ÍR-PLS deildarmeistarar

ÍR-PLS vann deildina í gær með 15-5 sigri á KFA-ÍA og enduðu því með rúmlega 11 stiga forskot á KR-a. KR-a skaust uppí annað sætið með 17-3 sigri á ÍR-a. KR-a náði hæstu seríu vetrarins 2.533 og KFK-Keiluvinir náðu hæsta leiknum 864.
 

Frétt af keila.is

Í þriðja sæti er ÍR-KLS sem vann KFR-Lærlinga 13-7 og endaði síðarnefnda liðið því í fjórða sæti. ÍR-PLS spilar því við KFR-Lærlinga og KR-a við ÍR-KLS í úrslitakeppninni. Liðin sem féllu eru KFR-Stormsveitin og ÍR-a. Steinþór Geirdal var með hæsta meðaltalið 198, Magnús Magnússon með næst hæsta 197 og Björn Sigurðsson með þriðja hæsta 189. Bjarki Sigurðsson var með flest stig að meðaltali 0,72, Jón Bragason í öðru sæti með 0,70 og Jón Sigurðsson í þriðja með 0,67. Steinþór var einnig með hæsta fellumeðaltalið 5,2, Magnús þar einnig í öðru sæti með 5,1 og Arnar Sæbergsson, Andrés Júlíusson og Róbert Sigurðsson í þriðja með 4,7. Magnús átti einnig hæsta leikinn 278, Árni Ómarsson og Freyr Bragason næst hæsta leikinn 277 og Björn Sigurðsson þriðja hæsta 267. Árni átti einnig hæstu seríuna 717, Magnús var með næst hæstu 700 og ungstirnið Jón Ragnarsson var með þriðju hæstu 696. 

(Keila.is)
 
 

Bikarkeppni KLÍ

Undanúrslitum í bikarkeppni kvenna lauk á þriðjudaginn með leikjum ÍR-TT gegn KFR-Valkyrjum og leik KFR-Afturgangna og ÍR-KK. Leikur TT og Valkyrja fór alla leið í framlengingu og höfðu Valkyrjurnar sigur í bráðabananum, 149-125. Afturgöngurnar fóru hins vegar með sigur af hólmi í 3 leikjum og munu þær því mæta Valkyrjunum í úrslitum.

Hörkuleikur var í undanúrslitum í Bikarnum í gærkvöldi,  þar sem KFR-Valkyrjur sigruðu ÍR-TT og komust áfram eftir bráðabana.

Lið ÍR-TT byrjaði betur og unnu fyrsta leikinn sannfærandi með 774 – 688. KFR-Valkyrjur unnu annan leikinn með 13 pinnum 701 – 688 og í þriðja leiknum snerist dæmið við og ÍR-TT unnu með 10 pinnum 695 – 685. KFR-Valkyrjur unnu síðan fjórða leikinn örugglega 707 – 655. Í bráðbananum tryggðu KFR-Valkyrjur sér síðan sigurinn með 149 – 125.

ÍR-TT         774 688 695 655 = 2812 125
KFR-Valkyrjur 688 701 685 707 = 2781 149

Guðný Gunnarsdóttir 740
Linda H. Magnúsdóttir 688
Sigurlaug Jakobsd. 668
Sigríður Klemensd. 716

Dagný E. Þórisdóttir 690
Theodóra Ólafsdóttir 660
Magna Ýr Hjálmtýsd. 718
Sigfríður Sigurðard. 714

 

AMF world cup 2008

Um næstu helgi verður spilað um það hver fer fyrir Íslands hönd á AMF world cup sem að haldið verður í Mexico í haust. Hægt verður að spila 4 sinnum í undankeppninni frá föstudegi og fram á sunnudag. Úrslitin verða svo spiluð á sunnudag um hádegisbilið. Olíuburðurinn sem að notaður verður kallast Beaten path og er hann það sem að sérfræðingar frá Kegel sammældust um að væri sem líkastur því sem að notað er í AMF mótunum.

Árshátíð KLÍ

Nú fer senn að líða að árshátíðinni og verður hún haldin þann 26. apríl á veitingastaðnum Rúbín í Öskjuhlíð. Kvennalandsliðið hefur veg og vanda að árshátíðinni þetta árið og verður þetta án nokkurs vafa einn af hápunktum tímabilsins. Heyrst hefur að happdrættið sé einstaklega glæsilegt þetta árið og vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta og styrkja kvennaliðið okkar til ferðarinnar til Danmerkur í sumar.

Landsliðsnefnd

Á síðasta fundi stjórnar var Ásgrímur Helgi Einarsson skipaður formaður landsliðsnefndar. Hann tekur við af Braga Má Bragasyni og mun Ásgrímur ganga í að vinna að langtímaáætlunum fyrir öll landslið á vegum KLÍ ásamt öðrum nefndarmönnum. Á meðan að við Þökkum Braga fyrir vel unnin störf í gegn um tíðina þá bjóðum við Ásgrím velkominn til starfa.

Kvennalandsliðið valið

Eftir taldar konum / stúlkur hafa verið valdar til að taka þátt fyrir Íslands hönd á Evrópumóti kvenna í keilu sem fer fram í Óðinsvéum,  í Danmörku dagana 6. – 15. júní 2008:

Alda Harðardóttir KFR
Dagný Edda Þórisdóttir KFR
Elín Óskarsdóttir KFR
Guðný Gunnarsdóttir ÍR
Magna Ýr Hjálmtýrsdóttir KFR
Ragna Matthíasdóttir KFR

Heimasíða mótsins er http://www.ewc2008.eu/

Hjónamót KFR

Lokaumferð hjónamóts KFR og Morandé er sunnudaginn 6. apríl og hefst kl 18, en ekki kl 20 eins og venjulega.
Að lokinni umferðinni verða leikin úrslit.  Taldar er 3 hæstu seríurnar hjá hverju pari og fjögur efstu leika einfalda umferð allir við alla.
Hlökkum til að sjá sem flesta