Fyrri dagur einstaklingskeppninnar á ECC18

Facebook
Twitter

Í gær hófst keppni á Evrópumóti landsmeistara 2018, ECC-18, sem fram fer í Langen í Þýskalandi. Þau Ástrós Pétursdóttir úr ÍR og Gústaf Smári Björnsson úr KFR keppa fyrir Íslands hönd á mótinu en þau eru Íslandsmeistara einstaklinga 2018. Skúli Freyr Sigurðsson er þjálfari þeirra í ferðinni. Í gær voru spilaðir fyrstu 8 leikirnir af 16 í forkeppninni og hóf Ástrós keppni í riðli 2. Gústaf Smári byrjaði svo í riðli 1 seinna um daginn.

 

Ástrós átti heilt yfir ágætis seríu og náði 1.499 pinnum í 8 leikjum eða 187,4 í meðaltal. Nokkrir 150+ leikir inn á milli en allir hinir yfir 200 og þar af best 213. Er hún sem stendur í 19. sæti 29 pinnum frá niðurskurðinum sem er 16. sæti. Gústaf Smári átti þokkalega byrjun og sótti svo ögn á og endaði með 1.536 pinna eða 192,0 í meðaltal, besti leikur í seríunni var 212, sem skilar honum í 31. sæti 126 pinnum frá niðurskurðinum.

Best hjá konum í mótinu spilaði hin danska Mai Ginge Jensen 1.808 eða 226,0 í meðaltal. Viktor Danielsson frá Svíþjóð spilaði best karla 1.874 eða 234,2 í meðaltal. Einn 300 leikur er kominn í mótinu en það var hin ítalska Giada Di Martino sem skellti strax í 300 í fyrsta leik dagsins. Hún situr í 9. sæti forkeppninnar eins og er.

Í dag kl. 16:00 að íslenskum tíma leikur Ástrós seinni 8 leikja seríu sína á mótinu en Gústaf Smári leikur sína seinni seríu kl. 7:00 á morgun föstudag. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá mótinu bæði á YouTube og LaneTalk sem og eru úrslit og aðrar upplýsingar mótsins að finna á vefsíðu þess.

Mótið heldur svo áfram inn í helgina og verða 16 manna úrslit spiluð á laugardaginn en mótinu lýkur svo á sunnudag með 8 manna og úrslitakeppni í beinu framhaldi.

Nýjustu fréttirnar