Frá einstaklingskeppninni í Super World Championship í Dubai

Facebook
Twitter

Í gær laugardag fóru fram fyrri 5 leikirnir í einstaklingskeppninni í Super World Championship (SWC) í Dubai. Fyrst spiluðu þær Helga Ósk Freysdóttir og Margrét Björg Jónsdóttir í fyrra hollinu. Þá var komið að þeim Gústaf Smára Björnssyni og Guðlaugi Valgeirssyni en strax á eftir þeim fóru þær Linda Hrönn Magnúsdóttir og Nanna Hólm Davíðsdóttir upp á brautirnar. Það voru síðan þeir Arnar Davíð Jónsson og Gunnar Þór Ásgeirsson sem lokuðu deginum hjá Íslendingum í Dubai.

Leikarnir fóru svona hjá okkar fólki:

Konur

  • Helga Ósk Freysdóttir 68. sæti með 906 pinna eða 181,2 mtl. – 192-196-182-140-196
  • Linda Hrönn Magnúsdóttir 79. sæti með 864 pinna eða 172,8 mtl. – 172-202-174-178-138
  • Margrét Björg Jónsdóttir 88. sæti með 799 pinna eða 159,8 mtl. – 156-131-170-185-157
  • Nanna Hólm Dagíðsdóttir 90. sæti með 795 pinna eða 159,0 mtl – 171-155-150-178-141

Karlar

  • Arnar Davíð Jónsson 54. sæti með 1.067 pinna eða 213,4 mtl. – 182-233-237-186-229
  • Guðlaugur Valgeirsson 56. sæti með 1.066 pinna eða 213,2 mtl. – 258-197-222-185-204
  • Gunnar Þór Ásgeirsson 111. sæti með 945 pinna eða 189,8 mtl. – 158-181-174-226-206
  • Gústaf Smári Björnsson 126. sæti með 832 pinna eða 166,4 mtl. – 154-179-131-168-200

Best kvenna á mótinu spilaði hin enska Verity Crawley en hún lék leikina 5 á 1.224 pinnum eða 244,8 í meðaltal. Leikirnir hjá henni voru 229-243-279-248-225. Kelly Kilick frá Bandaríkjunum er næst á eftir henni með 1.218 pinna eða 243,6 í meðaltal. Til gamans má geta að Verity mun vera með okkur á RIG 2022 mótinu sem fram fer eftir áramót.

Bestur hjá körlunum í gær var hinn sænski Jesper Svensson sem átti ótrúlega seríu sem er óstaðfest heimsmet í 5. leikjum karla. Spilaði hann 1.345 pinna eða 269,0 í meðaltal. Stóðu leikirnir saman af 269-259-279-279-259. Til gamans má geta að 279 leikur samanstendur af 11 fellum af 12 mögulegum með einu kasti sem leikmaður nær 9 pinnum en feykir svo. Jesper var þarna með tvo slíka í röð. Sannarlega ótrúleg spilamennska hjá líklega einum besta keilara heimsins í dag. Annar hjá körlum er A. Alkiwai frá Sadi Arabíu með 1.313 seríu en hann gerði sér lítið fyrir og var með tvo fullkomna leiki í seríunni 300-267-207-239-300.

Þegar þetta er skrifað er tvímenningskeppnin hafin. Er hún sett þarna inn á milli einstaklingsleikjanna og byrjuðu þeir Arnar Davíð og Guðlaugur leika fyrir okkar hönd. Eru þeir eftir leikina 5 í 24. sæti með 1.995 pinna eða 199,5 í meðaltal.

Hægt er að fylgjast með mótinu á vefsíðu þess en ákveðin vandræði hafa verið með síðuna og verið er að vinna í uppfærslum og breytingum á henni. En þar er hægt að sjá skor úr mótinu og komast í hlekki til að sjá beina útsendingu úr salnum í Dubai.

Nýjustu fréttirnar