Uppfærðar sóttvarnarreglur og staðan framundan

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter

Í dag tekur gildi ný reglugerð um samkomutakmarkanir vegna Covid farsóttar. Nú má hefja æfingar barna undir 16 ára aldri en áfram er öll keppni bönnuð. Félög geta því hafið að nýju æfingar með þeim takmörkunum sem reglugerðin setur og að því sögðu þá er búið að uppfæra sóttvarnarreglur KLÍ sem sjá má hér.

En hver er staðan framundan með keppni í keilu?

Eins og reglugerðin segir til um þá er keppnisbann á meðan reglugerðin er í gildi en hún er til 1. desember. Óljóst er hvað tekur við eftir núverandi reglu svo það má í besta falli búast við að komast í gang í desember en ætli raunsæið segi okkur ekki frekar það að við förum í gang á nýju ári.

Með keppni innan okkar raða þá hefur stjórn KLÍ, framkvæmdastjóri og mótanefnd rætt sín á milli hvernig best sé að ná upp dagskrá þegar við komumst í gang. Sú leið sem er í umræðunni er að spila örar þegar við komumst í gang og það þýðir að það geta verið deildarleikir tvisvar í viku í einhvern tíma þar til við erum komin á rétt ról með deildarkeppnir.

Ástæða þess er einnig að samkvæmt sóttvarnarreglum sem voru í gildi á meðan keppni stóð yfir og búast má við sambærilegum reglum var ákvæði um að ekki væru fleiri en 50 manns í sama rými. Af þeim sökum er ekki hægt að spila á öllum brautum á einu kvöldi. Keiluhöllin hefur veitt okkur leifi til að spila nokkra leiki á miðvikudagskvöldum þar sem Utandeildin er ekki í gangi sökum aðstæðna. Búast má því við þeirri ákvörðun að nokkrir leikir verði settir á miðvikudagskvöld og verða lið því að fylgjast vel með dagskrá þegar keppni kemst í gang aftur. Einnig má búast við því að leikir verði settir á um helgar.

Margir fundir hafa verið haldnir á vegum ÍSÍ með héraðs- og sérsamböndum ásamt fulltrúum almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins, sóttvarnarlækni og forsvarsfólki íþróttaráða sveitarfélaga. Mikil krafa er komin frá sérsamböndum um að leifa í það minnsta afrekshópum að æfa enda mjög augljóst að afreksmál eru að dragast aftur úr í öllum íþróttagreinum þegar aðilar geta ekki æft. Allir vilja komast sem fyrst í gang en allir eru sammála um að íþróttahreyfingin gangi í takt og sér ÍSÍ þá um forystuhlutverkið í þeim málum.

En núna þegar æfingar barna fara að komast í gang og á komandi tímum önnur starfsemi hvetjum við alla til að huga vel að sóttvörnum sínum og hjálpast að við að halda okkar umhverfi öruggu.

Nýjustu fréttirnar