Íslandsmeistarar einstaklinga með forgjöf 2013

Facebook
Twitter

Hafdís Pála Jónasdóttir KFR og Kristófer John Unnsteinsson ÍR eru Íslandsmeistarar einstaklinga með forgjöf 2013 og er þetta í fyrsta sinn sem þau vinna þennan titil. Í 2. sæti voru Vilborg Lúðvíksdóttir ÍA og Baldur Hauksson ÍFH og í 3. sæti voru Ragna Matthíasdóttir KFR og Andri Freyr Jónsson KFR. Óskum við þeim öllum til hamingju með árangurinn.

Keppni á Íslandsmóti einstaklinga í keilu með forgjöf 2013 fór fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð og Keiluhöllinni í Egilshöll dagana 2. – 5. mars. Alls tóku 15 konur og 31 karl þátt í forkeppni mótsins og er það svipaður fjöldi og undanfarin ár. Í forkeppninni var spilað annan daginn í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð og hinn daginn í Keiluhöllinni í Egilshöll, en keppni í milliriðli, undanúrslitum og úrslitum fór fram í Keiluhöllinni í Egilshöll.

 

Í forkeppninni í kvennaflokki var hörð keppni um efstu sætin og þegar henni lauk var Bára Ágústsdóttir KFR í efsta sæti, Vilborg Lúðvíksdóttir ÍA í 2. sæti og Hafdís Pála Jónasdóttir KFR í 3. sæti. Þegar kom í milliriðilinn náði Vilborg öruggri forystu í efsta sætinu og hélt henni þangað til keppni í undanúrslitum lauk. Sigurlaug Jakobsdóttir ÍR var þá í 2. sæti og Hafdís Pála í 3. sæti. Í undanúrslitunum spilaði Vilborg mjög vel eða 931 án forgjafar og vann fjóra leiki af fimm og endaði með 2.454 pinna í 1. sæti. Hún hafði 150 pinna forskot á Hafdísi Pálu Jónasdóttur sem tryggði sér 2. sætið og sæti í úrslitunum, með 907 án forgjafar og sigur í fjórum leikjum af fimm og endaði með 2.383 pinna. Ragna Matthíasdóttir KFR vann sig upp úr 5. sæti í 3. sætið með 909 án forgjafar og sigur í þremur leikjum og endaði með 2.353 pinna alls.

Í úrslitunum tryggði Hafdís Pála sér sigurinn í fyrsta leiknum með 244 með forgjöf (215 + 29) á móti 208 hjá Vilborgu (168 + 40). Annar leikinn vann Hafdís Pála einnig með stórleik 234 með forgjöf (205 + 29) en Vilborg spilaði 172 með forgjöf (132 + 40). Þar sem Hafdís Pála hafði verið í 2. sætinu að loknum undanúrslitum þurfti hún að vinna 3 leiki til að tryggja sér titilinn og við fengum spennandi keppni í þriðja leik þar sem Vilborg sýndi mikla baráttu. Leikurinn fór þó þannig að Hafdísi Pálu vann leikinn með 5 pinnum eða með 208 með forgjöf (179 + 29) á móti 203 með forgjöf (163 + 40) hjá Vilborgu.

Sjá leiki í undanúrslitum og úrslitum í kvennaflokki

 

Kristófer John Unnsteinsson ÍR tryggði sér efsta sætið í karlaflokki á fyrri degi forkeppninnar og hélt öruggri forystu allt til loka keppninnar með góðri spilamennsku. Baldur Hauksson ÍFH var einnig í 2. sæti frá upphafi forkeppninnar allt þar til kom að keppni í undanúrslitum þar sem hann féll á tíma niður í 3. sæti en tókst að vinna það upp á endasprettinum. Í undanúrslitunum spilaði Kristófer 883 án forgjafar og vann fjóra leiki af fimm og endaði með 2.634 pinna og 219 pinna forskot á næsta mann. Andri Freyr Jónsson KFR var í harðri keppni allt kvöldið, spilaði 863 án forgjafar tókst á endanum að tryggja sér um 3. sætið með 2.499 pinna.

Í úrslitunum var Kristófer öryggið uppmálað og tryggði sér titilinn með góðri spilamennsku. Hann vann fyrsta leikinn með 239 með forgjöf (210 + 29) á móti 188 með forgjöf hjá Baldri (116 + 72). Og annan leikinn vann hann með 251 með forgjöf (222 + 29) á móti (139 + 72) hjá Baldri.

Sjá leiki í undanúrslitum og úrslitum í karlaflokki

 

Nýjustu fréttirnar