Deildarbikar liða – Úrslitakeppni

Úrslit deildarbikars liða fara fram í Keiluhöllinni Egilshöll á morgun, miðvikudaginn 3. apríl og hefst keppni kl. 19:00.

Í úrslitunum keppa ÍR-KLS og ÍR-PLS úr A-riðli, ÍA og ÍA-W úr B-riðli og KR-A og og KFR-Lærlingar úr C-riðli. Úrslitakeppni er spiluð með einfaldri umferð, tvö efstu liðin úr forkeppninni. Eftir úrslitakeppni hlýtur efsta liðið titilinn Deildarbikarmeistari. Sjá brautaskipan í úrslitunum. Olíuburður í Deildarbikarnum er Weber Cup 2007 41 fet. Sjá nánar deildarbikar liða

Á myndinni eru Arnar Sæbergsson og Magnús Magnússon úr ÍR-KLS

Nýtt meðaltal 31. mars 2013

Birt hefur verið nýtt allsherjarmeðaltal miðað við 31. mars 2013.

Hafþór Harðarson ÍR hefur nú endurheimt efsta sætið með 217 að meðaltali og hefur sætaskipti við Magnús Magnússon ÍR sem er aðeins einum pinna á eftir með 216. Næstur á eftir þeim kemur Robert Anderson ÍR með 214, en síðan er nokkuð bil í næstu menn. Skúli Freyr Sigurðsson ÍA er með 207, Arnar Sæbergsson ÍR með 202 og Björn Birgisson KFR með 201.

Dagný Edda Þórisdóttir KFR er nú komin með hæsta meðaltal kvenna 183, en næst á eftir henni og aðeins einum pinna á eftir kemur Guðný Gunnarsdóttir ÍR með 182. Næstar á eftir þeim koma Elín Óskarsdóttir KFR með 180 og Ragna Matthíasdóttir KFR með 177. Ástrós Pétursdóttir ÍR sem hefur átt hæsta meðaltalið undanfarna mánuði kemur næst með 176 eins og Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR.

Til meðaltals teljast síðustu 100 leikir fyrir mánaðamót fyrir útreikning meðaltals. Einnig eru birt mánaðar-, vetrar- og ársmeðaltöl keppanda.. Vetrarmeðaltal er reiknað útfrá leikjum á tímabilinu 1. júní til 31. maí. Þá kemur einnig fram hve langt er síðan síðasti leikur leikmanns sem taldi til meðaltals var leikinn, í dálkinum „Óvirkir mán.“ Hægt er að skoða þróun meðaltals og hvaða leikir teljast til síðustu 100 leikja undir Tölfræði og leikmenn

Bikarkeppni KLÍ 4 liða úrslit í kvöld

Fjögurra liða úrslit Bikarkeppni liða í keilu fara fram í kvöld, þriðjudaginn 2. apríl og hefjast allir leikirnir kl. 19:00.

Í kvennaflokki fara báðir leikirnir fram í Keiluhöllinni í Egilshöll. KFR-Valkyrjur taka á móti KFR-Afturgöngunum á brautum 3 – 4 og ÍR-TT tekur á móti ÍR-BK á brautum 5 – 6.

Í karlaflokki tekur ÍR-L á móti ÍA-W á brautum 3 – 4 í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð og ÍA tekur á móti ÍR-KLS á brautum 2 – 3 í Keilusalnum á Akranesi.

Bæði ÍR-TT og ÍR-KLS eiga titla að verja. ÍR-KLS voru reyndar bikarmeistarar liða í karlaflokki síðustu 3 árin 2010 – 2012 og ÍR-TT voru bikarmeistarar liða í kvennaflokki árin 2012 og 2010. KFR-Afturgöngurnar hafa 12 sinnum orðið bikarmeistarar, síðast árið 2011 og eru sigursælastar allra liða í keppninni. KFR-Valkyrjur voru bikarmeistarar 5 ár í röð á árunum 2004 til 2009. Önnur lið sem keppa í undanúrslitunum að þessu sinni hafa ekki orðið bikarmeistarar liða.

Olíuburður í Bikarkeppni KLÍ er 40 fet Vargen.

Sjá reglugerð um Bikarkeppni liða og úrslit fyrri umferða.

Evrópumót unglinga 2013 – Einstaklingskeppni stúlkna

Í dag, laugardaginn 30. mars fór fram einstaklingakeppni stúlkna á Evrópumóti unglinga í keilu 2013. Hafdís Pála Jónasdóttir KFR og Katrín Fjóla Bragadóttir ÍR kepptu í seinni hópnum eftir hádegi í dag. Katrín Fjóla átti mjög góðan dag, spilaði samtals 1.095, eða 182,5 að meðaltali í sex leikjum og endaði í 36. sæti. Hún setti persónulegt met í tveimur leikjum og var alveg við besta árangur í fimm og sex leikjum. Leikir hennar í dag voru 217, 201, 142, 154, 180 og 201. Hafdís Pála náði átti hins vegar sinn fyrsta slæma dag og spilaði samtals 886, og endaði í 65. sæti. Leikir hennar í dag voru 151, 138, 159, 131, 138 og 169. Hafdís Pála endaði í 50 sæti eftir mótið í heild (All-Event) með samtals 3.078 og 171 að meðaltali í 18 leikjum, en Katrín Fjóla var tveimur pinnum á eftir í 51. sæti með 3.076 pinna og 170,9 að meðaltali. Verður þetta að teljast mjög góður árangur hjá stelpunum.

Sjá nánar á heimasíðu mótsins

Til úrslita í einstaklingskeppni stúlkna kepptu Keira Reay Englandi, Maria Bulanova Rússlandi, Hannah Frost Englandi og Lisa Björklund Svíþjóð. Í undanúrslitunum vann Keira Reay mótherja sinn Lisu Björklund og Hannah Frost vann Mariu Bulanova. Í úrslitunum vann Keira Reay löndu sína Hannah Frost.

Til úrslita í einstaklingskeppni piltak kepptu Markus Bergendorff Danmörku, Hadley Morgan Englandi, Pontus Andersson Svíþjóð og Oyvin Kulseng Noregi. Í undanúrslitunum vann Oyvin Kulseng mótherja sinn Markus Bergendorff og Hadley Morgan vann Pontus Andersson. Í úrslitunum sigraði Hadley Mrogan síðan Ovin Kulseng.

Á morgun verður keppt í einstaklingskeppni meistarann (Masters Final) og hefst keppni kl. 9:00 að staðartíma (kl. 7:00 að íslenskum tíma núna þegar sumartími er kominn í Austurríki)

Evrópumót unglinga 2013 – Einstaklingskeppni pilta

Í dag, föstudaginn langa 29. mars fór fram einstaklingakeppni pilta á Evrópumóti unglinga í keilu 2013.  Aron Benteinsson ÍA og Andri Freyr Jónsson KFR spiluð með fyrri hópnum, en Guðmundur Ingi Jónsson ÍR og Hlynur Örn Ómarsson ÍR  spiluðu með seinni hópnum. Aron Benteinson spilaði best íslensku keppendanna í dag og endaði með 999 seríu í 82. sæti, leikir hans voru 221, 165, 147, 172, 126 og 168. Andri Freyr Jónsson spilaði 981 og endaði í 87. sæti, leikir hans voru 134, 153, 156, 211, 185 og 142. Guðmundur Ingi Jónsson spilaði 953 og endaði í 95. sæti, leikir hans voru 161, 159, 158, 155, 150 og 170. Hlynur Örn Ómarsson spilaði 947 og endaði í 97. sæti, leikir hans voru 172, 162, 127, 145, 141 og 200.

Einstaklingskeppni stúlkna fer fram á morgun, laugardaginn 30. mars. Hafdís Pála Jónasdóttir og Katrín Fjóla Bragadóttir spila með seinni hópnum sem hefur keppni kl. 13:15 (kl. 12:15 að íslenskum tíma).

Sjá nánar á heimasíðu mótsins

Til úrslita í einstaklingskeppni pilta keppa Markus Bergendorff Danmörku, Hadley Morgan Englandi, Pontus Andersson Svíþjóð og Oyvin Kulseng Noregi.

Evrópumót unglinga 2013 – Einstaklingskeppni

Á morgun, föstudaginn 29. mars hefst einstaklingakeppni pilta á Evrópumóti unglinga í keilu 2013 og einstaklingskeppni stúlkna fer síðan fram á laugardaginn 30. mars. Keppendum er skipt í tvo hópa báða dagana og hefur fyrri hópurinn keppni kl. 9:00 að staðartíma (kl. 8:00 að íslenskum tíma) og seinni hópurinn hefur keppni kl. 13:15 (kl. 12:15 að íslenskum tíma). Aron Benteinsson ÍA og Andri Freyr Jónsson KFR spila með fyrri hópnum á morgun og Guðmundur Ingi Jónsson ÍR og Hlynur Örn Ómarsson ÍR  spila með seinni hópnum. Hafdís Pála Jónasdóttir KFR og Katrín Fjóla Bragadóttir ÍR spila síðan með seinni hópnum á laugardag.

Sjá nánar á heimasíðu mótsins

Evrópumót unglinga 2013 – Liðakeppni

Keppni í liðakeppni á Evrópumóti unglinga í keilu 2013 hófst í gær miðvikudaginn 27. mars og lýkur í dag fimmtudaginn 28. mars.

Íslensku piltarnir enduðu í 21. sæti liðakeppninnar í dag með samtals 3.892 pinna. Guðmundur Ingi Jónsson ÍR spilaði best íslensku piltanna í dag með 535 seríu (152, 155, 228), Andri Freyr Jónsson KFR spilaði 491 (178. 149, 164),  Aron Fannar Benteinsson ÍA spilaði 471 (191, 148, 132) og Hlynur Örn Ómarsson ÍR spilaði 432 (133, 143, 156).

Sjá nánar á heimasíðu mótsins

Strákarnir hófu keppni í gærmorgun og spiluðu fyrri 3 leikina í liðakeppninni. Þeir voru í 22. sæti eftir daginn með samtals 1.963 pinna. Aron Fannar Benteinsson ÍA spilaði best íslensku keppendanna í gær með 564 seríu (197, 181, 186), Hlynur Örn Ómarsson ÍR spilaði 523 (181, 204,138), Guðmundur Ingi Jónsson ÍR spilaði 455 (180, 123,152)  og Andri Freyr Jónsson KFR spilaði 421 (152, 136, 133). Piltaliðin spila seinni 3 leikina í liðakeppninni eftir hádegi í dag.

Stúlkurnar hófu liðakeppnina eftir hádegi í gær og luku henni í morgun. Þar sem aðeins tveir íslenskir keppendur eru í stúlknaflokki spila þær í liðakeppninni með öðrum keppendum sem svo er ástatt um. Hafdís Pála Jónasdóttir KFR spilaði 520 í gær (150, 160, 210) og í dag gerði hún enn betur og spilaði 608 seríu (205, 222, 181) og bætti sinn besta árangur í tveimur og þremur leikjum með sína fyrstu seríu yfir 600. Katrín Fjóla Bragadóttir ÍR spilaði 496 í gær (155, 165, 176) og bætti sig einnig í dag þegar hún spilaði 511 (150, 199, 162). Hafdís Pála er núna í 34. sæti í einstaklingskeppninni með samtals 2.192 pinna eða 182,67 að meðaltali í 12 leikjum. Katrín Fjóla er í 53. sæti með samtals 1.981 pinna eða 165,01 að meðaltali sem er einnig vel yfir hennar meðaltali. 

Til úrslita í liðakeppni stúlkna kepptu England, Þýskaland, Svíþjóð og Rússland. Fóru leikar þannig að England vann Rússland og Svíþjóð vann Þýskaland í undanúrslitunum og í úrslitunum vann Svíþjóð síðan England.

Til úrslita í liðakeppni pilta kepptu Svíþjóð, Finnland, Þýskaland og Noregur. Í undanúrslitunum vann Svíþjóð Noreg og Þýskaland vann Finnland. Í úrslitunum vann Svíþjóð síðan Þýskaland.

Sjá nánar á heimasíðu mótsins

Páskamót ÍR 2013

Páskamót ÍR verður haldið í Keiluhöllinni Öskjuhlíð laugardaginn 30. mars kl. 10:00. Skráningu lýkur í kvöld á skírdag fimmtudaginn 28. mars kl. 22:00.

Mótið er flokkaskipt og spiluð verður þriggja leikja sería. Í verðlaun eru páskaegg frá Nóa Síríus og búast má við aukaverðlaunum meðan á keppni stendur. Verð er kr. 2.500. Skráning er á netinu og lýkur kl. 22:00 á skírdag, fimmtudaginn 28. mars.

Olíuburður í mótinu verður Bourbon Street 40 fet. Sjá nánar í auglýsingu