Nýr landsliðsþjálfari karla

Facebook
Twitter

Í dag var formlega gengið frá samning við nýjan landsliðsþjálfara karla Mattias Möller frá Svíþjóð. Robert Anderson sem gengt hefur starfinu undanfarin ár heldur nú alfarið til starfa fyrir sænska keilusambandið. Til stóð að Robert mundi klára Evrópukeppni karlalandsliða EMC 2019 en þar sem því móti var ítrekað frestað vegna Covid-19 samdi KLÍ við hann að halda verkinu áfram þar til hægt væri að halda mótið. Er það á dagskrá núna í janúar 2022.

Robert og Mattias eru á landinu þessa dagana og hafa verið með æfingar hjá karlaliðinu til undirbúnings fyrir EMC 2019 en auk þess stendur til að senda A lið karla ásamt A liði kvenna og Öldunga á IBF Super World Cup sem fram fer í Dubai í nóvember í ár. Robert verður þar sem sænska liðinu en Möller mun þar stýra íslenska karlaliðinu. Skúli Freyr mun sem fyrr sjá um kvennaliðið. Þeir verða síðan saman með karlaliðið í Helsinki Finnlandi í janúar 2022 og eftir það tekur Möller alfarið við.

Stjórn KLÍ, landsliðsnefnd og íþróttastjóri fagna ráðningu Möllers og er hann boðinn velkominn til starfa fyrir sambandið.

Myndin var tekin í Keiluhöllinni Egilshöll í dag við undirritun samnings.

Nýjustu fréttirnar