Arnar Davíð Jónsson fyrstur Íslendinga til að sigra mót á evrópsku mótaröði

Facebook
Twitter

Arnar Davíð Jónsson með verðlaunin á Odinse International 2018Arnar Davíð Jónsson úr Keilufélagi Reykjavíkur sigraði í dag á Odinse International keilumótinu en það mót er hluti af evrópsku mótaröðinni í ár. Arnar Davíð er fyrstur Íslendinga til að fagna sigri á slíku móti. Gunnar Þór Ásgeirsson úr ÍR endaði mótið í 11. sæti en hann komst upp í 2. milliriðil í dag. Afrekshópur karla frá Keilusambandi Íslands tók þátt í mótinu en þeir hafa verið erlendis undanfarna daga í æfingabúðum og var þátttaka þeirra í þessu móti hluti af undirbúningi hópsins fyrir komandi verkefni.

Arnar Davíð lagði Danann Carsten Hansen í úrslitum með 213 pinnum gegn 206 en Hansen varð stigahæsti keilarinn á Evróputúrnum í fyrra. Arnar Davíð varð efstur eftir forkeppnina í mótinu með 222,8 í meðaltal. Andrés Páll Júlíusson úr ÍR varð í 6. sæti í forkeppninni með 216,3, Björn Sigurðsson úr KFR varð í 20. sæti með 202,8 og Gunnar Þór Ásgeirsson úr KFR varð í 24. sæti með 201,8 í meðaltal.

Í milliriðlum náði Gunnar Þór upp í milliriðil 2 með 208,3 í meðaltal í 6 leikjum og endaði hann síðan eins og fyrr segir í 11. sæti mótsins en aðrir íslensku keppendanna komust ekki í milliriðil 2. Arnari gekk vel í milliriðlunum og vann alla sína leiki örugglega í dag. Arnar er nýfluttur út til Svíþjóðar en þar gefst honum betri kostur á að æfa og ætlar hann sér stóra hluti í keilunni í ár og fer gríðarlega vel af stað.

Nánari upplýsingar um mótið, stöður og fleira.

Nýjustu fréttirnar