Keilarar ársins 2012

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter

Keilusamband Íslands hefur valið Ástrósu Pétursdóttur og Hafþór Harðarson úr ÍR sem íþróttakonu og íþróttamann ársins í keilu. Á myndinni má sjá Ástrósu og Hafþór taka við verðlaunum fyrir Sjóvá mótið, bikarkeppni einstaklinga sem þau unnu á dögunum.

Ástrós Pétursdóttir ÍR
Helstu afrek Ástrósar á árinu 2012 eru að hún varð Íslandsmeistari para ásamt Stefáni Claessen ÍR. Hún varð í 4. sæti á Íslandsmeistaramóti einstaklinga og varð Deildarmeistari og endaði síðan í 2. sæti á Íslandsmóti liða í 1. deild kvenna með liði sínu ÍR-Buff. Hún keppti með kvennalandsliði Íslands sem tók þátt í Evrópumóti landsliða, sem  fram fór í Tilburg í Hollandi í júní 2012. Á nýliðnu hausti hefur Ástrós borið höfuð og herðar yfir aðrar konur í greininni, en eins og áður sagði þá varð hún Íslandsmeistari para 2012, hún varð Bikarmeistari einstaklinga og vann meistaramót ÍR í kvennaflokki. Ástrós er með hæsta meðaltal íslenskra kvenna í keilu í dag eða 182,82 að meðaltali í leik. Ástrós hefur verið góð fyrirmynd ungra keilara.

Hafþór Harðarson ÍR
Helstu afrek Hafþórs á árinu 2012 eru að hann varð Íslandsmeistari einstaklinga annað árið í röð. Hann varð Svíþjóðarmeistari í þriggja manna liðakeppni, 3. sæti SM-elite meistarakeppni í Svíþjóð og í 2. sæti í sænsku deildarkeppninni með liði sínu Team Pergamon. Hafþór varð í 27. sæti  af 208 keppendum á Evrópumóti landsliða sem fram fór í Austurríki á árinu og í 14 sæti af 42 keppendum á Evrópumóti landsmeistara 2012. Hafþór varð Reykjavíkurmeistari 2012 og Íslandsmeistari í tvímenningi ásamt Einari Má Björnssyni ÍR. Í nóvember tók Hafþór þátt í sterku atvinnumanna móti (World series) í Las Vegas og þar varð hann í 84. sæti af 264 keppendum og í tvímenningskeppni endaði hann í 17. sæti af 66 tvímenningum. Á árinu lék Hafþór einn 300 leik og hefur því 11 sinnum leikið fullkominn leik á sínum ferli.

Laugardaginn 29. desember nk. fer fram hóf ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna þar sem Íþróttamaður ársins 2012 verður kjörinn og verða þá jafnframt veittar viðurkenningar til íþróttakvenna og íþróttamanna ársins 2012 í sérgreinum íþrótta innan ÍSÍ. Verður þetta í átjánda sinn sem þessir aðilar standa að sameiginlegri hátíð fyrir íþróttafólk og íþróttaforystu með stuðningi Ólympíufjölskyldu ÍSÍ.

Nýjustu fréttirnar