Opna Reykjavíkurmót einstaklinga 2016 (án forgjafar)

Hafþór Harðarson ÍR og Dagný Edda Þórisdóttir KFR sigruðu mótið 2015Skráning er hafin á Opna Reykjavíkurmót einstaklinga í keilu 2016. Skráning fer fram hér. Skráningu lýkur fimmtudaginn 15. september kl. 21:00.

Leiknir verða 9 leikir í forkeppni og komast fjórir efstu karlar og konur áfram í undanúrslit. Undanúrslitin eru þannig að 1. og 4. sætið keppa annarsvegar og 2. og 3. sætið hinsvegar. Sá keilari sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í úrslitaleikinn og þarf tvo sigra þar til að vinna. Ekki er keppt um þriðja sætið, tvö brons.

Forkeppnin er laugardaginn 17. september kl. 09:00, 6 leikir og sunnudaginn 18. september kl. 09:00, 3 leikir.
Undanúrslit og úrslit eru þar strax á eftir.

Olíuburður er sá sami og notaður verður í deildarkeppninni, 2013 EBT 15 – Columbia 300 Vienna Open.

Verð kr. 6.000,-

Vinsamlegast skráið ykkur tímalega.

Undirbúningsnefnd áskilur sér rétt til breytinga í
forkeppninni.

Reykjavíkurfélögin

Minnum einnig á að skráning í Opna Reykjavíkurmót einstaklinga 2016 með forgjöf stendur yfir.

Pepsí mótaröðin hófst í gær

Keila í KeiluhöllinniÍ gærkvöldi hófst Pepsí-keilan að nýju eftir sumarfrí. Ágætis mæting var í mótið eða 16 keilarar. Talsverður fjöldi fólks var fyrir í Keiluhöllinni en það hefur varla sést svona mikið af fólki á sunnudagskvöldi í dágóðan tíma. Að þeim sökum var svolítið þröngt um okkur en það blessaðist eins og búast mátti við. Í efsta sæti í * flokki varð Hlynur Örn Ómarsson úr ÍR en hann spilaði 781 í fjórum leikjum sem gera 195,25 í meðaltal. Í A flokki varð það Guðný Gunnarsdóttir ÍR sem spilaði 738 eða 184,5 í meðaltal. B flokkinn tók Bergþóra Rós Ólafsdóttir ÍR með 660 eða 165 í meðaltal og C flokkinn tók Ingi Már Gunnarsson ÍR með 595 eða 148,75. Olíuburðurinn í gær var C-Tower of Pisa 41 fet.

Mótin halda svo áfram alla sunnudaga í vetur og von er á að næsta sunnudag verði sett á sú olía sem verður í deildinni fyrri hluta tímabilsins.

Þátttöku Íslands á EM lokið

Í dag lauk liðakeppninni á EM í keilu. Íslenska liðið spilaði vel í dag, fékk 3146 stig eða um 210 að meðaltali.

Þrátt fyrir þessa góðu spilamennsku tókst liðinu ekki að ná markmiðinu sem var að tryggja sig inn á HM í Kuwait 2017.  Strákarnir voru nálægt þessu markmiði og segja má að leifaspilið hafi orðið til þess að þetta takmark náðist ekki. Ísland endaði í 18 sæti í liðakeppninni.

Arnar Davíð Jónsson spilaði best Íslendinga á mótinu, var með 212,29 að meðaltali í hverjum leik. Arnar endaði í 56. sæti af 218 keppendum.

Árangur var annars sem hér segir:

Skúli Freyr Sigurðsson varð í 93. sæti með 204,9 í mtl.

Gústaf Smári Björnsson varð í 106. sæti með 203,3 í mtl.
Bjarni Páll Jakobsson varð í 130. sæti með 198,2 í mtl.
Stefán Claessen varð í 169. sæti með 191,9 í mtl.
Guðlaugur Valgeirsson varð í 189. sæti með 188,6 í mtl.
 
„Við vorum grátlega nálægt því að ná markmiði okkar og strákarnir eiga heiður skilinn fyrir að berjast fyrir markmiðinu alveg fram í rauðan dauðann. Þeir spiluðu vel í liðakeppninni en herslumuninn vantaði þar og því fór sem fór. Við förum ekki á HM að þessu sinni en eigum þó okkar fulltrúa þar því kvennaliðið mun keppa þar. Nú þarf að fara í að finna verkefni fyrir karlaliðið því fyrst þetta klikkaði er langtí næsta verkefni og liðið verður að hafa eitthvað að gera til að staðna ekki“  sagði Ásgrímur H. Einarsson þjálfari liðsins virkilega svekktur eftir að móti lauk.

Þó Íslenska liðið hafi lokið keppni þá er mótinu ekki lokið. Á morgun er keppa 24 efstu keppendurnir til úrslita um Evrópumeistaratitilinn í all event.  Íslenska liðið heldur heim á mánudaginn.

Liðakeppnin hálfnuð

Nú er fyrri keppnisdegi í liðakeppni EM lokið. Strákarnir voru í 9. sæti eftir fyrri riðilinn í morgun.

Þegar seinni riðillinn hafði lokið keppni höfðu 9 lið komist upp fyrir okkar stráka og þeir því í 18. sæti fyrir seinni daginn. Þar bíður erfitt en ekki ómögulegt verkefni, að komast hærra því eftir því sem liðið endar í betra sæti þá aukast líkurnar á að fá nógu mörg stig til að komast á HM í Kuwait.

 

Á morgun hefst keppni kl. 11:30 og tekur spilamennskan ca. 4,5 klst.

Fyrri helming í liðakeppni lokið

Í dag hófst liðakeppni á EM í Brussel. Strákarnir okkar stóðu sig vel og halda möguleikanum á HM sæti í Kuwait lifandi.  

Liðið í dag var skipað Gústafi, Bjarna, Stefáni, Skúla og Arnari Davíð.  Guðlaugur lék í liði sem skipað var 6. manni frá 4 öðrum þjóðum og spilaði 553.
Strákarnir byrjuðu daginn ekkert allt of vel, spiluðu 958 í fyrsta leik. Þeir vöknuðu svo til lífsins í leik 2 og 3, spiluðu 1051 og 1058 sem setti þá í 9 sæti eftir fyrri riðilinn.
Stefán kom heldur betur sterkur inn eftir slakkt gengi á mótinu hingað til, spilaði hann best í Íslenska liðinu eða 656. Næst komu Gústaf með 632, Arnar með 609, Skúli með 598 og Bjarni með 573.
Nú stendur yfir seinni riðillinn og eftir að honum líkur verða línur aðeins farnar að skýrast með framhaldið. 

Opna Reykjavíkurmót einstaklinga með forgjöf

Hlynur Örn Ómarsson og Berþóra Rós Ólafsdóttir sigruðu mótið 2015Skráning er hafin á Opna Reykjavíkurmót einstaklinga í keilu 2016 með forgjöf. Skráning fer fram hér á vefnum. Skráningu lýkur fimmtudaginn 8. september kl. 21:00.

Leiknir verða 9 leikir í forkeppni og komast fjórir efstu karlar og konur áfram í undanúrslit. Undanúrslitin eru þannig að 1. og 4. sætið keppa annarsvegar og 2. og 3. sætið hinsvegar. Sá keilari sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í úrslitaleikinn og þarf tvo sigra þar til að vinna. Þeir sem tapa undanúrslitum spila um þriðja sætið, tvo sigra þarf.

Forkeppnin er laugardaginn 10. september kl. 09:00, 6 leikir og sunnudaginn 11. september kl. 09:00, 3 leikir.
Undanúrslit og úrslit eru þar strax á eftir.

Olíuburður er sá sami og notaður verður í deildarkeppninni, 2013 EBT 15 – Columbia 300 Vienna Open.

Forgjöf er 80% af meðaltali mínus 200.

Verð kr. 6.000,-

Vinsamlegast skráið ykkur tímalega.

Undirbúningsnefnd áskilur sér rétt til breytinga í
forkeppninni.

Reykjavíkurfélögin

Opna Reykjavíkurmótið án forgjafar verður helgina eftir 17. til 18. Sjá frétt og skráningu síðar.

Þrímenningi lokið á EM.

Nú var að ljúka þrímenningi á EM í keilu hér í Brussel. 72 þrímenningar tóku þátt. Íslensku strákunum gekk ekki nógu vel í dag.

Ísland 1, skipað þeim Skúla Frey, Bjarna Páli og Arnari Davíð, endaði í 33. sæti en Ísland 1, skipað Guðlaugi, Gústafi og Stefáni, endaði í 63. sæti.
Evrópumeistarar í þrímenningi urðu Danir en þeim hefur gengið mjög vel á þessu móti. Þeir unnu Þjóðverja í úrslitum 687 – 651. Í þriðja til fjórða sæti urðu svo Svíar og Norðmenn.
 
Liðið er nú komið með bakið upp við vegg varðandi að ná sæti sem gefur leikheimild á HM í Kuwait á næsta ári. Gefin eru stig fyrir hverja grein, einstaklins-, tvímennings-, þrímenningskeppni sem og keppni 5 manna liða. Keppni 5 manna liða hefst á morgun. Þar þurfa strákarnir að lenda í amk. 10 sæti til að ná þessu markmiði, að komast á HM í Kuwait. Strákarnir hafa ekki náð að sýna sitt rétta andlit enn sem komið er en nú er að duga eða drepast.
 
Fimm manna liðið fyrri daginn verður skipað eftirtöldum leikmönnum:
 
Gústaf Smári Björnsson
Bjarni Páll Jakobsson
Stefán Claessen
Skúli Freyr Sigurðsson
Arnar Davíð Jónsson
 
Guðlaugur Valgeirsson mun þó ekki hvíla á morgun en hann leikur á sama tíma með leikmönnum hinna þjóðanna sem eru utan fimm manna liðs sinnar þjóðar.
 
Keppni í fyrramálið hefst kl. 7:00 að íslenskum tíma.

 

Þrímenningskeppni hafin á EM

Fyrri degi þrímenningskeppni EM í keilu var að ljúka. Íslensku þrímenningunum gekk upp og ofan:

Ísland 1

Guðlaugur Valgeirsson spilaði 498 eða 166 í mtl

Gústaf Smári Björnsson spilaði 646 eða 215,3 í mtl
Stefán Claessen spilaði 589 eða 196,3 í mtl
 
Samtals spiluðu þeir því 1733 eða 192,5 í mtl. Það setur þá í 54 sæti fyrir seinni helminginn.
 
Ísland 2
 
Skúli Freyr Sigurðsson 650 eða 216,7 í mtl
Bjarni Páll Jakobsson 586 eða 195,3
Arnar Davíð Jónsson spilaði 620 eða 206,7
 
Samtals spilu þeir því 1856 eða 206,2 í mtl. Það setur þá í 25. sæti fyrir seinni helminginn og í ágætis stöðu til að ná í stiga sæti en 15 efstu sætin gefa stig til þátttöku á HM í Kuwait 2017.
 
Keppni í þrímenning heldur áfram á morgun.

EM karla – Tvímenningskeppni lokið.

Tvímenningskeppni á EM í keilu lauk í dag en þá léku Arnar Davíð Jónsson og Skúli Freyr Siguðrssong. Þeir áttu ágætis dag en strákarnir ætluðu sé meira og voru ekki sáttir sjálfir við daginn. Arnar spilaði 1286 sem gerir 214,3 í mtl. og Skúli spilaði 1233 sem gerir 205,5 í mtl. Samtals spiluðu þeir því 2519 eða 209,9 í meðaltal og enduðu í 41. sæti.

Í gær spiluðu hinir íslensku keppendurnir og eftir að keppni lauk var ljóst að þeir höfðu lokið tvímenningskeppninni í eftirtöldum sætum:
 
Guðlaugur Valgeirsson og Bjarni Páll Jakobsson enduðu í 53. sæti
Stefán Claessen og Gústaf Smári Björnsson enduðu í 73. sæti.
 
Til úrslita í tvímenningi léku Finnarnir Joonas Jahi og Osku Palermaa við Danina Jimmy Dan Moretensen og Jesper Agerbo.  Finnarnir sigruðu 432 á móti 380.
 
Á morgun hefst keppni í þrímenningi. Þar leikur fyrri þrímenningur okkar kl. 9:00 (7:00 ísl) en þann þrímenning skipa Gústaf Smári Björnsson, Guðlaugur Valgeirsson og Stefán Claessen.
Kl. 16:30(14:30 ísl) leikur svo seinni þrímenningurinn en hann skipa Skúli Freyr Sigurðsson, Bjarni Páll Jakobsson og Arnar Davíð Jónsson.
Keppni í þrímenning líkur svo á fimmtudag.
 
Hægt er að sjá nánar um mótið á heimasíðu þess, www.emc2016.be