Breytt úrslit í 1. deild kvenna – ÍR TT deildarmeistari

Facebook
Twitter

Búið er að breyta úrslitum í deildarkeppni 1. deildar kvenna fyrir tímabilið 2018 – 2019 – ÍR TT er deildarmeistari en KFR Valkyrjur færast í 3. sæti.

Eftir lokaumferð í 1. deild kvenna sem leikin var laugardaginn 30. mars s.l. kærðu ÍR TT lið KFR Valkyrjur til stjórnar KLÍ vegna meints ólögmæts leikmanns. Voru umferðir 15. og 20 kærðar af ÍR TT þar sem þessi tvö lið áttust við. Auk þess lagði KFR Afturgöngur inn kæru til stjórnar KLÍ vegna 19. umferðar. Málavextir eru þeir að liðsmaður KFR Valkyrja, Marika Katarina E. Lönnroth sem er erlendur ríkisborgari, lék ekki með liðinu fyrir 1. febrúar s.l. en í 13. gr. Reglugerðar um Íslandsmót liða segir að ef erlendur leikmaður sé í liði þurfi hann að hafa spilað fyrir 1. febrúar til að vera gjaldgengur.

Stjórn KLÍ tók málið fyrir og vísaði því frá sér þar sem það á heima fyrir Dómstól ÍSÍ sbr. dóma Dómstóls ÍSÍ #1/2018 og #3/2018.

ÍR TT kærði málið til dómstólsins og hefur Dómstóll ÍSÍ kveðið upp sína dóma # 3/2019 og # 4/2019 (á eftir að birta á vef ÍSÍ). KFR Afturgöngur kærðu málið ekki til Dómstóls ÍSÍ. Vísar dómstóllinn frá kæru varðandi 15. umferð þar sem kærufrestur var liðinn en hann dæmir leikmann KFR Valkyrja ólöglegan í 20. umferð og því ÍR TT sigur í viðureigninni 14 – 0. KFR Valkyrjur áfrýjuðu málinu til Áfrýjunardómstól ÍSÍ sem kvað upp sinn dóm í dag og staðfesti hann dóminn.

Miðað við dóm Dómstól ÍSÍ hefur hann áhrif á lokastöðu í 1. deild kvenna. KFR Valkyrjur sem urðu deildarmeistarar með 187 stig unnu ÍR TT 11 – 3 í 20. umferð sem er dæmd þeim töpuð. ÍR Buff er í 2. sæti með 178 stig og ÍR TT var í 3. sæti með 167 stig. Þar sem 11. stig dragast af KFR Valkyrjum verða þær þá með 176 stig, ÍR Buff heldur sínum 178 stigum og ÍR TT endar í 178 stigum, jafnar ÍR Buff að stigum. Þá þarf að skoða innbyrðis viðureignir ÍR TT og ÍR Buff og er ÍR TT þar með fleiri stig og verða þá deildarmeistarar 1. deildar kvenna 2019 og ÍR liðin keppa til úrslita um Íslandsmeistarartitil kvennaliða.

Fh. stjórnar KLÍ

Jóhann Ágúst Jóhannsson
Formaður

Nýjustu fréttirnar