KFR-Valkyrjur og ÍR-PLS eru Íslandsmeistarar liða 2022

Facebook
Twitter

Í kvöld lauk hreint út sagt æsi spennandi úrslitakeppni á Íslandsmóti liða 2021 til 2022. Fóru báðir úrslitaleikirnir í 3 leiki í 3. umferð. Svo jafnt var hjá liðunum að leikar réðust ekki fyrr en í blá lokin.

Það voru eins og fyrirsögn segir lið KFR-Valkyrjur sem sigruðu kvennadeildina með því að leggja lið ÍR-TT alls með 22 stigum gegn 20 en ÍR-TT var með yfirhöndina frá 1. umferð og alveg fram að lokaleiknum í kvöld. Er þetta í 13. sinn sem Valkyrjur fagna sigri á Íslandsmóti liða og hafa lang oftast liða sigrað deildarkeppnina.

Hjá körlum voru það ÍR-PLS sem urðu meistarar með því að leggja lið KFR-Stormsveitarinnar með alls 26 stigum gegn 16 en þrátt fyrir að vera 10 stigum á undan réðust úrslit ekki fyrr en í síðasta leik síðustu umferðar en ÍR-PLS þurfti þá einungis 1 stig af mögulegum 6 sem eftir voru í pottinum. Tóku þeir þar 5 stig og sigldu þessu örugglega í land. Er þetta í 9. sinn sem PLS menn fagna Íslandsmeistaratitlinum.

Einar Már Björnsson í ÍR-PLS átti stórleik í kvöld með 792 seríu eða 264 í meðaltal. Voru leikirnir hans 217 – 296 og 279. Fyrir keilara segir það að í leik 2 þá átti Einar séns á fullkomnum leik en hann missti boltann í síðasta kasti aðeins of langt út og fékk einungis 6. Í næsta leik var hann líka með 11 fellur af 12 mögulegum í leiknum og einu sinni 9 og feykju.

Best kvenna í kvöld spilaði Katrín Fjóla Bragadóttir KFR-Valkyrjum en hún var með 568 seríu eða 189,3 í meðaltal.

Með þessum leikjum lauk keppnistímabili Keilusambandsins fyrir veturinn 2021 til 2022.

Framundan eru verkefni í sumar hjá A landsliðum karla og kvenna sem keppa á Evrópumótum landsliða. Einnig halda ungmenni í U21 árs landsliðsins til Svíþjóðar í sumar til keppni á HM ungmenna.

Keilusambandið þakkar keilurum, Keiluhöllinni, velunnurum keilunnar og stuðningsfólki kærlega fyrir skemmtilegan vetur.

Sjáumst í haust.

KFR-Valkyrjur

ÍR-PLS

ÍR-TT

KFR-Stormsveitin

Nýjustu fréttirnar