Frá EM U18 í Vín – Þátttöku lokið

Facebook
Twitter

Eins og fram hefur komið stendur nú um páskana yfir Evrópumót ungmenna U18 í Vín í Austurríki. Af okkar fólki er það að frétta að í liðakeppni enduðu strákarnir í 21. sæti með 168,0 í meðaltal á meðan stelpurnar enduðu í 12. sæti með 163,7 í meðaltal. Í liðakeppni pilta áttust við Danir og Frakkar og sigruðu Danirnir með 758 pinnum gegn 750, nokkuð spennandi viðureign þar. Hjá stúlkum áttust einnig dönsku stúlkurnar við þær ensku og fór leikurinn hjá þeim þannig að um jafntefli var að ræða 761 gegn 761 og varð því að grípa til bráðabana eða Roll Of og sigruðu ensku stúlkurnar með 38 gegn 36.

Í einstaklingskeppni pilta varð Steindór Máni Björnsson ÍR efstur en hann endaði í 32. sæti með 195 í meðaltal,  Jóhann Ársæll Atlason ÍA varð skammt undan í 34. sæti með 194 og þeir Matthías Leó Sigurðsson ÍA og Mikael Aron Vilhelmsson KFR urðu í 85. og 92. sæti með 164,2 og 152 í meðaltal.

Stúlkurnar enduðu einstaklingskeppnina með því að Hafdís Eva Laufdal Pétursdóttir ÍR varð í 35. sæti með 182,2 í meðaltal og í næsta sæti þar á eftir varð Elva Rós Hannesdóttir ÍR með 181,3 í meðaltal. Sara Bryndís Sverrisdóttir ÍR varð síðan í 63. sæti með 154,8 og Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir Þór varð í 65. sæti með 145,7.

Með þessu lauk þátttöku Íslendinga á þessu móti en síðustu keppnir mótsins eru All Events og Masters.

Nýjustu fréttirnar