Formannafundur KLÍ í aðdraganda þings

Facebook
Twitter

Í kvöld fór fram formannafundur KLÍ en hann var haldinn í Íþróttamiðstöðinni Laugardal. Til fundar mættu forsvarsmenn allra félaga utan Þórs. Umræður fundarins voru þau mál sem borist hafa KLÍ og leggja á fyrir þing sem verður sunnudaginn 22. maí næst komandi en skilafrestur mála var s.l. sunnudag. Einnig var farið yfir framboðsmál en ljóst er að kjósa þarf í nokkrar stöður í stjórn. Sem og voru önnur mál rædd.

Megin markmið þessa fundar var að kynna félögum hvaða mál verða lögð fram svo hægt sé að skoða þau betur í félögunum og koma eins vel undirbúin fyrir málin til þings þar sem þau verða afgreidd.

Fyrst var rætt um mál stjórnar fyrir þing sem eru Siðareglur KLÍ. Farið var yfir þær og rætt um nauðsyn þess að KLÍ hafi slíkar reglur í starfsemi sinni. ÍR kom inn á að laga þurfi reglugerð um Aganefnd til að hún geti tekið mál sem eiga við um brot á siðareglum. Unnið verður að breytingu reglugerðar sem stjórn KLÍ tekur þá til afgreiðslu.

Næst var komið að umræðum um unglingamál en fyrir liggur tillaga frá KFR og ÍR um að breyta flokkaskiptingu ungmenna og samræma milli ólíkra móta ungmenna. Samræma þarf nokkrar reglugerðir til þess svo sem reglugerð um Meistarakeppni ungmenna, Íslandsmót unglingaliða og þá reglugerð um Íslandsmet. Varð ákveðið að þessar reglur utan Íslandsmóts unglingaliða fari fyrir þing en unglingaliða reglugerðin fari fyrir þjálfara félaga og Unglinganefnd til yfirferðar. Tillaga kom upp um að prófa Baker format í því móti. Reyndar er það svo að fækkun hefur orðið í fjölda liða þannig að skoða þarf hvernig þessu móti er best fyrir komið upp á að halda því áfram uns fleiri iðkendur eru á þessu aldursbili.

Loks var komið að umræðum um framboðsmál.

Fyrir liggur framboð eftirtalinna aðila:

Framboð til formanns KLÍ

  • Hörður Ingi Jóhannsson ÍR

Framboð til stjórnarmanna til tveggja ára

  • Guðjón Júlíusson KFR
  • Gunnar Þór Ásgeirsson ÍR

Framboð til stjórnarmanns til eins árs vegna afsagnar Einars Jóles

  • Guðmundur Sigurðsson ÍA

Framboð til varamanna til eins árs

  • Helga Hákonardóttir Öspin
  • Svavar Þór Einarsson ÍR
  • Skúl Freyr Sigurðsson KFR

Fyrir í stjórn er Geirdís Hanna Kristjándsóttir ÍR sem á ár eftir af sínu kjörtímabili.

Að sjálfsögðu rennur framboðsfrestur ekki út fyrr en á þingi og því ekki að fullu ljóst hvort fleiri einstaklingar verði í framboði.

Að lokum voru rædd ýmis mál svo sem aðstöðumál og málefni IBF en þann 24. og 25. maí verður auka heimsþing haldið í Lausanne í Sviss vegna stöðunnar hjá heimssambandinu. Daginn á undan þann 23. maí verður Norðurlandafundur vegna þingsins á sama stað. Jóhann Ágúst Jóhannsson núverandi formaður KLÍ og Þórarinn Már Þorbjörnsson sækja fundina fyrir hönd KLÍ en auk þess verður Valgeir Guðbjartsson varaforseti EBF á þinginu fyrir hönd Evrópusamtakanna.

Þingskjöl fyrir 29. ársþing KLÍ verða birt hér á næstunni.

Nýjustu fréttirnar