Íslandsmót einstaklinga með forgjöf 2007

Facebook
Twitter

Laufey Sigurðardóttir og Árni Geir Ómarsson eru Íslandsmeistarar einstaklinga með forgjöf 2007, en þau koma bæði úr ÍR. Sigruðu þau Guðnýju Gunnarsdóttur ÍR og Andrés Pál Júlíusson KR í úrslitaleikjunum. Í 3. sæti voru Helga Sigurðardóttir KFR og Halldór Ragnar Halldórsson ÍR.

Laufey Sigurðardóttir og Árni Geir Ómarsson eru Íslandsmeistarar einstaklinga með forgjöf 2007, en þau koma bæði úr ÍR.

Í undanúrslitunum hélt Guðný Gunnarsdóttir ÍR áfram yfirburðaspilamennsku í kvennaflokki þegar hún spilaði 1.005 í 5 leikjum eða 201 að meðaltali í leik án forgjafar. Það var því einungis spurning hvaða keppandi mætti henni í úrslitunum og réðst það ekki fyrr en í síðasta leik þar sem Laufey Sigurðardóttir ÍR náði 2. sætinu og endaði 5 pinnum hærri en Helga Sigurðardóttir KFR sem varð í 3. sæti. Í úrslitunum var það síðan Laufey sem bar sigur úr býtum og sigraði Guðnýju 3-1. Leikir Laufeyjar í úrslitunum voru 217, 229, 170 og 210, en leikir Guðnýjar 191, 222, 192 og 165 með forgjöf.

Í karlaflokki voru miklar sviptingar á toppnum í undanúrslitunum. Andrés Páll Júlíusson KR, sem kom inn í undanúrslitin í 8 sæti, vann sig upp í efsta sætið með frábærri spilamennsku, þegar hann spilaði 1. 612 eða 230,3 að meðaltali í 7 leikjum án forgjafar. Árni Geir Ómarsson ÍR náði að spila sig upp í 2. sætið, en Halldór Ragnar Halldórsson ÍR varð í 3. sæti.  Það var því Árni Geir sem mætti Andrési í úrslitunum  og vann nokkuð örugglega 3-0. Leikir Árnar Geirs í úrslitunum voru 285, 214 og 204, en leikir Andrésar 233, 148 og 156 með forgjöf.

Keilusambandið færir Atlantsolíu kærar þakkir, en Atlantsolía gaf verðlaun í mótinu. 

Nýjustu fréttirnar