Íslandsmót einstaklinga 2007

Íslandsmót einstaklinga  verður haldið í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð dagana 24. febrúar – 6. mars 2007.

 

Spilaðir eru 12 leikir í forkeppninni í tveimur 6 leikja blokkum. Keppendur velja sér hvort þeir spila í forkeppninni helgina 24. – 25. febrúar eða 3. – 4. mars, en spilað verður kl. 9:00 bæði laugardag og sunnudag. 16 efstu karlarnir og 12 efstu konurnar komast áfram í milliriðil þar sem spilaðir eru 6 leikir, mánudaginn 5. mars kl. 19:00. Efstu 8 karlarnir og  6 konurnar halda áfram í undanúrslit sem eru allir á móti öllum einföld umferð, 7 leikir hjá körlunum og 5 leikir hjá konunum sem spilaðir verða þriðjudaginn 6. mars kl. 19:00. Tveir efstu karlarnir og tvær efstu konurnar spila að lokum til úrslita, þar sem keppandi í efsta sæti þarf að vinna 2 leiki en keppandi í 2. sæti þarf að vinna 3 leiki. Sjá nánar í auglýsingu og reglugerð um Íslandsmót einstaklinga.

Skráning fer fram á netfanginu skraning (hjá) kli.is og lýkur þriðjudaginn 20. febrúar klukkan 22.:00. Boðið verður upp á æfingatíma í þeim olíuburði sem notaður verður í mótinu og verður æfingatíminn og olíuburðurinn auglýstur síðar.

Íslandsmót unglinga 2007

Fyrri hluti Íslandsmóts unglinga 2007 fór fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð og Keilusalnum á Akranesi um helgina. Ágæt spilamennska hefur verið í mótinu það sem af er. Á laugardag lék Jón Ingi Ragarsson KFR best þegar hann spilaði 1.275 í 6 leikjum og á sunndag setti Karen Rut Sigurðardóttir ÍR tvö Íslandsmet í sínum flokki þegar hún spilaði 995 í 5 leikjum og 1.175 í 6 leikjum.

Alls taka 24 keppendur þátt í mótinu að þessu sinni, frá fjórum félögum, ÍR, KFA, KFR og KR og keppa í 4 flokkum pilta og 3 flokkum stúlkna. Staðan að lokinni fyrstu keppnishelginni er þannig:

Í 1. flokki pilta: Jón Ingi Ragnarsson KFR, Bjarni Páll Jakobsson KFR og Andri Már Ólafsson KFR.
Í 1. flokki stúlkna: Karen Rut Sigurðardóttir ÍR, Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR og Bergþóra Rós Ólafsdóttir ÍR
Í 2. flokki pilta: Hafliði Örn Ólafsson ÍR, Skúli Freyr Sigurðarson KFA og Páll Óli Knútsson KFR.
Í 2. flokki stúlkna: Ástrós Pétursdóttir ÍR og Bylgja Ösp Pedersen KFA.
Í 3. flokki pilta: Kristófer Arnar Júlíusson KFA, Gunnar Ágúst Ómarsson KFA og Einar Sigurður Sigurðsson ÍR.
Í 3. flokki stúlkna: Steinunn Inga Guðmundsdóttir KFA og Hjördís Helga Árnadóttir KFA.
Í 4. flokki pilta: Guðmundur Gestur Garðarson KFA og Bjarki Steinn Björnsson KR.

Mótið heldur áfram á laugardaginn 17. febrúar kl. 9:00 og lýkur á sunnudag 18. febrúar. Hvetjum við alla til að mæta á staðinn og fylgjast með spennandi keppni.

Íslandsmót einstaklinga með forgjöf 2007

Laufey Sigurðardóttir og Árni Geir Ómarsson eru Íslandsmeistarar einstaklinga með forgjöf 2007, en þau koma bæði úr ÍR. Sigruðu þau Guðnýju Gunnarsdóttur ÍR og Andrés Pál Júlíusson KR í úrslitaleikjunum. Í 3. sæti voru Helga Sigurðardóttir KFR og Halldór Ragnar Halldórsson ÍR.

Laufey Sigurðardóttir og Árni Geir Ómarsson eru Íslandsmeistarar einstaklinga með forgjöf 2007, en þau koma bæði úr ÍR.

Í undanúrslitunum hélt Guðný Gunnarsdóttir ÍR áfram yfirburðaspilamennsku í kvennaflokki þegar hún spilaði 1.005 í 5 leikjum eða 201 að meðaltali í leik án forgjafar. Það var því einungis spurning hvaða keppandi mætti henni í úrslitunum og réðst það ekki fyrr en í síðasta leik þar sem Laufey Sigurðardóttir ÍR náði 2. sætinu og endaði 5 pinnum hærri en Helga Sigurðardóttir KFR sem varð í 3. sæti. Í úrslitunum var það síðan Laufey sem bar sigur úr býtum og sigraði Guðnýju 3-1. Leikir Laufeyjar í úrslitunum voru 217, 229, 170 og 210, en leikir Guðnýjar 191, 222, 192 og 165 með forgjöf.

Í karlaflokki voru miklar sviptingar á toppnum í undanúrslitunum. Andrés Páll Júlíusson KR, sem kom inn í undanúrslitin í 8 sæti, vann sig upp í efsta sætið með frábærri spilamennsku, þegar hann spilaði 1. 612 eða 230,3 að meðaltali í 7 leikjum án forgjafar. Árni Geir Ómarsson ÍR náði að spila sig upp í 2. sætið, en Halldór Ragnar Halldórsson ÍR varð í 3. sæti.  Það var því Árni Geir sem mætti Andrési í úrslitunum  og vann nokkuð örugglega 3-0. Leikir Árnar Geirs í úrslitunum voru 285, 214 og 204, en leikir Andrésar 233, 148 og 156 með forgjöf.

Keilusambandið færir Atlantsolíu kærar þakkir, en Atlantsolía gaf verðlaun í mótinu. 

Guðný enn á toppnum

Guðný Gunnarsdóttir úr ÍR hélt áfram góðri spilamennsku og er enn í fyrsta sæti, 104 pinnum á undan Rögnu Matthíasdóttur úr KFR.  Helga Sigurðardóttir úr KFR lék næst best í kvöld, 803, og vann sig úr áttunda sæti uppí það fjórða.  Laufey Sigurðardóttir úr ÍR er hinsvegar í þriðja sæti eftir milliriðilinn, en hún var einnig þriðja hæst í kvöld.

Magnús Magnússon, KR, var afar nálægt 300 leiknum í kvöld, en í öðrum leik lék hann 299, en það var nían sem stóð í tólfta skotinu.  Magnús er með 209 í nýjasta allsherjarmeðaltali, og leikur því ekki með neinni forgjöf.  Þess má geta að Magnús lék 300 leik þann 13. maí árið 2000 og varð þar með fjórði Íslendingurinn til þess.  Magnús spilaði 927 í kvöld og vann sig úr þriðja sæti uppí það annað.  Hæst allra lék Þórhallur Hálfdánarson úr ÍR, 988, og náði forystu í karlaflokki, en hann var fyrir daginn í dag í 6. sæti.

8 karlar og 6 konur leika í undanúrslitum á morgun kl. 19:00, þar sem leikið er eftir maður á mann fyrirkomulaginu.

Staðan að loknum milliriðlum:

Forkeppni lokið

Í morgun hélt keppni á Íslandsmóti einstaklinga með forgjöf áfram, þegar seinni ráshópur lék.  Í kvennaflokki lék Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, Ragna Matthíasdóttir úr KFR, best allra, 862, og er í öðru sæti á eftir Guðnýju Gunnarsdóttur sem er með 866.  Næst á eftir þeim er Bára Ágústsdóttir úr KFR.  Það eru 12 konur sem halda áfram í milliriðil, en barátta var um 12. sætið, og var Herdís Gunnarsdóttir úr ÍR aðeins einum pinna á eftir Margréti Björgu Jónsdóttur úr KFA, sem er nú í 12. sæti með 756.

Keppni hafin í Íslandsmóti einstaklinga með forgjöf

Í morgun hófst í Keiluhöllinni keppni í Íslandsmóti einstaklinga með forgjöf þegar fyrri ráshópur lék í forkeppni, en í honum léku 14 karlar og 10 konur. 

Guðný Gunnarsdóttir úr ÍR, sem varð Íslandsmeistari árið 2005, er efst eftir daginn í dag, með 216,5 í meðaltal eða 688.  Næst á eftir henni kemur Bára Ágústsdóttir, KFR, með 823 og því næst hin unga Ástrós Pétursdóttir með 786.  Núverandi Íslandsmeistari, Ragna Matthíasdóttir úr KFR mun leika í fyrramálið.

Í karlaflokki eru það þeir Halldór Ragnar Halldórsson úr ÍR og Bragi Már Bragason úr KR sem eru efstir og jafnir með 913, en einnig er jafnt í þriðja til fjórðasæti, en þar sitja þeir Arnar Sæbergsson úr ÍR og Axel Heimir Þórleifsson úr Keilufélaginu Keila, KFK.

Í fyrramálið kl. 9:00 mun síðari ráshópurinn leika, 18 karlar og 10 konur.

Staðan að loknum fyrsta keppnisdegi:

Íslandsmót einstaklinga með forgjöf 2007

Allt stefnir í ágæta þátttöku er í Íslandsmóti einstaklinga með forgjöf sem fer fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð dagana 3. – 6. febrúar n.k., en alls eru nú skráðir 42 keppendur í mótið. 

Keppnisfyrirkomulag mótsins er þannig að spilaðir eru 4 leikir í forkeppni laugardaginn 3. eða sunnudaginn 4. febrúar kl. 9:00.  16 efstu karlarnir og 12 efstu konurnar komast áfram í milliriðil mánudaginn 5. febrúar kl. 19:00, þar sem spilaðir verða 4 leikir. 8 efstu karlarnir og 6 efstu konurnar komast áfram í undanúrslit sem spiluð verða þriðjudaginn 6. febrúar kl. 19:00. Undanúrslitin eru spiluð allir á móti öllum einföld umferð, 7 leikir hjá körlunum og 5 leikir hjá konunum. Tveir efstu karlarnir og tvær efstu konurnar spila að lokum til úrslita, þar sem keppandi í efsta sæti þarf að vinna 2 leiki en keppandi í 2. sæti þarf að vinna 3 leiki.

Forgjöf í mótinu er 80% af mismun af meðaltali og 200 og verður miðað við nýtt meðaltal sem gefið verður út m.v. 31. janúar. Sjá nánar

Bikarkeppni KLÍ – 8 liða úrslit

Dregið var í 8 liða úrslit karla og kvenna þriðjudaginn 30. janúar. Í 8 liða úrslitum karla sem fara fram fimmtudaginn 15. febrúar kl. 18:30 mætast KFR-JP-kast og KR-A , KR-B og ÍR-A, ÍR-KLS og KFR-Stormsveitin, KFR-Lærlingar og ÍR-PLS. Einn leikur fer fram í 8 liða úrslitum kvenna sama kvöld og þar mætast ÍR-BK og KFR-Afturgöngurnar, en ÍR-TT og KFA-ÍA sitja hjá ásamt meisturunum úr KFR-Valkyrjum.

ÍR-PLS lagði félaga sína í ÍR-L örugglega 3 – 0 í síðasta leiknum í 16 liða úrslitum karla sem fram fór í Keiluhöllinni í gær, mánudaginn 29. janúar. Leikirnir voru 825 – 708, 826 – 735 og 811 – 752 eða samtals 2.462 gegn 2.195. Halldór Ragnar Halldórsson spilaði best allra með 737 og Hafliði Örn Ólafsson spilaði 601.