Frá auka heimsþingi keilunnar í Lausanne Sviss

Facebook
Twitter

Í dag og á morgun fer fram aukaþing International Bowling Federation (IBF) hér í Lausanne í Sviss. Megin markmið þessa þings var að taka á málum sem komu upp þegar til stóð að færa heimili IBF frá Lausanne til Kuwait borgar. Fyrir hönd Íslands eru á þinginu þeir Jóhann Ágúst Jóhannsson fráfarandi formaður og Þórarinn Már Þorbjörnsson framkvæmda- og íþróttastjóri KLÍ. Sú áhugaverða staða er að Ísland fer með atkvæði bæði Þýskalands og Ísrael á þinginu. Einnig er Valgeir Guðbjartsson varaforseti Eouropean Bowling Federation (EBF) á svæðinu en hann er fulltrúi EBF svæðisins í stjórn IBF.

Fyrir örfáum mánuðum síðan kom fram tilkynning frá IBF þess efnis að færa ætti skrifstofu þess frá Sviss yfir til Kuwait. Var því strax kröftuglega mótmælt af hálfu aðildarsambanda bæði í Evrópu og Ameríku. Var þessi gjörningur stoppaður af og þá kallað til þessa aukaþings sem nú fer fram. Einnig lágu fyrir aðrar tillögur s.s. að fækka stjórnarfólki IBF.

Lengi hefur legið fyrir að stjórnun IBF væri ekki með þeim hætti sem við hér í Evrópu og Ameríku sættum okkur við. Á þingi í Las Vegas 2019 bauð Finninn Pertu Jusilla sig fram gegn sitjandi forseta sem kemur frá Kuwait en þar hafði Pertu ekki erindi sem erfiði og náði ekki að fella forsetann af stalli. Ásakanir fóru strax í loftið um að sum lönd hefðu verið keypt til að styðja sitjandi forseta. Þær ásakanir sem og fleiri hafa bara á gerst á undanförnum misserum og Finnar sögðu frá því að Pertu voru boðnar háar fjárhæðir til að hætta við sitt framboð 2019.

Til stóð að þing hefðist í morgun kl. 08 með skráningu fulltrúa en óskað var eftir því að fresta byrjun þings um stundarsakir vegna funda aðila innan stjórnar með lögfræðiteymi sem hefur verið IBF til aðstoðar undanfarið. Þingið hófst svo loks um kl. 10:30 þar sem lesin var upp yfirlýsing frá forseta IBF. Þar sagði hann af sér sem forseti sambandsins og fer úr stjórn en það var svo sem viðbúið eftir að í morgun fór frétt í loftið þar sem hann er ásakaður um peningaþvætti, sjá má fréttina hér. Við hans afsögn og höfnun þings á að fækka stjórnarfulltrúum eins og tillaga lá fyrir þá færast til stöður innan stjórnar IBF. Martin Faba frá Kosta Ríka sem var 1. varaforseti IBF tekur sæti sem forseti fram að heimsþingi sem fram fer á næsta ári 2023.

Á morgun heldur þingið áfram en þá er seinni dagur þess.

Innan keiluheimsins hefur það komið fram að Valgeir okkar, sem aðili EBF innan stjórnar IBF, hefur staðið í ströngu undanfarna mánuði vegna þessara mála. Heyrst hefur nokkuð víða að okkar maður sé sá eini sem staðið hefur hvað fastast gegn þessum stjórnarháttum og hefur hann gert það frá upphafi. Fleiri hafa þó séð hvað í stefndi og komið sér fyrir réttum megin línunnar. Valgeir hefur í þessu ferli fengið dygga aðstoð frá EBF og þá sér í lagi framkvæmdastjóra þess hennar Natasa Pirc Musar sem er lögfræðingur að mennt.

En ljóst er að búið er að stoppa þessa vegferð fráfarandi forseta IBF. Næst liggur fyrir að þeir sem halda áfram innan stjórnar IBF taki á þeim fjölmörgu málum sem liggja fyrir svo sem að tryggja enn betur í sessi aðsetur IBF í Lausanne og uppfylla ákvæði svissneskra laga.

Það má segja að það sé bjartara framundan í keilunni eftir daginn í dag.

 

Nýjustu fréttirnar