Andri Freyr Jónsson sigrar keilukeppnina á Reykjavíkurleikunum 2021

Facebook
Twitter

Andri Freyr Jónsson úr Keilufélagi Reykjavíkur sigraði í kvöld keilukeppnina á Reykjavíkurleikunum en úrslitin fóru fram í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV2. Andri sigraði Hafþór Harðarson úr ÍR í lokaviðureigninni sem var æsi spennandi allt fram í síðasta kast Andra. Fór leikurinn 225 gegn 214. Í úrslitum áttust við auk þeirra Andra og Hafþórs þeir Adam Pawel úr ÍR sem varð í 3. sæti og Jón Ingi Ragnarsson úr Keilufélagi Reykjavíkur sem varð í því fjórða.

Bestum árangri kvenna á mótinu náði Linda Hrönn Magnúsdóttir úr ÍR en hún varð í 12. sæti í forkeppninni og komst inn í 16 manna úrslitin í dag. Það gerði einnig Marika K E Lönnroth en hún varð í 15. sæti forkeppninnar og endar því skv. mótsreglum sætinu neðar en Linda.

Þetta var í 13. sinn sem keppt er í keilu á Reykjavíkurleikunum. Þrátt fyrir samkomutakmarkanir og það að ógerningur var að fá erlenda keppendur til landsins var það samt sameiginleg ákvörðun mótshluta Reykjavíkurleikanna undir forystu ÍBR að halda mót enda hafa margar íþróttagreinar ekki náð að halda keppnir undanfarna mánuði.

Nýjustu fréttirnar