Frá Evrópumóti ungmenna U18

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter

Þessa dagana eru U18 landslið pilta og stúlkna að keppa á Evrópumóti ungmenna en mótið fer fram í Vín Austurríki nú um páskana. Tvímenningskeppni lauk í gær og hjá piltum spiluðu Jóhann Ársæll Atlason ÍA og Steindór Máni Björnsson ÍR saman. Enduðu þeir í 35. sæti með 179,9 í meðaltal eftir 6 leikja seríu. Ungu drengirnir þeir Matthías Leó Sigurðsson ÍA og Mikael Aron Vilhelmsson KFR enduðu í 44. sæti með 158,9 í meðaltal. Stúlkurnar voru ansi jafnar og enduðu þær Hafdís Eva Laufdal Pétursdóttir og Sara Bryndís Sverrisdóttir báðar í ÍR í 26. sæti með 165,6 í meðaltal en Elva Rós Hannesdóttir ÍR og Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir Þór voru í næsta sæti með 165,4.

Tvímenningskeppni pilta unnu hollensku strákarnir Brent de Tuiter og Mike Bergman en þeir lögðu Þjóðverjana Paul Sillivan Purps og Patrick Weichert með 440 gegn 402. Hjá stúlkum voru það þær Mila Nevalinen og Peppi Konsteri frá Finnlandi sem unnu norsku stúlkurnar Nora Kjellas og Sofia Hultstedt með 386 pinnum gegn 353.

Í dag fer fram liðakeppni og má fylgjast með stöðum og lifandi straumi frá mótinu á vefsíðu þess. Einnig má benda á Fésbókarsíðu hópsins en þar koma myndir, videó og fleira skemmtilegt úr ferðinni hjá þeim.

Nýjustu fréttirnar