaltali í leik. KR-B varð í 3. sæti riðilsins með 30 stig og 186,32 að meðaltali, en ÍR-TT hafnaði í 4. sæti með 24 stig og 193,42 að meðaltali.

Í B riðli tryggði  ÍA sér efsta sæti riðilsins með 46 stig og 194,60 að meðaltali. ÍA-W varð í 2. sæti með 40 stig og 189,78 að meðaltali í leik. ÍR-Buff náði 3. sætinu á endasprettinum með 22 stig og 173,58 að meðaltali, en ÍR-NAS hafnaði í 4. sæti með 18 stig og 161,44 að meðaltali.

Í C riðli tryggði KR-A sér efsta sætið með 44 stig og 190,30 að meðaltali. KFR-Lærlingar urðu í  2. sæti með 40 stig og 194,58 að meðaltali í leik. KFR-Afturgöngurnar héldu 3. sætinu með 26 stig og 172,08 að meðaltali, en ÍR-L hafnaði í 4. sæti með 24 stig og 175,52 að meðaltali í leik.

Úrslit deildarbikars liða fara fram í Keiluhöllinni Egilshöll miðvikudaginn 3. apríl n.k. og hefst keppni kl. 19:00. Olíuburður í Deildarbikarnum er Weber Cup 2007 41 fet. Sjá nánar deildarbikar liða

 

Staðan í 1. deild kvenna

Þegar 15 umferðum af 18 er lokið á Íslandsmóti liða í 1. deild kvenna eru KFR-Valkyrjur komnar með nokkuð örugga forystu í efsta sæti deildarinnar með 238,5 stig og 27,5 stigum meira en KFR-Afturgöngurnar sem eru í 2. sæti með 211 stig. ÍR-TT er nú komið í 3. sæti með 207,5 stig, en ÍR-Buff er fallið í 4. sætið með 200 stig. Ljóst er að úr þessu verður erfitt fyrir ÍR-BK að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni, en þær eru nú í 5. sæti með 181 stig.

Elín Óskarsdóttir KFR-Valkyrjum er enn með hæsta meðaltal deildarinnar 181,8 að meðaltali í leik í  42 leikjum. Ástrós Pétursdóttir ÍR-Buff er með 176,3 eins og Dagný Edda Þórisdóttir KFR-Valkyrjum. Í keppninni um stigameistara deildarinnar er Dagný Edda nú búin að ná toppsætinu með 0,848 stig að meðaltali í leik, Ástrós kemur næst með 0,844 og síðan kemur Elín með 0,810 stig að meðaltali í leik. Dagný Edda er einnig komin með hæsta fellumeðaltalið 4,06 að meðaltali í leik, Elín er með 3,98 og Ástrós er með 3,96. Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR-TT, Sigurlaug Jakobsdóttir ÍR-TT og Dagný Edda hafa allar spilað 246 sem er hæsti leikurinn í deildinni það sem af er vetri. Guðný Gunnarsdóttir ÍR-TT á hæstu seríuna 650, Elín kemur næst með 643 seríu og þriðja er Dagný Edda með 637 seríu.

Sjá nánar stöðuna í deildinni

 Í næstu viku lýkur tveggja vikna hléi á keppni í deildum og í 16. umferð sem fer fram mánudaginn 18. mars mætast ÍR-BK og ÍR-TT, ÍFH-DK og ÍR-N og ÍR-KK og KFR-Afturgöngurnar í Öskjuhlíð, en KFR-Valkyrjur og ÍA, KFR-Skutlurnar og ÍR-Buff eigast við í Egilshöllinni. Sjá nánar í dagskrá