RIG Bowling 2022 – Skráning opin – Margir erlendir keppendur á leiðinni

Facebook
Twitter

Keilusamband Íslands heldur keilumót á Reykjavik International Games 2022. Er þetta í 14. sinn sem keilan er á RIG af þeim 15 skiptum sem þessir leikar hafa farið fram í höfuðborginni. Skráning í riðla er nú opin og má skrá sig hér í alla riðla en sérstök skráning í Early Bird riðilinn fer fram hér í gegn um Sportabler þar sem greiða þarf mótsgjaldið með kortafærslu við skráningu. Athugði að hámark komast 44 keilarar að í hverjum riðli. Athugði að fyrirvarar eru á hvort riðlar séu haldnir ef næg þátttaka fæst ekki. Hægt verður að skrá sig á biðlista í gegn um Sportabler fyllist riðillinn.

Sterkir erlendi keppendur sem aldrei fyrr

Á mótið í ár koma nokkrir sterkir erlendir keppendur auk annarra sem koma til lands á eigin vegum. Það sýnir hversu þekkt mót þetta er orðið í Evrópu en þar má m.a. þakka kynningu PWBA kvenna sem komið hafa undanfarin ár.

Diana Zavjalova frá Lettlandi

Diana sem er PWBA keilari kom hér á RIG 2020 og féll, rétt eins og allir aðrir sem hafa komið hingað, fyrir landi og þjóð. Hún kemur nú aftur og búast má við að með henni komi einhverjir keppendur.

 

Verity Crawley frá Englandi

Veriy er að koma hingað í fyrsta skiptið. Hún er keppandi á bandarísku atvinnumótaröð kvenna PWBA og ein allra besta enska keilukonan í dag enda fastagestur í landsliði þeirra.
 

Daria Pajak frá Póllandi

Daria sem líka er PWBA keilari er að koma hér í þriðja sinn. Með henni má búast við nokkrum keilurum frá heimalandi hennar sem og frá öðrum löndum. Daria verður með keiluþjálfun helgina eftir RIG sem nánar verður auglýst síðar.

 

Jesper Agerbo frá Danmörku

Jesper ætti ekki að þurfa að kynna fyrir íslenskum keilurum. Hann hefur oft komið hér á RIG og vann leikana 2018. Jesper er landsliðsmaður Dana og hefur m.a. unnið einstaklingskeppni á bæði Evrópu- og Heimsmeistaramótum. Með honum koma nokkrir keilarar frá Danaveldi.

 

Mattis Möller frá Svíþjóð

Von er á að komandi landsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands mæti enn og aftur til okkar og verði með okkur á RIG. Hver man ekki eftir 7 – 10 glennunni sem Möller þrumaði niður 2019?

 

Auk þessara keilara hafa nokkrir erlendir aðilar boðað komu sína og má búast við að mótið í ár verði það fjölmennasta af erlendum keppendum til þessa.

Um mótið

Hefur Covid áhrif?

Covid hefur vissulega áhrif. Eins og staðan er í dag er hægt að halda Reykjavíkurleikana og stefna allir aðilar innan RIG að því. Hinsvegar má búast við ákveðnum takmörkunum varðandi mótið sem fyrst og fremst lúta að almennri grímuskyldu og mögulega takmörkuðu aðgengi áhorfenda.

Komi til einhverra sérstakra takmarkanna verður það tilkynnt sérstaklega.

Nýjustu fréttirnar