Ebonite International Luxembourg Open 2007

Arnar Sæbergsson tryggði sér í dag sæti í 34. manna úrslitum á Ebonite International Luxembourg Open 2007 þegar hann spilaði 1.306 eða 217,67 að meðaltali í leik og er nú í 14. sæti, 46 pinnum fyrir ofan niðurskurð sem er við 1.260.Árni Geir Ómarsson endaði í 71. sæti með 1.202 í hæstu seríu, eða 200,33 að meðaltali í leik og Stefán Claessen spilaði í dag 1.191 seríu, eða 198,5 að meðaltali í leik sem kom honum í 83. sæti. Úrslitin byrja á morgun sunnudag 25. febrúar kl. 8:30 að staðartíma.

Frestun keppni í morgun

Vegna bilunar í olíuvél í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð í morgun þurfti að fresta keppni í riðlinum í Íslandsmóti einstaklinga og umferð í Íslandsmóti unglingaliða til morguns sunnudags 25. febrúar kl. 9:00. Keppendur í Íslandsmóti einstaklinga gátu síðan valið um að keppa seinni 6 leikina í forkeppninni á morgun kl. 17:00 eða á fimmtudag 1. mars kl. 18:30.

Mótanefnd KLÍ

QuibicaAMF World Cup 2007

Tilkynnt hefur verið að QubicaAMF World Cup 2007 verður haldið í keilusalnum Continent Bowling Center í borginni  St. Petersburg í Rússlandi dagana 3. til 11. nóvember 2007. Stefnt er að því að halda forkeppnina hér heima, eða svokallað Freyjumót, í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð dagana 19. – 22. apríl 2007. QubicaAMF World Cup er stærsta áhugamannamót í keilu sem haldið er árlega hvað varðar fjölda þátttökulanda keppenda. Mótið var fyrst haldið í Dublin á Írlandi 1965 og var á síðasta ári haldið í Caracas í Venezuela, þar sem Steinþór G. Jóhannsson keppti fyrir Íslands hönd.
 

Ebonite International Luxembourg Open 2007

Félagarnir úr ÍR-KLS, Arnar Sæbergsson, Árni Geir Ómarsson og Stefán Claessen keppa nú á Ebonite International Luxembourg Open 2007. Að loknum 9 riðlum er Árni Geir Ómarsson í 53. sæti með 1.202, 22 pinnum frá 34 manna niðurskurði. Arnar Sæbergsson er í 68. sæti með 1.187 og Stefán Claessen er í 136. sæti með 1.088, en alls hafa 175 keppendur tekið þátt í mótinu það sem af er. Síðustu riðlarnir í forkeppninni eru á morgun laugardag 24. febrúar. Sjá nánar

Íslandsmót einstaklinga hefst á morgun

Keppni á Íslandsmóti einstaklinga hefst kl. 9:00 laugardaginn 24. febrúar í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð.  48 keppendur eru skráðir til leiks í ár, 17 konur og 31 karl.  Í forkeppni eru leiknir tvisvar 6 leikir, og eru ráshópar kl. 9:00 laugardag og sunnudag helgarnar 24. – 25. febrúar og 3. – 4. mars.  Keppni í milliriðli, en þangað komast 16 efstu karlarnir og 12 efstu konurnar, fer fram mánudaginn 5. mars kl. 19:00, og undanúrslit, 8 karlar og 6 konur, þriðjudaginn 6. mars á sama tíma.  Til úrslita er leikið strax að undanúrslitum loknum.

Vegna fjölda þátttakenda er óskað eftir tveimur sjálfboðaliðum sem skráðir eru síðari helgina en sjá sér fært að taka þátt nú um helgina.  Ef þú ert einn af þeim viljum við biðja þig að hafa samband við Reyni í síma 825-1213, eða að senda póst á skraning (hjá) kli.is.

Þá hefur einnig verið ákveðið að leyfa tvær skráningar í viðmót nú um helgina til að jafna fjölda keppenda á brautum.  Skráning í þau sæti er á skraning (hjá) kli.is og gildir reglan fyrstir koma fyrstir fá.

Bikarkeppni KLÍ – 4 liða úrslit

Dregið var í 4 liða úrslit í Bikarkeppni KLÍ fyrir Félagakeppnina í gærkvöldi. Í karlaflokki mætast ÍR-KLS og KR-A annars vegar og ÍR-PLS og ÍR-A hins vegar. Í kvennaflokki mætast KFA-ÍA og bikarmeistararnir frá fyrra ári, KFR-Valkyrjur annars vegar, og ÍR-TT og KFR-Afturgöngur hins vegar. Keppt verður fimmtudaginn 15. mars klukkan 18:30.

Landsliðhópur karla valinn

Landsliðsnefnd hefur valið landsliðhóp karla, en næsta verkefni karlaliðsins er þátttaka á Evrópumóti karla sem fram mun fara í Vínarborg í Austurríki dagana 30. júní til 10. júlí næstkomandi.

Hópinn skipa 8 manns, en haft var samband við 12 aðila og voru þar af 4 sem ekki gáfu kost á sér.  Hópinn skipa Árni Geir Ómarsson, Róbert Dan Sigurðsson, Stefán Claessen og Steinþór Geirdal Jóhannsson úr ÍR, Andrés Páll Júlíusson, Björn Birgisson og Björn Guðgeir Sigurðsson úr KR og Hafþór Harðarson úr KFR.

Segja má að tveir nýliðar séu í hópnum, þeir Róbert Dan og Stefán, en Stefán var reyndar valinn í hóp fyrir Heimsmeistaramót karla á síðasta ári, en sá hópur var lagður niður fljótlega þar sem hætt var við þátttöku á því móti.  Þeir eru báðir fæddir árið 1988 og hafa báðir keppt fyrir Íslands hönd með unglingalandsliðum.

33 þjóðir hafa skráð sig til leiks, sem er nokkur aukning frá síðasta móti sem fram fór í Moskvu, en þá tóku 25 þjóðir þátt.  Hver þjóð getur teflt fram allt að 6 leikmönnum. Á mótinu er keppt í tvímennings, þrímennings og 5 manna liðakeppni, og svo keppni 24 hæstu einstaklinganna úr keppnunum þremur.

Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu mótsins, sem er www.emc2007.eu.

Landsliðsnefnd KLÍ er þannig skipuð: Bragi Már Bragason formaður, Hörður Ingi Jóhannsson, Theódóra Ólafsdóttir og Þórhallur Hálfdánarson.

Sjóvá mótið – 16 manna úrslit

Í kvöld var dregið í 16 manna úrslit karla og kvenna í Sjóvá mótinu, sem fara fram laugardag 17. og sunnudag 18. mars n.k.

Í 16 manna úrslitum mætast í kvennaflokki:
Ragna Matthíasdóttir – Sigurlaug Jakobsdóttir
Guðrún Arnarsdóttir – Sigfríður Sigurðardóttir
Guðný Gunnarsdóttir – Helga Sigurðardóttir
Ragna Guðrún Magnúsdóttir – Sigríður Klemensdóttir
Karen Rut Sigurðardóttir – Anna Magnúsdóttir
Dagný Edda Þórisdóttir – Ágústa Þorsteinsdóttir
Linda Hrönn Magnúsdóttir – Magna Ýr Hjálmtýsdóttir
Laufey Sigurðardóttir – Sirrý Hrönn Haraldsdóttir

Í karlaflokki eru eftirfarandi leikir í 16 manna úrslitum:
Arnar Sæbergsson – Andri Már Ólafsson/Arnar Ólafsson
Hafþór Harðarson – Hafliði Örn Ólafsson/Ásgrímur H. Einarsson
Stefán Claessen – Þórarinn Már Þorbjörnsson
Konráð Þór Ólafsson/Snæbjörn B. Þormóðsson – Árni Geir Ómarsson
Bjarni Páll Jakobsson – Sigurvin Hreinsson/Magnús Reynisson
Halldór Ásgeirsson – Jón Ingi Ragnarsson
Valgeir Guðbjartsson/Eiríkur A. Björgvinsson – Bragi Már Bragason
Atli Þór Kárason – Halldór Ragnar Halldórsson

Íslandsmót unglinga 2007 – Úrslit

Karen Rut Sigurðardóttir ÍR og Jón Ingi Ragnarsson KFR sigruðu tvöfalt á Íslandsmóti unglinga er þau tryggðu sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í Opnum flokki, auk þess sem þau sigruðu í 1. flokki. Í 2. sæti í Opna flokknum voru Magna Ýr Hjálmtýsdóttir og Andri Már Ólafsson úr KFR og í 3. sæti voru þau Ástrós Pétursdóttir og Hafliði Örn Ólafsson úr ÍR.

Í dag réðust einnig úrslit í fjórum flokkum:
Í 2. flokki pilta varð Íslandsmeistari Hafliði Örn Ólafsson ÍR, í 2. sæti varð Páll Óli Knútsson KFR og í 3. sæti varð Skúli Freyr Sigurðarson KFA.
Í 3. flokki pilta varð Íslandsmeistari Arnar Davíð Jónsson ÍR, í 2. sæti varð Einar Sigurður Sigurðsson ÍR og í 3. sæti Sindri Már Magnússon ÍR. 
Í 3. flokki stúlkna varð Íslandsmeistari Steinunn Inga Guðmundsdóttir KFA og Hjördís Helga Árnadóttir KFA varð í 2. sæti
Í 4. flokki pilta varð Guðmundur Gestur Garðarson KFA Íslandsmeistari og Bjarki Steinn Björnsson KR varð í 2.sæti.

Sjá úrslit og heildarskor úr mótinu

Arnar Davíð Jónsson ÍR, sem spilaði í 3. flokki pilta sýndi afburðaspilamennsku í dag, þegar hann spilaði 530 seríu í fyrstu þremur leikjum leikjum dagsins, eða 211, 167 og 152. Hann bætti síðan um betur í úrslitaleikjunum þegar hann spilaði 237 og 216 eða 453 í tveimur leikjum. Arnar Davíð er nýbyrjaður að æfa aftur eftir nokkuð hlé og greinilegt að hann hefur engu gleymt og þar er mikið efni á ferð. Hann hefur reyndar ekki langt að sækja hæfileikana, en hann er sonur þeirra Jóns Helga Bragasonar úr KFR-Lærlingum og Tabithu Snyder sem spilaði í kvennadeildinni á árum áður. 

Í úrslitunum í 3. flokki pilta sigraði Einar Sigurður, Sindra Má með 133 gegn 103 og Einar Sigurður mætti síðan Arnari Davíð og spilaði 125 og 156 gegn stórleikjum Arnars Davíðs sem voru 237 og 216.

Í úrslitum í 2. flokki pilta sigraði Páll Óli, Skúla Frey með 194 gegn 131, en varð síðan að játa sig sigraðan gegn Hafliða Erni með 152 og 161 gegn tveimur 182 leikjum Hafliða.

Í úrslitaleiknum í Opna flokknum sigraði Karen Rut stöllu sína Mögnu Ýr, með 191 og 172, gegn 180 og 164. Magna Ýr vann Ástrósu með 176 gegn 156. Jón Ingi sigraði Andra Má með 232 og 190 og Andri Már vann Hafliða Örn með stórleik 243 gegn 155.

Úrslit mótsins voru eftirfarandi:
Opinn flokkur stúlkna Íslandsmeistari Karen Rut Sigurðardóttir ÍR, 2. sæti Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR, 3. sæti Ástrós Pétursdóttir ÍR.
Opinn flokkur pilta Íslandsmeistari Jón Ingi Ragnarsson KFR, 2. sæti Andri Már Ólafsson KFR, 3. sæti Hafliði Örn Ólafsson ÍR.
1. flokkur stúlkna Íslandsmeistari Karen Rut Sigurðardóttir ÍR, 2. sæti Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR , 3. sæti Bergþóra Rós Ólafsdóttir ÍR.
1. flokkur pilta Íslandsmeistari Jón Ingi Ragnarsson KFR, 2. sæti Andri Már Ólafsson KFR, 3. sæti Bjarni Páll Jakobsson KFR.
2. flokkur stúlkna Íslandsmeistari Ástrós Pétursdóttir ÍR, 2. sæti Bylgja Ösp Pedersen KFA.
2. flokkur pilta Íslandsmeistari Hafliði Örn Ólafsson ÍR, 2. sæti Páll Óli Knútsson KFR, 3. sæti Skúli Freyr Sigurðarson KFA.
3. flokkur pilta Íslandsmeistari Arnar Davíð Jónsson ÍR, 2. sæti Einar Sigurður Sigurðsson ÍR, 3. sæti Sindri Már Magnússon ÍR. 
3. flokkur stúlkna Íslandsmeistari Steinunn Inga Guðmundsdóttir KFA, 2. sæti Hjördís Helga Árnadóttir KFA.
4. flokkur pilta Íslandsmeistari Guðmundur Gestur Garðarson KFA, 2. sæti Bjarki Steinn Björnsson KR.