Arnari Davíð Jónssyni boðið að keppa í úrslitum á Heimstúrnum 2019

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter

World Bowling, alheimssamband keilunnar, tilkynnti í morgun að í fyrsta sinn í sögunni verði einum karlkeilara og einum kvennkeilara frá aðildarsvæðum þess boðið að leika í úrslitum á Heimstúrnum 2019, World Bowling Tour, ásamt efstu þrem í körlum og konum á Heimstúrnum 2019. Aðildarsvæðin eru þrjú eða Evrópa, Asía og Pan-America. Það kemur í hlut hvers sambands að tilnefna þá keilara sem boðið er á mótið.

ETBF, Keilusamband Evrópu, tilnefnir efsta karl og efstu konu á stigalista ETBF í ár en eins og kunnugt er situr Arnar Davíð í efsta sæti á karlalistanum eftir frábærar frammistöður á mótum ársins. Það er síðan hin sænska Anna Andersson sem keppir á mótinu sem fulltrúi kvenna í Evrópu.

Mótið fer fram í nýjum og glæsilegum 48 brauta sal í Kúveit þann 7. nóvember n.k. Á mótinu keppa eins og segir 6 fulltrúar aðildarsvæða World Bowling ásamt þeim þrem sem verða í efsta sæti á Heimslistanum eftir mót sem fram fer dagana á undan. Sem stendur er Danielle McEwan frá Bandaríkjunum efst kvenna og Tannya Roumimper frá Indónesíu í þriðja sæti en þær eru væntanlegar hingað til lands til að keppa á Reykjavík International Games í keilu sem fram fer dagana 29. janúar til 2. febrúar 2020. Það eru síðan Bandaríkjamennirnir Jakob Butturff, AJ Johnson og Kyle Sherman sem verma efstu sætin á karlalistanum og verður spennandi að sjá Arnar Davíð etja kappi við þá í nóvember.

Nýjustu fréttirnar