ÍR-PLS styrkir stöðu sína á toppnum

Facebook
Twitter

Í vikunni var leikin 7. umferð í 1. deild karla.  Augu flestra beindust að viðureign ÍR liðanna  PLS og KLS.

ÍA W – KR C  24. nóvember í Keilusalnum Akranesi.
Þessi leikur var spilaður langt á undan öðrum leikjum í þessari umferð.
ÍA W byrjaði leikinn af miklum krafti og unnu 1. leikinn stórt. Eftir það jafnaðist viðureignin og þriðja leikinn vann KR C með 3ja stiga mun.  ÍA W lagði hins vegar grunn að sigri viðureignarinnar í fyrsta leik og lokastaðan var 12 – 8.
Magnús var hæstur hjá ÍA W með 618 en Hörður spilaði 569 hjá KR C.

Þór – ÍA 30. nóvember í Keilunni á Akureyri.
ÍA skellti sér norður fyrir heiðar og mættu heimamönnum í Þór. Um mikinn fallbaráttu slag var að ræða en Þór var í neðsta sætinu fyrir leikinn og ÍA sæti ofar.
Heimamenn buðu ÍA menn velkomna norður en sýndu enga gestrisni.  Þór vann fyrstu tvo leikina nokkuð örugglega en þriðji leikurinn varð spennandi þar sem úrslit réðust alveg í restina.
Viðureignina vann Þór 13 – 7 og náðu þar með ÍA að stigum, bæði lið eru með 45 stig en Þór á leik til góða.
Guðmundarnir spiluðu best hjá sínum liðum, hjá Þór 608 og hjá ÍA 564.

KR B – KFR Lærlingar 2. desember í Öskjuhlíð.
Lærlingar gerðu ekki góða ferð í Öskjuhlíðina þegar þeir mættu KR B.  Fyrstu leikurinn var alveg eign KR en leikur 2 og 3 voru hnífjafnir.  Annan leikinn vann KR með 5 pinnum og  þriðji leikurinn endaði jafn, 738 – 738. Viðureignin endaði hins vegar 13,5 – 6,5 fyrir KR og þar munaði mest um fyrsta leikinn.
Hjá KR var Bragi Már hæstur með 611 en hjá Lærlingum voru Guðlaugur 574 og Sveinn 562 hæstir.

ÍR PLS – ÍR KLS  3. desember  í Egilshöll.
Leikurinn fór fram á brautum 1 og 2.  Fyrstu tveir leikirnir voru jafnir en í þriðja leik tók PLS málin í sýnar hendur, spiluðu 818 á móti 721 frá KLS og lönduðu þægilegum sigri, 14 – 6. 
Hafþór var hæstur hjá PLS með 664 og Einar Már spilaði 615. Hjá KLS var Andrés með 625 og Magnús 612. 
Sigurinn setur PLS í sterka stöðu á toppi deildarinnar, 16 stigum á undan ÍA W sem reyndar á einn leik til góða.

KFR Stormsveitin – KR A 3. desember í Egilshöll.
Hér var um hörku spennandi og jafna viðureign að ræða. Fyrstu tveir leikirnir voru að vísu ekki svo jafnir, KR vann fyrsta leikinn 5 – 1 en Stormsveitin svaraði fyrir sig í öðrum leik og unnu 5 – 1. Staðan því jöfn 6 – 6 fyrir síðasta leikinn.  Sá leikur var jafn allan tímann og úrslitin réðust ekki fyrr en á lokaköstunum. Leikurinn fór 3 – 3 en KR sigraði heildina með 3 pinnum og viðureignina því 11 – 9.
Valgeir var hæstu hjá Stormsveitinni með 651 og Ásgrímur spilaði 594. Hjá KR var Sigurbjörn hæstur með 640.

8  umferð  verður leikin dagana 6. – 10. desember. Einum leik í þeirri umferð er lokið en það er viðureign KFR Stormsveitarinnar á móti Þór. Sá leikur endaði 9 – 11 fyrir Þór en fjallað verður um þann leik um leið og 8. umferðin verður gerð upp. Leikir umferðarinnar eru annars þessir:

ÍA – ÍA W  6. desember kl. 18 á Akranesi
KR A – KFR Lærlingar 10. desember  í Öskjuhlíð
ÍR KLS – KR B 10. desember í Egilshöll
KR C – ÍR PLS 10. desember í Egilshöll.

Stöðu og nánari úrslit má sjá hér.

 

 

 

Nýjustu fréttirnar